Öryggismál sjómanna

144. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 10:45:20 (6460)

     Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Fsp. mín til samgrh. er um öryggismál sjómanna. Hún beinist að mikilvægi þess að komast að orsökum sjóslysa og því að draga lærdóm af niðurstöðum rannsóknar hverju sinni þannig að unnt sé að komast hjá því að það sama endurtaki sig. Fsp. varðar einnig fyrirbyggjandi öryggisþátt.
    Með breytingu á siglingalögum árið 1986 er lagður lagalegur grunnur að sjóslysanefnd og þar með komið á svipaðri skipan við rannsókn sjóslysa og gildir um rannsókn flugslysa samkvæmt lögum. Verksvið nefndanna er áþekkt samkvæmt lögunum. En þær væntingar sem bundnar voru við breytingarnar sem gerðar voru 1986 um að faglegar yrði staðið að rannsóknum með það að færa þær í sama horf og rannsóknir flugslysa virðast ekki hafa gengið eftir þrátt fyrir lagasetningu.
    Þegar reynt er að leita upplýsinga um hvernig framkvæmd laganna hefur tekist kemur strax í ljós að starfsreglur sem átti að setja vantar. Reglugerð hefur ekki verið sett. Því spyr ég ráðherra:
  ,,1. Hvers vegna hafa enn ekki verið settar starfsreglur fyrir rannsóknarnefnd sjóslysa svo sem boðað er í lögum nr. 21/1986?
    2. Hefur að dómi ráðherra tekist að færa rannsóknir á sjóslysum ,,í nútímalegt horf`` eins og stefnt var að með breytingu á siglingalögum 1986, t.d. með því að haga þeim eins og gert er þegar flugslys verða?``
    Forseti. Sjósókn á Íslandi hefur alltaf verið mikil og fast sóttur sjór en veður jafnframt oft válynd. Okkar sjómenn hafa kynnst því vel gegnum tíðina að berjast við óvægin náttúruöfl. Aðstæður um borð eru hins vegar ólíkar í dag miðað við það sem áður var, a.m.k. hvað varðar stærri báta og skip. Fyrr á tímum stóð skipstjórnarmaðurinn í brúnni, stýrði eftir kompás með hönd á stýri upptekinn við að rýna í sortann eða út í myrkrið ef aðstæður voru þannig og við að halda skipinu á réttri stefnu. Í dag er öldin önnur. Nú er skipstjórnarmaðurinn umkringdur tækjum. Allt er sjálfvirkt og sjálfstýring. Tækin eru skær og blindandi og trufla jafnvel af þeim orsökum útsýn úr brú þegar dimmt er. Ef hann er komin með skipið of nálægt landi sést það ekki í radarnum. Skipstjórnarmaður sem er einn á vakt á stíminu situr því jafnvel yfir suðandi og svæfandi tækjabúnaði. Það er hætt við að fæstir kalli eftir því að hafa mann með sér á vakt því með því er svefntíminn tekinn af þeim sem beðinn er, að menn hliðri sér hjá slíkri öryggisaðgerð þó það sé skynsamlegt og alþjóðalög mæli fyrir um varúðarráðstafanir. Menn treysta líka á tækin, þykir ekki þurfa að tveir séu á vakt. Því er haldið fram að þannig sé oftast einn á vakt á stíminu.
    En ef eitthvað kemur fyrir er sá hinn sami einn til frásagnar og ef getsakir eru uppi í kjölfar slyss er það mjög sársaukafullt fyrir þann sem í hlut á. Því er þriðja spurning mín til ráðherrans:
    ,,3. Telur ráðherra koma til greina --- einkum í ljósi tíðra sjóslysa að undanförnu --- að herða varúðarreglur við siglingar skipa þannig að aldrei verði færri en tveir menn á vakt í brúnni hverju sinni?``