Málefni Sléttuhrepps

144. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 12:09:20 (6497)

     Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) :
    Virðulegi forseti. Sléttuhreppur er einn af þeim hreppum á landinu sem farið hafa í eyði. Mig minnir að síðustu íbúar þar hafi flutt burtu um 1953. Fáum árum síðar lagðist annað hreppur í eyði, nágrannahreppurinn Grunnavíkurhreppur, í nóvember 1962. Fljótlega var gerð sú breyting að Grunnavíkurhreppur var lagður undir Snæfjallahrepp sem er nágrannahreppur Grunnavíkurhrepps. Þannig hefur sú skipan haldist frá því. Hins vegar virðist hafa gleymst að sjá fyrir Sléttuhreppi þannig að hann er í sjálfu sér enn til sem sveitarfélag með þá sérstöðu að þar býr ekkert fólk. Nú hefur komist hreyfing á að bæta úr þessu máli og hafa farið fram viðræður milli Ísafjarðarkaupstaðar og félmrn. út af þessu máli. Ég hef því leyft mér að bera fram fjórar fsp. á þskj. 890 til hæstv. félmrh. sem varða málsmeðferð:
  ,,1. Hefur ráðherra áform um að sameina Sléttuhrepp öðru sveitarfélagi og ef svo er, þá hverju?
    2. Hvaða sveitarfélög telur ráðherra vera ,,nágrannasveitarfélag``, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 8/1986?`` --- Það eru svonefnd sveitarstjórnarlög og í þeim er kveðið á um að sameina beri sveitarfélagið nágrannaveitarfélagi, en eina nágrannasveitarfélagið er Grunnavíkurhreppur sem í dag er reyndar hluti af Snæfjallahreppi sem er því miður þannig statt um að örfáir íbúar eru í honum þannig að þar gætu orðið veruleg tíðindi á næstu örfáum árum.
  ,,3. Hvernig hyggst ráðherra standa að sameiningunni?
    4. Telur ráðherra koma til greina að Sléttuhreppur og Grunnavíkurhreppur heyri til sama sveitarfélags?``