Málefni fatlaðra

146. fundur
Föstudaginn 15. maí 1992, kl. 18:43:20 (6698)

     Frsm. minni hluta félmn. (Kristinn H. Gunnarsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Að vísu er þess ekki kostur á tveim mínútum að fara yfir allt, enda ætla ég ekki að gera það. Ég hef ræðutíma til þess sem ég get nýtt mér ef ég kýs svo, en ég vil aðeins vegna hinna dræmu undirtekta sem tillögur mínar fengu hjá ráðherra taka fram fáein atriði. Sérstök vonbrigði mín urðu þó þau að ráðherra gat ekkert um vilja sinn til að ná samkomulagi eða leysa ágreining sem ég margítrekaði að væri minn vilji.
    Ég bið í fyrsta lagi ráðherra að útskýra fyrir þingheimi hvernig hún getur lagt til að breyta núverandi svæðisskrifstofum á þeim forsendum að þær séu bæði framkvæmdaaðili og eftirlitsaðili með sjálfum sér og í ljósi þessa rökstuðnings lagt til að svæðisskrifstofurnar heyri beint undir félmrn. þannig að

félmrh. sé bæði framkvæmdaaðili og eftirlitsaðili. Sá rökstuðningur sem notaður er í frv. fellir þessa meginbreytingu á stjórnarfarskaflanum í frv. Það er ekki nokkur leið út úr þessari rökhugsun, virðulegi forseti.
    Hér var vitnað í réttindagæslu. Auðvitað gerir mín tillaga málið ekki óvirkt. Hún gerir það fremur virkt. Svæðisráð er samkvæmt mínum tillögum framkvæmdaaðili og réttindagæslumaður á að gæta hagsmuna fatlaðra, ekki starfsmannanna. Þess vegna getur réttindagæslumaður ekki verið starfsmaður svæðisráða. Hann hlýtur að verða að vera starfsmaður ráðuneytisins. Það er eðlilegt þar sem hann er eftirlitsmaður með framkvæmd laganna sem ráðuneytið fer með líka.
    Virðulegi forseti. Ég á margt ósagt. Ég sé að tíma mínum er lokið og ég vil ekki níðast á góðsemi forseta.