Málefni fatlaðra

146. fundur
Föstudaginn 15. maí 1992, kl. 18:49:15 (6701)


     Ingibjörg Pálmadóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hæstv. félmrh. svaraði þeim tillögum sem ég bar fram á heldur neikvæðan hátt. Í fyrsta lagi hefði ég haft áhuga fyrir að vera með miklu, miklu fleiri brtt. En ég ákvað að hafa þær fáar því að ég vonaðist til að þær yrðu frekar samþykktar.
    Það er alveg rétt, sem kom fram í máli hæstv. ráðherra, að í frv. sem hér liggur fyrir er sú stefnumótun að fatlaðir njóti sem mest almennrar þjónustu. En við verðum að horfa til þess að víða úti á landi er þessi þjónusta ekki til staðar og það er verið að færa geðfatlaða yfir á þennan geira og þá verður þjónustan við þá að fylgja með. Þess vegna kemur tillaga fram um að geðlæknisþjónusta sé veitt og ég tel það alveg nauðsynlegt.
    Í sambandi við hina tillöguna sem ég var með, um að við sjálfseignarstofnanir væru gerðir þjónustusamningar, þá benti hæstv. ráðherra á að það væri óeðlilegt að hafa þessa grein í 14. gr. Ég væri alveg tilbúin að færa hana niður í 15. gr. ef hæstv. ráðherra finnst hún fara betur þar. Mér skildist að það væri tæknilegt atriði að það væri ekki rétt að hafa hana í 14. gr. Ef hæstv. ráðherra er tilbúinn að setja þessa tillögu inn í 15. gr. er ég tilbúin að fallast á það.
    Það var ekki rætt um gildistímann, en ég var með tillögu um að gildistíminn væri 1. jan. Ég tel líka mikilvægt mál að það sé viss aðlögunartími þar til þessi lög taka gildi.