Málefni fatlaðra

146. fundur
Föstudaginn 15. maí 1992, kl. 19:08:00 (6703)


     Frsm. minni hluta félmn. (Kristinn H. Gunnarsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Til skýringar á brtt. minni um það að svæðisráðum verði heimilt að ráða sér starfsmann vil ég taka fram að eins og frv. er úr garði gert er ekki kveðið á um það. Út af fyrir sig má álykta eins og hv. 10. þm. Reykv. gerði að það væri ekki bannað. En það þýðir að fyrst ekki er kveðið á um það þarf fjárveitingu eða stöðuheimild til þess frá ríkinu. Ef kveðið er á um það í lögum er það komið inn, þarf ekki að sækja það.
    Ég er að mörgu leyti sammála hv. þm. um að það eru auðvitað vissar hömlur á því að sveitarfélög geti yfirtekið málaflokkinn í snarkasti, enda hef ég ekki hugsað málið þannig. Eins og bráðabirgðaákvæði mitt er frá gengið geri ég ráð fyrir að það verði komnar tillögur og ég hef hugsað að í þeim tillögum verði ákveðinn ferill sem menn hefðu komið sér saman um til að láta málið koma yfir á sveitarfélögin.
    Ég vil aðeins að lokum, virðulegi forseti, minna á eitt af þeim fylgiskjölum sem fyglir með nál. mínu, eitt af þeim fáu. Það er til skýringar á málefnum geðfatlaðra. Það er eitt af því sem fram kemur í frv. og er til verulegra bóta að þar er kveðið á um úrræði til handa geðfötluðum gegnum sérstaka fjárveitingu úr Framkvæmdasjóði fatlaðra. En gildandi lög hafa ekki hamlað því að menn tækju á vandamálinu. Það hefur skort úrræði, það hefur skort peninga. Það þurfti í sjálfu sér ekki lagafrv. til að ná utan um málefni geðfatlaðra. Ég vil leyfa mér að lesa þau fáu orð sem hér standa frá Ingimar Sigurðssyni sem hefur átt sæti í stjórnarnefnd hingað til. Það er svo, með leyfi forseta:
    ,,Gildandi ákvæði laga nr. 41/1983, um málefni fatlaðra, standa ekki í vegi fyrir því að geðfatlaðir njóti sama réttar sem aðrir einstaklingar. Hlutaðeigandi ráðuneyti, félmrn. og heilbrrn., svo og stjórnarnefnd um málefni fatlaðra hafa til þessa leyst ágreiningsmál sem upp hafa komið varðandi þennan þátt. Sem dæmi má nefna rekstur sambýlis á Akureyri sem er á vegum félmrn. en var í upphafi á vegum heilbrrn. Annað mál er að úrræði skortir varðandi vistun geðfatlaðra. Þeir hafa á stundum verið vistaðir á geðsjúkrahúsum sem í reynd samrýmist ekki lögum um málefni fatlaðra og breytist ekki með breyttum og fyllri lagaákvæðum einum saman.``
    Virðulegur forseti. Ég vildi aðeins að þetta kæmi fram og segja að eina tilvikið þar sem geðfatlaðir heyra ekki undir félmrn. eru þeir sem eru ósakhæfir afbrotamenn og hafa fullframið afbrot. Þeir heyra undir heilbrrn.