Málefni fatlaðra

146. fundur
Föstudaginn 15. maí 1992, kl. 19:11:00 (6704)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Svo aðeins sé komið að þætti sveitarfélaganna, þá finnst mér að í bráðabirgðaákvæði V, þar sem segir að endurskoða skuli þessi lög innan fjögurra ára frá gildistöku þeirra og að höfðu samráði við Samband ísl. sveitarfélaga og heildarsamtök fatlaðra og að endurskoðunin skuli m.a. miða að því að auka ábyrgð sveitarfélaganna í málefnum fatlaðra, felist sú viljayfirlýsing af hálfu Alþingis, ef það samþykkir frv., að koma málaflokknum sem mest yfir til sveitarfélaganna. Og þá vil ég líka aftur minna á 14. gr. frv. þar sem heimild er fyrir því að gera sérstaka samninga við sveitarfélög á vettvangi sveitarfélaganna sjálfra, héraðsnefnda eða byggðarsamlaga um að þau taki að sér, ef þau telja sig í stakk búin og vilja starfa saman um það, alla þjónustuna eða ákveðna þætti. Um þetta, ef einhver sveitarfélög eru tilbúin t.d. eftir eitt ár, innan nokkurra mánaða eða tvö ár eða þrjú ár, er auðvitað hægt að gera samninga á þessu tímabili þannig að málaflokkurinn væri því sem næst kominn í þeirra hendur eða þjónustan öll komin í þeirra hendur eftir gerð slíkra samninga. Mér finnst í þessu frv. einmitt felast ákveðinn þróunarmöguleiki í málaflokknum þannig að hann geti á þessu tímabili færst í æ ríkara mæli yfir til sveitarfélaganna.