Atvinnuleysistryggingasjóður

148. fundur
Laugardaginn 16. maí 1992, kl. 11:29:00 (6762)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Þegar þetta mál kom til umræðu var að því vikið að samkvæmt þeim upplýsingum sem fram hafa komið skortir fé í Atvinnuleysistryggingasjóð til að standa undir skuldbingingum sjóðsins á þessu ári. Það var rakið í umræðunum að samkvæmt gildandi fjárlögum hefur ríkisstjórnin varla heimildir til þess að greiða út bætur vegna atvinnuleysis seinni hluta sumars. Það var óskað eftir því sérstaklega við 1. umr. að þetta mál yrði tekið fyrir og skýrt við meðferð málsins í þinginu. Ég varð þess vegna nokkuð undrandi á því að framsögumaður nefndarinnar vék ekki að þessu einu orði. Ég vil þess vegna eindregið óska eftir því að um þetta verði fjallað við afgreiðslu málsins. Ég vil einnig óska eftir því að varaformaður fjárln., hv. þm. Pálmi Jónsson, komi til umræðunnar. Einnig finnst mér óeðlilegt að ræða þetta að mér sýnist að öllum nefndarmönnum í efh.- og viðskn. fjarstöddum. Og ég vil spyrja virðulegan forseta: Er það virkilega þannig að efh.- og viðskn. eða þorri nefndarmanna, af því að ég veit að sumir þeirra eru einnig í sjútvn., séu á fundi núna meðan við erum að ræða mál af þessu tagi?
    Þetta mál snertir auðvitað ekki bara þær efnisgreinar sem verið var að mæla fyrir heldur einnig fjárhag ríkissjóðs, fjárlögin, og fjárhag Atvinnuleysistryggingasjóðs. Það kom fram hjá hv. þm. Svavari Gestssyni þegar þetta mál var rætt að nýjar upplýsingar um stöðu sjóðsins og einnig nýjar upplýsingar um atvinnuleysi sýna að það fer vaxandi og fjárþörf sjóðsins fer vaxandi. Sú hugmynd var sett fram hvort þingið mundi þá beita sér fyrir afgreiðslu fjáraukalaga fyrst ríkisstjórnin virðist ekki ætla að gera það.
    Ég sé, virðulegur forseti, þegar ég lít yfir salinn að það er a.m.k. einn nefndarmaður í efh.- og viðskn. í salnum eða tveir, nú þrír, þeim fer fjölgandi, það er gott að vita það. Væri þá fróðlegt að vita hvort þeir geta upplýst hvort þetta mál hefur borið á góma í lokahrinu afgreiðslu mála í nefndinni. En þó er einkanlega mikilvægt að hv. þm. Pálmi Jónsson komi til fundarins. Það er af eftirgreindum ástæðum: Hv. þm. Pálmi Jónsson og öll fjárln. leggur á það ofurkapp að nýtt frv. um greiðslu fjármuna úr ríkissjóði verði afgreitt í þinginu. Sjálfsagt er almennur vilji í þinginu til að afgreiða það frv. sem lög áður en þingið fer heim. Samkvæmt því frv. sem yrði þá að lögum fyrir þinglok yrði ríkisstjórninni og fjmrn. bannað, virðulegur forseti, að greiða út atvinnuleysistryggingar t.d. í ágústmánuði ef sú upphæð, sem ætluð er til þess í fjárlögunum, væri þrotin. Og það er nokkurn veginn alveg víst að hún verður þrotin í ágústmánuði eða byrjun september, kannski fyrr. Þá spyr ég: Hvað ætlar þjóðþingið að gera í þessari stöðu? Eða ætlar þjóðþingið að byrja á því að taka sjálft sig ekki alvarlega? Koma saman á þriðjudaginn alvarleg í framan og setja ný lög um greiðslur úr ríkissjóði, óskapleg ánægja, nýtt kerfi. Morgunblaðið skrifar leiðara og fagnar þessari byltingu. En strax í ágústmánuði yrðu nýju lögin brotin. Er þá kannski ætlunin að greiða ekki út neinar atvinnuleysisbætur? Er það virkilega ætlunin í að ágústmánuði komi fjmrh. og segi, svo ég noti orðalag hæstv. heilbrrh., sem hann hefur tamið sér á síðustu mánuðum: Því miður, þjóðþingið bannar mér? Alþingi bannar mér, segir hæstv. heilbrrh. alltaf þegar hann er að framkvæma ákvarðanir ríkisstjórnarmeirihlutans á Alþingi varðandi niðurskurð í heilbrigðiskerfinu og skerðingu á réttindum manna. Hæstv. heilbrrh. er farinn að temja sér það tungutak að segja: Alþingi bannar mér að auka fjármuni til sjúkrahúsanna. Alþingi bannar mér að halda Landakoti opnu. Alþingi bannar mér að bæta hag gamla fólksins varðandi lyfjamál. Alþingi krefst þess að ég skeri niður lyfjamálin fjá fólki. Þetta er orðalagið sem hæstv. heilbrrh. er farinn að nota. Hann er ekki maður til að segja: Við í ríkisstjórninni. Nei, hann er of hræddur til þess. Því er alltaf komið yfir á Alþingi. Og ekki einu sinni ríkisstjórnarmeirihlutann á Alþingi heldur hefur hann okkur hin með. Þannig að ég hef t.d. hitt fólk í heilbrigðiskerfinu sem fer að spyrja mig, sem greiddi atkvæði á móti þessu hér á Alþingi, af hverju ég hafi ákveðið þetta. Af því að hæstv. heilbrrh. er alltaf að villa um fyrir þjóðinni.
    Við komum þá að þessu máli. Á það líka að vera þannig að hæstv. félmrh., hæstv. heilbrrh. og hæstv. fjmrh. komi í ágúst og segi: Því miður við getum ekki borgað út atvinnuleysisbætur því að Alþingi hefur ekki heimilað það? Heilbrrh., sem þetta mál heyrir undir sem við erum að ræða, mun þá væntanlega halda áfram orðfæri sínu með sama hætti og fyrr á þessu ári og segja: Því miður, Alþingi meinar mér að borga þér út atvinnuleysisbætur, atvinnulausi maður.
    Þess vegna er það þannig, virðulegur forseti, að mér finnst ekki hægt að afgreiða þetta mál við 2. umr. fyrr en það er orðið ljóst hvað á að gera í fjármálum Atvinnuleysistryggingasjóðs. Hvað á að gera? Ég óska eftir því að hæstv. fjmrh. eða hæstv. starfandi heilbrrh. upplýsi það við umræðuna hvað á að gera. Já, hæstv. starfandi heilbrrh. hlær. Það er alveg merkilegt með Alþfl. hann er allt af farinn að hlæja þegar málefni . . .  ( Gripið fram í: Þú verður að athuga hvaða mál eru á dagskrá.) ( Umhvrh.: . . .   tala í réttu mál.) Já, ég veit það fullkomlega hvaða mál eru á dagskrá, hv. þm. En hv. þm. hefur verið erlendis eins og fleiri ráðherrar Alþfl. og veit þess vegna ekki hvað var rætt þegar þetta mál var til 1. umr. (Gripið fram í.) Það er greinilegt að sá maður sem hefur verið með sérstaka velvild í forsetastóli síðustu sólarhringa er svo farinn að skipta sér af þessu standandi út í sal með frammíköllum og öðru slíku. Það er ágætt að sjá hvernig einn af varaforsetum praktíserar þingstörfin. Það er ágætt að sjá það. Það sem höfðingjarnir hafast að . . .   Mig skiptir í sjálfu sér engu hvað menn eru að segja með frammíköllum, ráðherrar og einn af varaforsetum þingsins, varaformaður þingflokks Sjálfstfl. Aðalatriðið er að það fáist upplýst í þinginu áður en þetta mál er afgreitt það sem spurt var um þegar þessi mál, þrjú og fjögur, komu til umræðu í fyrsta sinn. Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera í fjármálum atvinnuleysistrygginga upp úr miðju þessu ári?
    Ef ríkisstjórnin ætlar ekki að gera neitt þá getur verið nauðsynlegt að á þinginu verði flutt frv. til fjáraukalaga. Þess vegna vil ég, virðulegur forseti, ítreka ósk mína um það í fjarveru hv. þm. Svavars Gestssonar að þetta verði upplýst þannig að við getum vitað nánar með hvaða hætti við eigum að taka á þessum málaflokki áður en þingi lýkur.