Skiptaverðmæti og greiðslumiðlun

150. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 00:21:03 (6978)

     Árni Johnsen :
    Herra forseti. Ég hygg að nokkuð skiptar skoðanir séu um það frv. sem hér um ræðir. Sérstaklega með tilliti til þess að málið þurfi að skoða betur. Við, tveir þingmenn, höfum flutt brtt. við þetta frv. þar sem lagt er upp úr því að fara ofan í saumana á málinu. Það eru ákveðnar forsendur fyrir því að ástæða er til þess. Það segir sig sjálft að þarna er verið að vísa máli til ráðherra til að setja reglur sem hljóta að byggjast á einhverjum hefðum. Það er í sjálfu sér ekki deilumál að ástæða sé til að breyta skiptahlutfalli sem þarna um ræðir, 1,6% og 2,4%, til sjómannasamtakanna annars vegar og farmanna og fiskimanna hins vegar, heldur að skoða málið betur. Það er í rauninni óeðlilegt að verið sé að lengja lista þessara greina og þannig sé í rauninni verið að skapa farveg fyrir það að brjóta upp samsetningu í þessum liðum. Ef í þessu tilviki Vélstjórafélag Íslands kemur inn sem sérliður þá liggur auðvitað beinast við að þar með væri hægt að neita nýrri lagabreytingu eða uppsetningu þar sem önnur sérfélög kæmu inn. Vélstjórafélag Íslands er ekki landssamband. Það eru vélstjórar í Farmanna- og fiskimannasambandinu, í Alþýðusambandi Íslands og ýmsum öðrum félögum. Þess vegna finnst mér ekki fyllilega rökrétt að afgreiða málið á þennan hátt og óska eftir því að sú brtt. sem við höfum flutt gagngert til að skoða málið betur verði athuguð og leitað álits þeirra aðila sem um ræðir. Þetta mál hefur gengið nokkuð hratt fyrir sig og þótt haft hafi verið samband við aðila þá hygg ég að það séu mjög skiptar skoðanir um framgang þess. Og ég óska eftir að málið sé skoðað í sjútvn. á milli umræðna.