Skiptaverðmæti og greiðslumiðlun

150. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 00:30:49 (6981)

     Halldór Ásgrímsson (andsvar) :
    Herra forseti. Það má vel vera að það þyki eðlilegt að Alþingi blandi sér ekki í mál sem þetta. En það vill svo til að það gilda ákveðin lög um málið. Þar er gert ráð fyrir því að það séu eingöngu önnur samtökin sem fái þetta fjármagn. Er eðlilegt að svo sé? Hin samtökin hafa engan rétt nema nafn þeirra sé nefnt í lögum og þar af leiðandi er ekki hægt að leysa málið nema breyta lögum. Það er sjónarmið út af fyrir sig að fyrst þurfi aðilar að koma sér saman og síðan eigi Alþingi að setja löggjöfina. En finnst hv. þm. það réttlátt að þannig gætu mál t.d. æxlast í nokkur ár að ákveðið félag fengi tekjur af aðilum sem eru ekki innan vébanda þess? Fyndist hv. þm. t.d. eðlilegt að Alþb. fengi tekjur vegna hv. þm. Össurs Skarphéðinssonar? ( ÓRG: Já, það er góð hugmynd.) Ég býst við að það þætti ósanngjarnt ( ÓRG: Nei.) af hálfu aðila. ( ÖS: Alltaf reiðubúinn til að leggja þeim lið sem eru í neyð.) Ekki nema menn vilji vera góðir við minni máttar. En málið fjallar ekki um það. Það fjallar um að verði skapaður jarðvegur fyrir ákveðið réttlæti og eftir langar umræður og umfjöllun um málið sjá nefndarmenn í sjútvn. enga aðra leið. Og ég vænti þess að þeir hafi eitthvert traust hjá hv. þm.