Skiptaverðmæti og greiðslumiðlun

150. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 00:37:34 (6985)

     Frsm. sjútvn. (Össur Skarphéðinsson) :
    Virðulegur forseti. Mér er nú ekki mikil gleði í hug eftir að hafa hlustað á ræðu hv. þm. Björns Bjarnasonar, varaformanns þingflokks sjálfstæðismanna. Ég hef til þessa haft nokkurt álit á téðum þingmanni fyrir greindarsakir en ég verð að segja að vera kann að ég þurfi að endurskoða það álit eftir að hafa hlustað á þessa ræðu. ( Gripið fram í: Alveg örugglega.) Má ég biðja forseta að gefa mér frið til að flytja þessa merku ræðu mína og að þeir þingmenn sem sitja hér á fremstu röðum og eru nú að hruni komnir fyrir svefnleysissakir ( Gripið fram í: Nei, nei, nei.) reyni nú e.t.v. að koma sér heim í rúm og sofi þar heldur en að híma hér á bekkjum og hiksta.
    Það sem ég vildi sagt hafa, virðulegi forseti, er að það mál sem hér er til umræðu er afskaplega einfalt. Það er afskaplega ljóst að samkvæmt lögum nr. 24/1986 er það svo að tiltekið fjármagn hefur runnið af greiðslumiðlunarreikningi fiskiskipa til Farmanna- og fiskimannasambandsins. Það er alveg ljóst, virðulegur þingmaður Björn Bjarnason, að hluti þessa fjármagns stafar af því að vélstjórar áttu aðild að sambandinu. Nú hefur það gerst að vélstjórar eiga það ekki lengur, þ.e. það hefur verið stofnað Vélstjórafélag Íslands og þá liggur það auðvitað í augum uppi og þarf ekki að telja það ofan í lögfróðan þingmann að þá verður að breyta þeim lögum sem áður giltu. Því er lagt til með þessu frv. að það sé ekki lengur einungis talað um Farmanna- og fiskimannasamband Íslands heldur og Vélstjórafélag Íslands. Frv. er afskaplega saklaust að því leyti að það gerir jafnframt ráð fyrir því, eins og ég veit að hv. þm. Björn Bjarnason hefur lesið, því ég dreg það ekki í efa að hann hafi lesið frv., að sjútvrh. setji reglur um skiptingu þessa fjár og þær reglur eiga að fara eftir afskaplega einföldum leiðum, þ.e. það á að taka mið af fjölda félagsmanna. Ég vænti þess að sú réttlætiskennd, sem ég veit að hv. þm. Birni Bjarnasyni er í blóð borin, bannar ekki að þessi leið sé farin. Þetta er sanngjarnasta leiðin.
    Hvað varðar síðan málflutning hv. þm. Árna Johnsens þá er fróðlegt að heyra hann segja að það séu í sjálfu sér ekki deilur um að breyta greiðslunum. Hvers vegna er hann þá, eins og mér virðist hann vera að gera, að reyna að tefja þetta mál? Þ.e. hann telur að það þurfi að skoða þetta mál betur. En ég verð að segja það og staðfesta það sem hv. þm. Halldór Ásgrímsson hefur sagt: Þetta mál er þaulrætt, þaulskoðað og grandskoðað. Það mundi jafnvel ekki hafa fengið betri afgreiðslu þótt jafnþingreyndur maður og til að mynda formaður Alþb. hefði verið í nefndinni. ( ÓRG: Er þá langt til jafnað.) Er þá langt til jafnað.
    Ég verð því að segja að mér finnst óþarfi að flytja brtt. um þetta mál, sér í lagi þegar fyrir liggur að Sjómannasamband Íslands hefur mótmælt því að með þessum hætti sé reynt að bregða fæti fyrir þetta mál. Það er alveg ljóst að það þarf að breyta lögunum og það er einungis það sem verið er að gera ráð fyrir og málið hefur verið grandkannað í sjútvn. þingsins þannig að ég vil mælast til þess að hv. þm., sem hafa fjallað um þetta mál af nokkurri vankunnáttu, kynni sér þetta mál eilítið betur áður en þeir taka til máls með þeim hætti sem hér hefur verið gert.