Málefni fatlaðra

151. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 15:24:00 (7070)

     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Hér er komið til 3. umr. frv. til laga um málefni fatlaðra og hefur það fengið mikla umfjöllun á Alþingi. Það er helst um það að segja að frv. hefur tekið geysilega miklum breytingum frá því að það var fyrst lagt fram á þinginu. Breytingarnar eru allar til bóta að mínu mati en það er enn hægt að finna á því ýmsa annmarka. Það er ýmislegt sem ég vil sjá inni í þessu frv. Samt sem áður tel ég að svo veigamiklir þættir séu komnir inn í frv., sem ekki voru í upphafi, að ég mun styðja það, þrátt fyrir þá annmarka sem hafa verið tíndir hér upp í mjög löngu máli hv. 5. þm. Vestf., sem er göldróttur eins og flestir Vestfirðingar. Hann getur á sama tíma og hann talar í ræðustól komið með nál. og tillögur, allt í senn. Ef allir hv. alþm. væru jafnkröftugir held ég að allt kerfið brynni yfir á Alþingi. Þær tillögur sem hann ber fram biður hann okkur þingmenn að íhuga vel og það munum við að sjálfsögðu gera en ég ætla aðeins að fara yfir þær.
    Í fyrsta lagi er hann með tillögu um það að breyta skipan stjórnarnefndar. Ég tel að sú tillaga komi innan tíðar til álita. Um leið og sveitarfélögin fara að taka yfir þennan málaflokk verður þessu breytt. Að þessu sinni mun ég sitja hjá við atkvæðagreiðslu um þessa tillögu en ég veit að þetta verður tekið upp innan tíðar þegar sveitarfélögin koma inn í þennan málaflokk af meiri þunga en verið hefur.
    Ég ætla að segja strax að ég styð b-liðinn við 4. gr. í sambandi við úrskurðarnefndina. Mér finnst þetta sjálfsögð tillaga og ágæt og mun styðja það að stjórnarnefndin úrskurði í ágreiningsmálefnum. En ég mun íhuga hinar greinarnar. Ég er sammála hv. þm. um að 21. gr. verði sérstaklega tekin fyrir en ég skil ekki almennilega af hverju hann er ekki með 22. gr. líka. Þó svo það sé búið að fella það þá er spurning hvort það hangi ekki saman, hvort hægt sé að taka þetta og slíta svona úr samhengi. Ég ætla alla vega að íhuga það mjög vandlega.
    Við framsóknarmenn styðjum meginmarkmið frv., að fatlaðir njóti sem mest almennrar þjónustu ríkis og sveitarfélaga. Ef markmið laganna á að nást þarf meiri fjármuni bæði til heilbrigðisþjónustunnar og til skólamála vegna þess að Framkvæmdasjóður hefur fjármagnað að verulegu leyti heilbrigðisþjónustuna og líka skólana. Við munum fylgjast vel með því hvernig hæstv. ríkisstjórn framkvæmir þessi markmið. Þær tillögur sem meiri hlutinn og ég skrifa undir eru að nokkru leyti sömu tillögur sem ég flutti og voru felldar hér í gær. Ég fagna því að það skuli tekið nokkuð tillit til þess sem ég bar þá fram. Að öðru leyti vona ég að við þurfum ekki að eyða allt of löngum tíma á lokadegi þingsins í þetta mál því ég held að það hafi fengið mjög mikla og góða umfjöllun síðustu daga.