Gæðamál og sala fersks fisks

11. fundur
Mánudaginn 21. október 1991, kl. 14:03:00 (312)

     Guðjón A. Kristjánsson :
     Virðulegi forseti. Ég vil einungis svara því að ég tel að það þurfi ekki að hafa þau áhrif sem komið hefur fram bæði nú og í umræðum áður að við myndum ekki geta haft áfram einhvers konar skerðingarákvæði á útfluttum fiski. Ég tel að það eigi að vera auðvelt að halda því áfram ef menn telja ástæðu til. Auðvitað verða menn þá að fylgja því eftir hvernig fiskurinn er fluttur úr landi.

    Ég veit vel að það hefur dregið úr þessum útflutningi. En ég tel að stefnan hljóti að vera, eins og hæstv. heilbrrh. nefndi hér áðan, að vinna þann afla sem fer á annað borð í vinnslu á Íslandi. Við verðum að stefna að því að hráefnið verði ekki flutt héðan til þess að vinna það erlendis og selja svo í samkeppni við okkur.
    Ég tel í sambandi við markaðina sjálfa þá muni strax gerast mjög afdrifaríkir hlutir ef við tökum á gæðamálunum. Ef við ákveðum það að fiskur megi ekki vera eldri en eitthvað ákveðið áður en hann kemur að landi, við skulum segja sjö til átta daga gamall, þá gerist það af sjálfu sér að menn geta ekki siglt beint af miðunum. Menn þurfa að landa á milli eða safna saman í skip. Og þá liggur það auðvitað ljóst fyrir að fiskurinn verður yngri þegar hann verður fluttur út ef menn þurfa standa þannig að málum.
    Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu meira núna en legg til að málinu verði vísað til 2. umr. og sjútvn.