Sementsverksmiðja ríkisins

22. fundur
Fimmtudaginn 07. nóvember 1991, kl. 17:24:00 (810)

     Jóhann Ársælsson :
     Virðulegi forseti. Það hafa áður komið til umræðu hér í þinginu frumvörp um það að breyta Sementsverksmiðju ríkisins í hlutafélag og hlotið mikla umfjöllun. Við sem höfum búið á Akranesi höfum tekið þátt í þeirri umræðu, ekki síst vegna þess að verksmiðjan er staðsett þar og er mikilvægt atvinnufyrirtæki á Akranesi. Og þetta mál hefur ítrekað komið til umsagnar bæjarstjórnar Akraness.
    Nú er líklegt að þetta frv. geti farið í gegn hér í þinginu. Ég ætla að byrja á því að lýsa því yfir að ég er því andvígur og það er aðallega af einni ástæðu. Ég tel að það hafi verið að koma fram mjög skýrt að undanförnu að hugmyndin sé að selja hlutafé í þessari verksmiðju og það er það sem ég óttast að verði gert og er þess vegna andvígur því að frv. verði samþykkt hér í þinginu.
    Sementsverksmiðjan er búin að vera lengi burðarás í atvinnulífi á Akranesi. Frá því að seinni hluta áttunda áratugarins var þetta fyrirtæki mjög illa komið fjárhagslega og nánast að verða rúst. Byggingar, vélar og tæki fyrirtækisins höfðu verið í niðurníðslu lengi. Þá var ákveðið að breyta framleiðslu í fyrirtækinu þannig að í staðinn fyrir olíu yrði farið að nota kol til þess að brenna sementið og í sambandi við þá breytingu tókst gjörsamlega að snúa við rekstrardæminu í fyrirtækinu. Stjórnvöld, sem áður höfðu komið í veg fyrir að þetta fyrirtæki gæti raunverulega staðið eðlilega að sínum rekstri, með röngum ákvörðunum um verð á sementi, breyttu um og leyfðu fyrirtækinu að njóta þess hags sem varð af því að farið var að nota kol til brennslunnar. Þetta sneri sem sagt gjörsamlega dæminu við og það starfsleyfi sem gefið var út til handa verksmiðjunni, þar sem verulega voru auknar kröfur til fyrirtækisins á allan hátt, varð til þess að það var unnið skipulega og markvisst að því að koma fyrirtækinu í sæmilegt horf.
    Nú er þetta fyrirtæki orðið, að mínu mati, gott fyrirtæki og hefur verið það undanfarin ár og það er kannski ekki síst þess vegna hægt að segja að þá er minni ástæða fyrir eiganda fyrirtækisins, íslenska ríkið, að fara að farga því.
    Ég ætla að benda á fáein atriði sem eru að mínu viti sönnun fyrir því að menn ætla sér í það að selja hlutaféð í þessu fyrirtæki og ekki bara að breyta því vegna rekstursins sjálfs í hlutafélag. Menn voru langt komnir með það að telja mönnum trú um það að ekki ætti að selja fyrirtækið, það væri einungis gert í hagræðingarskyni að gera fyrirtækið að hlutafélagi.
    Ég ætla að leyfa mér að vitna hér í þá hvítu bók sem við fengum í hendur um daginn. Þar er sagt mjög skýrum og beinum orðum að það eigi að selja hlutafé í Sementsverksmiðjunni. Með leyfi forseta, þá stendur þar eftirfarandi:

    ,,Meðal fyrirtækja sem áformað er að breyta í hlutafélög og undirbúa sölu hlutabréfa í má nefna Búnaðarbanka Íslands, Sementsverksmiðju ríkisins og Síldarverksmiðjur ríkisins.``
    Ég held að ekki sé hægt að komast skýrar að orði. Þarna er Sementsverksmiðjan talin upp í annarri töluröð þeirra þriggja fyrirtækja sem sérstaklega eru talin upp sem eigi að breyta í hlutafélag og undirbúa sölu á. Enda held ég að það fari ekki á milli mála að menn skilja þetta svona, því m.a. í Morgunblaðinu í gær er í forustugrein eftirfarandi klausa, með leyfi forseta: ,,Ríkisstjórnin hefur flutt á Alþingi frv. um stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins. Ætlunin er að ríkið eigi öll hlutabréfin en það verður að ganga út frá því að ríkisstjórnin muni fyrr eða síðar selja bréfin á almennum markaði. Engin rök eru fyrir því að ríkið framleiði sement og því eðlilegt að sú starfsemi verði seld í hendur einkaaðila. Frumvarpið hefur nokkrum sinnum áður verið flutt á Alþingi en það hefur aldrei náð fram að ganga.``
    Það er alveg greinilegt að a.m.k. þeir á Morgunblaðinu skilja hvítu bókina þannig að það eigi að selja hlutafé í Sementsverksmiðjunni og því er ég algjörlega andvígur. Ástæðurnar fyrir því get ég rakið í fáum orðum, en þær eru: Tilgangurinn með rekstri Sementsverksmiðju ríkisins er að framleiða sement með sem hagstæðustum hætti fyrir notendur þess á Íslandi. Um leið og fyrsta hlutabréfið verður selt í Sementsverksmiðju ríkisins verður eðlisbreyting á rekstri verksmiðjunnar því að auðvitað getur ekkert alvöru ríkisvald, sem býður til sölu hlutafé í einhverju fyrirtæki sem það á í sjálft, annað en viðurkennt að sá sem kaupir það hlutafé á auðvitað heimtingu á arði. Sá sem kaupir hlutafé í Sementsverksmiðju ríkisins á heimtingu á arði og þess vegna er það að um leið og fyrsta hlutabréfið verður selt þá er komin þessi krafa um arðinn. Og fyrirtæki sem hefur einokunaraðstöðu á markaðnum vegna fjarlægðar eins og Sementsverksmiðjan hefur --- því það er óumdeilanlegt að slík framleiðsla, þar sem flutningarnir eru svo geysilega stór hluti í verðinu, því lengra sem menn eru frá markaðinum, og slíkt fyrirtæki býr auðvitað við einokunaraðstöðu vegna þess. Við vitum það að Sementsverksmiðjan hefur ekki búið við það að hafa einokunaraðstöðu í raunveruleikanum, það má auðvitað flytja inn sement en það hefur ekki gerst vegna þess að fjarlægðin er of mikil og vegna þess að það þarf mikinn stofnkostnað til að geta boðið sement til sölu hér í landinu.
    Það er þess vegna sem þetta fyrirtæki er í eðli sínu einokunarfyrirtæki og það er þess vegna sem ég tel að þetta fyrirtæki eigi að vera áfram í eigu ríkisins, algjörlega, og það eigi ekki að gera mönnum vonir um að fá arð út úr þessu fyrirtæki með því að fara að selja í því hlutafé. Þar sem svona hagar til, aðstæðurnar eru þannig að fyrirtækið hefur raunverulegan einkarétt og það þarf að ákveða verðið út frá öðrum forsendum en ef um er að ræða samkeppni, þá hlýtur --- eftir að búið er að ákveða það einu sinni að selja í fyrirtækinu hlutafé --- þá hlýtur ákvörðunin um verðið að byggjast annars vegar á þörf verksmiðjunnar fyrir tekjur og hins vegar á einhverju eðlilegu mati á því hver arður hluthafanna eigi að vera og það er alveg nýtt í rekstri Sementsverksmiðjunnar. Þá yrði að fara að borga út úr rekstri hennar arð til hluthafa. Og auðvitað mundi það ekkert þýða annað en hærra sementsverð í landinu. Það hljóta allir menn að sjá.
    Það sem var eitt af stóru atriðunum sem menn glímdu við í bæjarstjórn Akraness þegar þetta mál var þar til umfjöllunar, voru tekjur af verksmiðjunni til bæjarfélagsins. Eins og menn vita greiðir Sementsverksmiðjan núna landsútsvar í stað aðstöðugjalds og skatta. En af þessu landsútsvari hefur auðvitað bæjarsjóður Akraness fengið sinn skerf. Ef þessi breyting yrði gerð þá færi verksmiðjan að greiða aðstöðugjald og miðað við núverandi fyrirkomulag þá mundi væntanlega bæjarsjóður Akraness fá nokkuð hærra til sín með því laginu heldur en hann hefur fengið undanfarið. Nú höfum við margar yfirlýsingar heyrt um

það að leggja eigi af þennan gjaldstofn, aðstöðugjaldið, þannig að auðvitað er allt í óvissu um hverjar tekjur Akraneskaupstaðar geti hugsanlega orðið af Sementsverksmiðju ríkisins eftir að búið væri að gera þessa breytingu. Aðalforsendan sem lá fyrir gagnvart Akraneskaupstað er því ekki lengur fyrir hendi, ekki þá fyrr en menn eru búnir að sjá hver niðurstaðan verður eftir að búið er að breyta aðstöðugjaldinu í einhvern annan skatt.
    Það er annars fróðlegt að lesa þetta plagg og grg. sem fylgir frv. því að í henni er auðvitað verið að tína til rökstuðninginn fyrir því að breyta verksmiðjunni í hlutafélag. Ég get svo sem viðurkennt að þar bregður fyrir hlutum sem hægt er að samþykkja. En það er ekkert sem breytir neinu í aðalatriðum fyrir rekstur verksmiðjunnar. Ég hef átt sæti í stjórn verksmiðjunnar og ég hef fylgst með henni sem íbúi á Akranesi og sem bæjarstjórnarmaður þar um langan tíma og ég hef ekki getað séð að þessari verksmiðju væri gert illt fyrir með nokkrum hætti að stjórna sínum rekstri eftir að hún fékk að hafa gjaldskrána þannig að það væri hægt að reka fyrirtækið eins og gerðist eftir að því var breytt á sínum tíma, sem ég lýsti hér áðan.
    Í grg. með frv. stendur:
    ,,Fyrirtækið hefur enga sérstöðu fram yfir önnur fyrirtæki í landinu, ýmsir kostir þess að reka fyrirtækið sem hlutafélag nýtast og verður þeim lýst hér sérstaklega.`` --- Svo þegar maður fer að lesa áfram og fylgjast með því hvað það er sem er verið að lýsa sérstaklega þá er það, eins og ég sagði áðan, afar fábreytilegt. Ég vil þó nefna eitt atriði:
    ,,Sérstök lög, nr. 62/1973, eru í gildi um verðjöfnun á sementi. Engin breyting verður á þessum þætti. Jöfnun flutningskostnaðar samkvæmt lögum þessum nær til allra verslunarstaða á landinu sem jafnframt eru aðaltollhafnir. Viðskrh. hefur heimild til að ákveða með reglugerð að jöfnun á flutningskostnaði skuli einnig ná til annarra tilgreindra verslunarstaða.``
    Nú langar mig til að spyrja hæstv. viðskrh.: Hefur hann aðra skoðun á flutningsjöfnun sements á Íslandi heldur en hann hefur á flutningsjöfnun á olíu? Eða telur hann að það komi til greina að hafa sams konar flutningsjöfnun á olíu eftir að búið er að gefa olíuverð frjálst eins og þarna er talað um að hafa á sementi?
    Þá stendur einnig í grg.:
    ,,Kostir þess að reka Sementsverksmiðjuna í hlutafélagsformi eru að með því verður reksturinn sveigjanlegri. Fjárhagsleg uppbygging fyrirtækis veldur því að mjög æskilegt er að reka fyrirtæki í eign ríkisins í hlutafélagaformi. Hverju fyrirtæki er nauðsynlegt að fjárfesta, ráðast í nýjungar og efla starfsemi sína til að vernda stöðu sína á markaðnum. Vilji ríkið ekki leggja fram aukið hlutafé til að halda eiginfjárhlutföllum í horfinu þegar kemur til þess að fjármagna þarf nýja fjárfestingu er unnt að leita eftir nýjum hluthöfum sem færa með sér nýtt hlutafé. Með því móti verður komist hjá því að ríkið taki í sífellu á sig skuldbindingar, t.d. í formi ríkisábyrgðar, er fyrirtæki í eigu þess þurfa að ráðast í framkvæmdir.``
    Röksemdirnar sem verið er að tína fram eru sem sagt hengdar við það að hægt sé að selja hlutafé í þessu fyrirtæki. Og eins og ég var að segja hér áðan hefur það komið mjög skýrt og greinilega fram að það sem menn hafa verið að segja að undanförnu --- og voru að segja þegar verið var að leggja þessi mál fyrir á undanförnum árum --- að ríkið eigi að eiga þetta áfram, það er ekki lengur á stefnuskránni. Það eru um það alveg skýrar yfirlýsingar að það eigi að selja. Við því vil ég enn einu sinni vara vegna þess að það liggur í augum uppi að verð á sementi til þeirra sem það nota í landinu mun hækka við þessa breytingu.