Almenn hegningarlög

25. fundur
Miðvikudaginn 13. nóvember 1991, kl. 14:03:00 (927)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
     Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að fagna því að þetta frv., sem hér hefur verið lagt fram í þrígang áður, skuli nú fram komið eina ferðina enn. Ég vona sannarlega að frv. nái fram að ganga á þessu þingi, þó að ég hafi vissulega ákveðnar athugasemdir fram að færa.
    Það er alveg ljóst að við búum við mjög úrelta löggjöf um kynferðisafbrot. Hún er orðin hálfrar aldar gömul og byggir á siðferðisviðhorfum sem hafa tekið miklum breytingum á þessum tíma.
    Í fyrsta lagi má nefna að núna er vitneskja alls almennings um það hversu alvarlegar afleiðingar kynferðisafbrot hafa fyrir þann sem verður fyrir þeim, þ.e. þolandann, mun meiri en áður. Ekki síst ef börn eiga hlut að máli.
    Í öðru lagi má nefna að sem betur fer hefur orðið mikil viðhorfsbreyting í samfélaginu gagnvart samkynhneigðu fólki. Mun meira umburðarlyndi virðist vera í þessum málum nú en var fyrir nokkrum árum.
    Í þessu frv. eru mikilvæg nýmæli sem taka á breyttum siðferðisviðhorfum. Í fyrsta lagi má nefna að lögin eru ekki kynbundin eins og þessi kafli hegningarlaganna var. Í öðru lagi eru önnur kynferðismök lögð að jöfnu við samræði, þ.e. talið er að um alvarlegt afbrot gegn kynfrelsi einstaklings sé að ræða þó að verknaðurinn hafi ekki verið fullframinn, þ.e. þeim sem brotið framdi hafi ekki tekist að koma fram vilja sínum að fullu. Í þriðja lagi er kveðið á um að kynferðisleg áreitni gagnvart börnum sé refsiverð. Í því sambandi finnst mér reyndar vert að hafa í huga hvort ekki ætti að vera í frv. sérákvæði um kynferðislega áreitni almennt. Ég held að umræða undanfarinna vikna, bæði erlendis og hérlendis, sýni að ekki er vanþörf á slíku.
    Ég minntist áðan á þær breytingar sem þetta frv. hefði í för með sér fyrir samkynhneigða einstaklinga og ég held að þær breytingar séu mjög mikilvægar.
    Í núgildandi hegningarlögum eru sérákvæði, má segja, gagnvart samkynhneigðum einstaklingum. Þau eru nú numin úr gildi með þessu frv. Samkynhneigðir og gagnkynhneigðir eru jafnir gagnvart lögunum ef þetta nær fram að ganga. Samkynhneigðir njóta sömu verndar laganna og þeir sem gagnkynhneigðir eru. Ég held að þetta sé mjög mikilvægt réttlætis- og mannréttindamál og það sé brýnt að þetta nái fram að ganga á þessu þingi.
    Það er ljóst að samkynhneigðir einstaklingar búa við margvíslega mismunun í íslensku samfélagi. Sú mismunun er m.a. lagaleg, eins og núgildandi hegningarlög bera með sér. Það gæti vel hugsast að slík mismunun fælist í fleiri lagabálkum en þessum og mig langar til þess að tilkynna það hér að ég hyggst leggja fram þáltill. þar sem ég legg til að könnuð verði menningarleg, félagsleg og lagaleg mismunun gagnvart samkynhneigðum með það fyrir augum að hægt sé að gera tillögu um úrbætur og gera nauðsynlegar lagabreytingar í kjölfar þess. Slíkar kannanir hafa verið gerðar á öðrum Norðurlöndum. Þar hefur verið safnað saman miklu efni um stöðu samkynhneigðra einstaklinga og þessar kannanir hafa leitt ýmislegt í ljós sem mönnum var ýmist hulið áður eða kusu að horfast ekki í augu við.
    Ég held að úrbætur í þessum málum mundu stuðla að aukinni mannúð í samfélagi okkar og ég tel að þetta frv. sé skref í þá átt. Enginn ætti að gjalda kynhneigðar sinnar svo lengi sem hún brýtur ekki í bága við lög og almennar reglur um jafnræði í samfélagi okkar. Ég vil því fagna þeim breytingum sem frv. felur í sér og raunar þeim meginhugmyndum sem frv. að öðru leyti byggir á. Engu að síður hef ég ýmsar athugasemdir við einstakar greinar sem mér finnst mikilvægt að allshn. þingsins hafi til hliðsjónar þegar hún fer að skoða frv.
    Mínar athugasemdir eru að mörgu leyti á svipuðum nótum og fram komu hjá fyrri ræðumanni. Þessar athugasemdir hafa verið settar fram af ýmsum kvennasamtökum og hópum þegar þeir fengu frv. til umsagnar á síðustu þingum. Þar á ég kannski ekki síst við Kvennaathvarfið í Reykjavík og Kvennaráðgjöfina.
    En ef ég lít á einstakar greinar frv. verður fyrst fyrir mér 2. gr. frv. þar sem verið er að breyta gildandi lagagrein um þetta efni í þá veru að refsimörkin eru milduð. Það kemur ekki síst til vegna tvískiptingar greinarinnar í almennt ákvæði núna og síðan refsihækkunarákvæði. Áður var refsingin fyrir afbrot allt að 16 ár í öllum tilvikum, en nú er það allt að 10 ár í almenna ákvæðinu og 16 ár í refsihækkunarákvæðinu. Ég er ekki sannfærð um að þörf sé á þessu og spurning hvort þarna ætti ekki að vera eitt tiltekið refsiákvæði.
    Við 4. gr. frv. vil ég gera þá athugasemd og reyndar við fleiri greinar um sama efni, en þar segir:
    ,,Hver sem notfærir sér geðveiki eða aðra andlega annmarka manneskju til þess að hafa við hana samræði eða önnur kynferðismörk utan hjónabands eða óvígðrar sambúðar . . . ``
    Það er þessi tiltekna setning ,,utan hjónabands eða óvígðrar sambúðar`` sem ég er óskaplega ósátt við og finnst að ætti ekki að vera inni í lögunum. Ég fæ ekki séð að það sé réttlætanlegt að nota hjúskap eða sambúð til að hylma yfir eða réttlæta á einhvern máta slík verk. Hjónabandið á að vera til að bæta réttarstöðu fólks en ekki til þess að veikja hana. Þess vegna vildi ég beina því til allshn. að hún skoðaði það hvort ekki bæri að taka þetta út úr 4. gr., 6. gr. þar sem er sambærilegt orðalag og í 7. gr. sem ég mun reyndar koma aðeins betur að. Og mig langar í því sambandi að benda á að Kvennaráðgjöfin í Reykjavík hafði svipaðar athugasemdir fram að færa og segir, með leyfi forseta:
    ,,Lagt er til að orðin ,,utan hjónabands eða óvígðrar sambúðar`` verði felld út úr frv. þar sem þau bera sterk einkenni eldri sjónarmiða að kynferðisleg misnotkun sé leyfileg eða afsakanleg í hjónabandi eða í óvígrði sambúð. Hjónaband eða sambúð ætti frekar að vera til þess að tryggja réttarvernd aðila en að draga úr henni.``
    Síðar segir, sem bæði varðar 4. og 5. gr. og kom reyndar fram í máli Margrétar Frímannsdóttur hér áðan, með leyfi forseta: ,,Að notfæra sér geðveiki eða aðra andlega annmarka annarrar manneskju til að hafa við hana samræði eða önnur kynferðismök getur

aldrei afsakast af því að brotamaðurinn er í trúnaðar- eða framfærslusambandi við brotaþola. Í þeim tilvikum sem upp eru talin í frumvarpsgreininni ætti fremur að hvíla ríkari skylda á maka eða sambýlismanni að misnota sér ekki aðstöðu sína.``
    Ég geri sams konar athugasemdir við 6. gr. og þá 4., þ.e. að verði fellt út ,,utan hjónabands eða óvígðrar sambúðar``.
    7. gr. var líka gerð að umtalsefni áðan og lagt til að allshn. skoðaði betur orðalag hennar. Ég vil fyllilega taka undir það og í rauninni tel ég mig hafa ákveðna tillögu að því hvernig þessi grein ætti að hljóða. Ég vildi að hún hljóðaði svo: ,,Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við manneskju vegna þess að hún heldur sig hafa samræði eða önnur kynferðismök við einhvern annan skal sæta fangelsi allt að sex árum``, þ.e. taka út úr þessari grein þetta sérkennilega orðalag, ,,vegna þess að hún heldur ranglega, að þau hafi samræði eða önnur kynferðismök í hjónabandi eða óvígðri sambúð, eða hún er í þeirri villu, að hún heldur sig hafa samræði eða önnur kynferðismök við einhvern annan . . . `` Þetta er mjög sérkennilega orðuð grein svo vægt sé til orða tekið.
    Þá er ég kominn að 8. gr. þessa frv. sem fjallar um sifjaspell. Þar er verið að fjalla um þau afbrot sem eru alvarlegust. Alvarlegustu kynferðisafbrotin eru, held ég að mati langflestra, sifjaspellin og þess vegna er mjög mikilvægt að þessar greinar, þ.e. bæði 8. gr. og 9. gr., svo að ég tali um þær saman, séu vel úr garði gerðar. Mín skoðun er sú að engin rök séu fyrir því að hafa vægari refsiákvæði fyrir þann aðila sem beitir barn kynferðislegu ofbeldi ef barnið er kjörbarn, stjúpbarn, fósturbarn, sambúðarbarn eða ungmenni sem honum hefur verið trúað fyrir til kennslu eða uppeldis. Ég vil leggja kynforeldri og fósturforeldri eða stjúpforeldri að jöfnu í þessu máli. Það sem málið snýst um er trúnaðarbresturinn við barnið og brotið gegn kynfrelsi þess. Það er aðalatriðið í þessu máli og við vitum að samkvæmt barnalögum eru lagðar sömu skyldur á herðar kjörforeldri, fósturforeldri og stjúpforeldri eins og kynforeldri. Það er aðili sem ber skylda til þess að ala önn fyrir barninu, fer með forræði þess og ber því að haga sér hvívetna eins og kynforeldri og bera sömu ábyrgð.
    Ég vil líka benda á að gerð var athugasemd við þetta hjá Kvennaráðgjöfinni í Reykjavík og lagt var til að þetta væri tekið saman í eina grein sem hljóðaði svo:
    ,,Hver sá sem fremur sifjaspell skal sæta fangelsi allt að 6 árum en allt að 16 árum sé barn yngra en 16 ára.
    Með sifjaspellum er átt við samræði eða önnur kynferðismök við barn sitt, annan niðja, stjúpbarn, kjörbarn, fósturbarn, sambúðarbarn eða niðja þeirra. Með sifjaspellum er auk þess átt við samræði eða önnur kynferðismök þess sem barn er háð eða bundið frændsemis-, trausts- eða tilfinningaböndum. Önnur kynferðisleg áreitni en sú sem að ofan greinir þar sem aðstæður eru að öðru leyti þær sömu varðar fangelsi allt að 12 árum.``
    Þarna er sem sagt trúnaðarsambandið við barnið talið aðalatriði en ekki hvort um kyntengsl eða önnur tengsl er að ræða.
    Í greinargerð með þessari tillögu frá Kvennaráðgjöfinni segir, með leyfi forseta:
    ,,Sifjaspell er að okkar mati einn alvarlegasti glæpur sem hægt er að fremja. Með sifjaspellum má segja að möguleikar barns til eðlilegs lífs og náinna samskipta við annað fólk séu verulega skertir. Varanlegt tjón barns af sifjaspellum getur því orðið mun alvarlegra en af öðrum brotum.
    Eins og fram kemur í tillögu okkar til breytinga gerum við ráð fyrir mun víðtækari skilgreiningu á hugtakinu sifjaspell en hingað til hefur verið í íslenskum lögum. Að okkar mati skipta blóðböndin ein ekki höfuðmáli heldur eru það traust og tilfinningabönd barnsins við gerandann sem eru grundvallandi. Það er fráleitt að ætla að kynferðisafbrot kjör- eða stjúpforeldris svo að dæmi séu nefnd hafi minni skaðlegar afleiðingar fyrir barnið í för með sér en þegar um kynforeldri er að ræða.
    Það einkennir m.a. sifjaspell að brotamaðurinn er einhver sem barnið er háð tilfinningalega eða um framfærslu. Þetta ásamt valdaleysi barna gagnvart fullorðnum skýrir að hluta til hversu afdrifaríkar afleiðingar sifjaspjalla eru fyrir börn.
    Aldrei er hægt að segja að sifjaspell fari fram með vilja barns þar sem alltaf er um að ræða yfirburðaaðstöðu hins fullorðna gagnvart barninu. Ógnunin sem stafar af valdamismuninum milli barnsins og hins fullorðna er ein sér nægileg til að koma fram vilja hins

fullorðna gagnvart barninu þannig að ofbeldisþátturinn þarf ekki að vera til staðar í öllum tilvikum.
    Við viljum undirstrika að við teljum að við sifjaspell sé barninu alltaf nauðgað þar sem það er aldrei bært til að gefa samþykki sitt til slíkra athafna. Notkun gamla tabú-orðsins sifjaspell í millifyrirsögn kaflans teljum við þjóna þeim tilgangi að undirstrika og leggja áherslu á almenna vanþóknun á verknaðinum þar sem trúnaður, trausts- og tilfinningabönd barns við brotamann er rofið. Grundvallandi í brotinu er auk ofbeldisverknaðarins gagnvart barninu að brotamaðurinn bregst trúnaði og trausti barnsins sem er háð honum.``
    Ég held að ég geti tekið fyllilega undir þau orð sem koma þarna frá Kvennaráðgjöfinni í Reykjavík.
    Hvað varðar 3. mgr. 8. gr. þá vil ég í raun leggja til að sú málsgrein verði endurskoðuð og falli jafnvel brott úr frv., en þar segir:
    ,,Samræði eða önnur kynferðismök milli systkina varða fangelsi allt að 4 árum. Hafi annað systkina eða bæði ekki náð 18 ára aldri, þegar verknaðurinn átti sér stað, má ákveða, að refsing falli niður að því er þau varðar.``
    Þetta ákvæði byggir á aldagömlum viðhorfum um blóðskömm og ég fæ ekki séð að þessi ákvæði standist í dag miðað við breytt siðferðisviðhorf og fæ ekki séð að þetta þurfi að vera refsivert athæfi ef jafnræði ríkir á milli systkina. Að sjálfsögðu ætti athæfið að vera refsivert eins og önnur kynferðisafbrot ef annar aðilinn misnotar yfirburði sína, t.d. í aldri eða þroska, en að öðru leyti tel ég ekki rétt að þarna sé um refsivert athæfi að ræða.
    Í 11. gr. segir:
    ,,Hafi brot skv. 201. eða 202. gr. verið framið í gáleysi um andlegt ástand eða aldur þess, er fyrir broti varð, skal beita vægari refsingu að tiltölu sem þó má ekki fara niður úr lægsta stigi refsivistar.``
    Ég tel orka mjög tvímælis að láta þetta gilda um 201. gr. laganna þar sem um er að ræða sifjaspell vegna þess að ég held að gerandinn í slíku afbroti hljóti ævinlega að vera viss um aldur þolandans í því tilviki. Ég vil því mælast til þess að allshn. skoði þetta sérstaklega.
    Í 12. gr. segir:
    ,,Refsing skv. 194.--199., 202. og 204. gr. má falla niður, ef karl og kona, er kynferðismökin hafa gerst í milli, hafa síðar gengið að eigast eða tekið upp óvígða sambúð, ef þau voru þá í hjónabandi eða óvígðri sambúð . . . `` Það má sem sagt fella niður refsingu ef karl og kona sem kynferðismökin hafa gerst í milli, þ.e. refsivert athæfi hefur átt sér stað, hafa síðar gengið að eigast eða tekið upp óvígða sambúð. Mér finnst þetta orðalag fela það í sér eins og í fyrri tilvikum sem ég hef nefnt að hjónabandið eða óvígð sambúð geti á einhvern máta réttlætt slík afbrot. Ég tel ekki rétt að hafa slíkt ákvæði inni í lögunum nema þá að það væri á þann veg að hægt væri að skoða það einstaklingsbundið í hverju tilviki.
    Þá er ég kominn að 13. gr. frv. þar sem fjallað er um vændi. Þar segir:
    ,,Hver sem stundar vændi sér til framfærslu eða hefur atvinnu eða viðurværi sitt af lauslæti annarra skal sæta fangelsi allt að 4 árum.``
    Þarna er á ferðinni refsihækkun. Áður var gert ráð fyrir tveggja ára fangelsi en það er fært nú upp í fjögurra ára fangelsi. Ég vil leggja það til við allshn. að þetta ákvæði, um að sá sem stundar vændi sér til framfærslu, sé refsivert, falli niður.
    Ég tel sjálfsagt og eðlilegt að hafa það refsivert að hafa viðurværi sitt af lauslæti annarra og ég tel eðlilegt líka að refsimörkin séu hækkuð í því tilviki, en ég get ekki séð neitt réttlæti í því að refsa þeim sem stundar vændi sér til framfærslu með allt að fjögurra ára fangelsi vegna þess að við vitum að flestir sem stunda vændi sér til framfærslu gera það út úr mikilli neyð. Oft á tíðum fara saman eiturlyfjaneysla og vændi þannig að það gerir þetta enginn ef hann hefur önnur úrræði í lífinu.
    Þar að auki held ég að ákvæði eins og þetta geri það að verkum að sá sem stundar vændi og verður fyrir kynferðislegu ofbeldi geti ekki leitað sér verndar eða kært slíkt athæfi vegna þess að hann hefur sjálfur verið þátttakandi í refsiverðu athæfi. Mér finnst það mjög mikilvægt að þessu ákvæði verði breytt.
    Þá vil ég benda á það ósamræmi sem hlýtur að felast í því að aðeins sá aðilinn sem

stundar vændið en ekki sá sem kaupir það sé talinn stunda refsivert athæfi og vil vísa til álitsgerðar sem kom frá Hildigunni Ólafsdóttur afbrotafræðingi. Þar segir hún um 13. gr.:
    ,,Á síðustu árum hafa verið gerðar rannsóknir á vændi, orsökum þess, eðli og afleiðingum sem hafa leitt í ljós að vændi er sjaldnast viðskipti jafngildra aðila. Í flestum tilfellum misnotar kaupandinn seljandann. Ekki ber að refsa veikari aðilanum en sleppa þeim sterkari. Því ber að afnema refsingar við vændi``, segir Hildigunnur og ég vil taka undir þau orð.
    Þá vil ég einnig gera athugasemd við 3. mgr. 13. gr. þar sem segir að það varði refsingu ,,að stuðla að útflutningi nokkurs manns úr landi í því skyni að hafa ofan af fyrir sér erlendis með lauslæti, ef útflytjandinn er yngri en 21 árs eða honum er ókunnugt um þennan tilgang með utanförinni.``
    Ég held að það sé ekki síður mikilvægt að geta innflutnings í þessu sambandi og vil ég vísa aftur til álitsgerðar Hildigunnar Ólafsdóttur um þetta efni, en hún segir:
    ,,Innflutningur fólks er ekki síður mikilvægur en útflutningur í þessu sambandi. Á síðustu árum hafa konur frá Austurlöndum komið til Evrópulanda fyrir milligöngu eins konar hjónabandsmiðlara. Þarna er um hóp að ræða sem er algerlega háður þeim sem þær fara til. Athuga þarf hvort ekki er nauðsynlegt að vernda þessa einstaklinga með löggjöf.`` --- Og hún leggur það reyndar til að auki.
    Sams konar athugasemdir koma fram hjá Kvennaráðgjöfinni í Reyjavík, þær telja einnig að það eigi að gera á þessu breytingu.
    Þetta eru þær efnislegu athugasemdir sem ég hef fram að færa við frv. en ég vil leggja áherslu á það að ég fagna því að frv. skuli fram komið og ég tel mikilvægt að það fari að fá afgreiðslu í þinginu og verði að lögum. Það hefur verið lagt fram þrisvar sinnum áður. Ég held að það væri mikil réttarbót að því ef það gæti náð út úr þinginu á þessu starfsári. Engu að síður vil ég fara fram á það við allshn að hún skoði vel þær athugasemdir og ábendingar sem ég hef sett fram og eins sem komið hafa fram í álitsgerðum sem nefndin hefur fengið.