Orkuverð frá Landsvirkjun

31. fundur
Fimmtudaginn 21. nóvember 1991, kl. 10:49:00 (1116)

     Svavar Gestsson :
     Virðulegi forseti. Samkvæmt tölum sem mér hafa borist frá Rarik og Orkubúi Vestfjarða er dæmið ósköp einfaldlega þannig að sú niðurgreiðsluaukning á raforku til húshitunar sem ákveðin var fyrr á þessu ári er öll uppurin. Mér finnst það athyglisvert að stjórnarþingmenn skuli getað borið fram fyrirspurnir og farið eins og kettir í kringum heitan graut, eins og hv. 3. þm. Vestf. gerir, vegna þess að þarna liggur kjarni málsins. Sú orkuverðjöfnun sem lofað var fyrr á þessu ári er núna gjörsamlega horfin út í veður og vind. Í fjárlagafrv. eru engar tillögur af neinu tagi um það að halda við þá stefnu sem ríkisstjórnin lofaði í vor, bæði með ákvörðun sinni sem kynnt var á blaðamannafundi í maí, að ég tali nú ekki um þá þáltill. sem iðnrh. í síðustu ríkisstjórn lagði fram í þinginu. Það eru engir tilburðir uppi í þá átt að standa við þau fyrirheit sem þar eru gefin.