Barnalög

32. fundur
Fimmtudaginn 21. nóvember 1991, kl. 14:41:00 (1202)

     Sólveig Pétursdóttir :
     Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. dómsmrh. fyrir að mæla fyrir nýju frv. til barnalaga nú því að í því felast margvíslegar réttarbætur, bæði fyrir foreldra og börn. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta frv. núna, en þar sem orðum var beint til mín áðan sem formanns allshn. þá hlýt ég að taka það fram að þetta frv. verður að sjálfsögðu skoðað vel í nefndinni.
    Hv. alþm. sem hafa talað virðast mjög jákvæðir gagnvart þessu máli og sjá ekki á því mikla galla þótt sumum finnist e.t.v. rétt að fara sér hægt varðandi sameiginlega forsjá.
    Mér virðist að þetta frv. sé afar vel unnið. Það hefur verið sent víða til umsagnar og eru menn almennt mjög jákvæðir gagnvart þessu úrræði um sameiginlega forsjá. Það er mín persónulega skoðun að þetta úrræði eigi að vera fyrir hendi því það gæti orðið til þess að fækka forsjármálum og gera foreldra og börn betur sátt við að þurfa að ganga í gegnum skilnað sem yfirleitt er öllum aðilum mjög sársaukafullt og þá ekki síst börnunum sem því miður verða oft bitbein í deilum foreldra.
    Það er rakið mjög vel í athugasemdum með frv. hvað felist í þessu úrræði um sameiginlega forsjá foreldra. Mér þykir reyndar rétt að geta þess að þetta úrræði hefur áður komið fram í frv. hér á hinu háa Alþingi og var þar um að ræða breytingu á barnalögum. Þá var það frv. sent til umsagnar til margra aðila og þar komu fram nokkuð skiptar skoðanir á þessu úrræði. Meðal annars kom fram sú gagnrýni að mönnum fannst ekki nógu vel um hnútana búið varðandi þetta úrræði, t.d. á þann hátt að barnið ætti lögheimili aðeins hjá öðru foreldri og það foreldri, sem væri með barnið búandi hjá sér, hefði sömu stöðu og einstætt foreldri, fengi fullar meðlagsgreiðslur og nyti á allan hátt þeirra bóta hjá hinu opinbera sem einstætt foreldri nýtur.
    Í þessu frv. hefur einmitt verið komið til móts við þessar ábendingar og þess vegna held ég að það sé ekki tilviljun að margir af þessum sömu aðilum sem skoðuðu málið áður eru núna mun jákvæðari í garð þessa úrræðis heldur en þeir voru.
    Þær athugasemdir sem koma fram t.d. varðandi þetta úrræði í frv. eru á bls. 19 og þar segir m.a., með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Við gerð samnings um sameiginlega forsjá skv. 33. gr. frumvarpsins er foreldrum skylt að taka ákvörðun um hjá hvoru þeirra barn skuli eiga lögheimili og þar með að jafnaði hafa búsetu. Það foreldri sem barn á lögheimili hjá hefur réttarstöðu einstæðs foreldris til að taka við meðlagsgreiðslum með barni úr hendi hins foreldrisins eða Tryggingastofnunar ríkisins, mæðra- eða feðralaunum og barnabótum og öðrum greiðslum frá hinu opinbera ef því er að skipta. Foreldrar geta síðan samið sín á milli um skiptingu greiðslna þessara ef svo býður við að horfa, enda er samkomulag foreldra um öll atriði er varða forsjána forsenda sameiginlegrar forsjár. Það foreldri sem barn á lögheimili hjá hefur einnig réttarstöðu einstæðs foreldris samkvæmt skattalögum. Enn fremur nýtur það foreldri þeirra hlunninda sem ríki og sveitarfélag bjóða einstæðum foreldrum auk þess er að framan greinir. Dvelji barn um tíma hjá því foreldri sem það á ekki lögheimili hjá getur það þó notið þessara hlunninda um stundarsakir, t.d. réttinda til dagvistar barns. Sýslumenn skulu leiðbeina foreldrum rækilega um skilyrði sameiginlegrar forsjár og réttaráhrif er henni fylgja áður en þeir staðfesta samning foreldra þar að lútandi og enn fremur mun dómsmálaráðuneytið gefa út leiðbeiningar um sameiginlega forsjá.``
    Það eru ekki síst þessar síðustu athugasemdir sem eru mjög mikilvægar að mínu mati því það segir sig sjálft að ef hið háa Alþingi ákveður að afgreiða frv. þetta sem lög er mjög mikilvægt að kynna það fyrir almenningi hvað það felur í sér og um hvaða breytingar er að ræða. Það er ekki síst mikilvægt vegna þess að þeir foreldrar, sem búa við núgildandi kerfi, þ.e. það er bara annað foreldrið sem getur haft forsjána, geta nú samkvæmt þessu frv. gert samning upp á nýtt við hitt kynforeldrið og þau geta þá tekið upp þessa skipan. Þannig að þetta er mjög mikilvægt atriði. Að sjálfsögðu er það sem býr að baki þessu úrræði það að tryggja barni að það fái umönnun beggja foreldra. Þetta er afar mikilvægt og gæti orðið til þess að foreldri sem e.t.v. hefur vanrækt sínar umgengnisskyldur muni frekar sinna þeim og láta sig meira varða að öllu leyti hag barnsins.
    Það eru margar réttarbætur og mörg nýmæli í þessu frv. sem eru skýrð rækilega í athugasemdum og grg. með frv. Mig langar þó til þess, virðulegi forseti, að nefna hér nokkur atriði. Í sambandi við 3. gr. frv. hafa komið fram athugasemdir, en greinin hljóðar svo:
    ,,Eiginmaður eða sambúðarmaður, sem samþykkt hefur skriflega og við votta, að tæknifrjóvgun fari fram á eiginkonu eða sambúðarkonu hans, með sæði úr öðrum manni, telst faðir barns, sem þannig er getið.``
    Enda þótt það hafi komið fram gagnrýni á þetta ákvæði er rétt að taka það fram að þetta ákvæði er tvímælalaust til bóta. En að sjálfsögðu geta vaknað spurningar um réttarstöðu barna í þessum tilvikum og finnst mér rétt að nefndin skoði það sérstaklega.

    Varðandi 7. gr. þá er það ákvæði, sem er í lögum, ítrekað að læknir eða ljósmóðir, sem tekur á móti barni, skal þegar skrá á fæðingarskýrslu öll þau atriði er af má ráða um þroska barnsins svo og að spyrja móður um faðerni þess og rita á skýrsluna frásögn hennar þar um. Mér finnst spurning hvort slíkt ákvæði eigi að vera eitthvað ítarlegra þar sem mér finnst það ekki koma nógu skýrt fram að það eru börnin sem eiga líka rétt á því að vera feðruð. Og það hefur stundum gleymst í umræðunni í þessu þjóðfélagi, því miður.
    Í 10. gr. er ákvæði 3. mgr. athyglisvert. Það hljóðar svo:
    ,,Nú hefur faðir barns sætt dómi fyrir brot skv. XXII. kafla almennra hegningarlaga gagnvart móður þess, og telja verður að barn sé getið við þessa háttsemi, og skal þá úrskurða barnsföður til að kosta framfærslu barns að öllu leyti.``
    Þetta er ákvæði sem, eins og ég sagði áðan, er fyrir hendi í núgildandi lögum en það er spurning hvort hugsunarháttur sem þessi sé e.t.v. orðinn úreltur, þ.e. að sá maður, sem valdur er að því sem nefnt er skírlífisbrot og er þá átt við nauðgun gagnvart konu, skuli kosta framfærslu barns að öllu leyti. Það má velta fyrir sér hvort slíkt geti haft erfið eða sálræn áhrif á konu og barn í slíku tilviki.
    Í 29. gr. frv. er mjög mikilvægt ákvæði að mínu mati. Í 2. mgr. 29. gr. segir m.a.: ,,Foreldri sem fer eitt með forsjá barn síns er skylt að stuðla að því að barn njóti umgengni við hitt foreldri sitt, nema umgengni sé andstæð hag og þörfum barns að mati lögmælts stjórnvalds.``
    Ég tel mjög jákvætt að láta þessa getið skýrt í frv. því að því miður hefur það stundum verið svo að það foreldri, sem fer eitt með forsjá, hefur ekki sinnt umgengnisrétti hins foreldrisins og er það mjög miður vegna þess að það kemur náttúrlega fyrst og fremst niður á barninu sjálfu.
    Í 31. gr. kemur fram þetta úrræði, sameiginleg forsjá barns og hljóðar 1. mgr. þannig:
    ,,Nú fara foreldrar sameiginlega með forsjá barns og annað þeirra andast og fer þá eftirlifandi foreldri eitt með forsjána, ásamt maka sínum eða sambúðaraðila, ef því er að skipta.`` --- Og síðan kemur nokkuð athyglisvert ákvæði: --- ,,Fela má maka eða sambúðaraðila hins látna foreldris, sem einnig hefur farið með forsjá barnsins, forsjá þess að kröfu hans, ef það er talið barninu fyrir bestu.``
    Það er reyndar athyglisvert og mjög jákvætt að víða í frv. er talað um það hvað sé barni fyrir bestu og greinilegt að það á að vera að leiðarljósi í frv. að gæta hagsmuna barna.
    2. mgr. 31. gr. hljóðar svo:
    ,,Nú hefur annað foreldri farið með forsjá barns og fer þá stjúpforeldri eða sambúðarforeldri, sem einnig hefur farið með forsjána, áfram með forsjá eftir andlát forsjárforeldris. Fela má hinu foreldrinu forsjá barnsins að kröfu þess foreldris, ef það er talið barninu fyrir bestu.``
    Í 1. mgr. 33. gr. segir:
    ,,Foreldrar, sem ekki fara sameiginlega með forsjá barns síns, geta samið um að forsjáin verði sameiginleg.`` --- Svo virðist sem foreldrar geti þannig tekið upp þetta nýja samkomulag ef þetta frv. verður að lögum og er það mjög gott mál.
    Í 4. mgr. 34. gr. er mjög mikilvægt ákvæði. Þar segir:
    ,,Veita skal barni, sem náð hefur 12 ára aldri, kost á að tjá sig um forsjármál, nema telja megi að slíkt geti haft skaðvænleg áhrif á barnið eða sé þýðingarlaust fyrir úrslit málsins. Rétt er einnig að ræða við yngra barn, eftir því sem á stendur, miðað við aldur þess og þroska. Dómstóll eða dómsmrn. getur falið sérfróðum manni eða mönnum að kynna

sér viðhorf barnsins og gefa skýrslu um það.``
    Ég tel þetta ákvæði mjög jákvætt en dreg ekki dul á að þetta er líka vandasamt verk og því er mikilvægt að fá sérfróða aðila til þessa. Eins í 5. mgr. sömu greinar. Þar segir:
    ,,Skipa má barni talsmann til að gæta hagsmuna þess við úrlausn forsjármáls, ef sérstök þörf er á því, og er þóknun hans greidd úr ríkissjóði.``
    Varðandi 35. gr. er e.t.v. spurning um breytt orðalag á 1. mgr. vegna þess að í frv. er gert ráð fyrir því sem meginreglu að dómstólar fjalli um ágreining um forsjá. Þetta er róttæk breyting frá því sem er og e.t.v. rétt að breyta aðeins orðalagi á þann hátt að sýna þá frekar að þetta sé meginregla frekar en undantekning.
    Í 3. mgr. 37. gr. kemur það skýrt fram að það er sýslumaður sem úrskurðar að kröfu foreldra um inntak umgengnisréttar og hann getur bæði ákvarðað inntak hans, einnig breytt eða fellt úr gildi úrskurðaðan samning foreldra um umgengni ef slík úrlausn þykir barni fyrir bestu. Sérstök atvik geta einnig orðið til þess að mati sýslumanns að umgengni barns við foreldri sé andstæð hag þess og þörfum og þá getur sýslumaður kveðið svo á að umgengnisréttar njóti ekki við.
    í 38. gr. er kveðið á um dagsektir en hv. þm. Anna Ólafsdóttir Björnsson gerði athugasemdir um það sem þar kemur fram að dagsektir eigi að fara upp í fjárhæð allt að 5 þús. kr. Ég held að rétt sé að hafa einhver réttarfarsúrræði við slík tilvik þó að sjálfsögðu sé mjög erfitt að koma þeim til framkvæmda og það getur líka komið niður á börnum. En mér finnst líka að það megi velta upp þeirri spurningu, hvort á einhvern hátt sé hægt að skylda það foreldri sem sinnir ekki umgengnisrétti, en ég býst við að það verði erfitt í framkvæmd.
    Þá er einnig athyglisvert ákvæði í 39. gr. þar sem fjallað er um fyrirhugaðan flutning barns úr landi. Þetta hefur stundum verið vandræðamál. En 39. gr. hljóðar svo:
    ,,Nú hefur forsjármáli eigi verið ráðið til lykta, og getur dómstóll eða dómsmrn., eftir því hvar forsjármál er til úrlausnar, lagt svo fyrir að ósk annars foreldris, að eigi megi að svo vöxnu fara með barnið úr landi. Dómstóll eða dómsmrn. leysa úr málinu með úrskurði.
    Nú á annað foreldra umgengnisrétt við barn, og má hitt foreldra þá eigi flytjast með barnið úr landi, nema því foreldri, sem umgengnisréttinn á, sé veitt færi á að tjá sig um málið og þar á meðal bera mál undir sýslumann.``
    Í athugasemdum með 2. mgr. 39. gr. segir að átt sé við fyrirhugaða dvöl erlendis að sjálfsögðu en ekki skammvinna, svo sem vera mundi t.d. ef farið væri með barn í stutta heimsókn eða sumarleyfisferð. Engu að síður er þetta mjög mikilvægt ákvæði.
    Virðulegi forseti. Ég veit að það hefur farið talsverður tími í umræður um þetta mál og það verður tími til þess að skoða það betur í nefndinni, þannig að ég skal fara hratt yfir sögu en mig langar þó til þess að benda á 60. gr. frv. þar sem segir í 2. mgr. að dómari geti lagt fyrir aðila eða lögmenn þeirra að afla nánar tilgreindra gagna, svo sem kannana sérfróðra manna um hagi foreldra og barns og virðist gert ráð fyrir því að við framkvæmd þessara mála séu viðhafðar svipaðar aðferðir og er þegar um þessi mál er fjallað fyrir barnaverndarnefndum.
    Í 61. gr. segir:
    ,,Dómari getur ákveðið að öðrum málsaðila eða báðum sé óheimilt að vera viðstaddur er viðhorf barns er kannað skv. 34. gr. 4. mgr. Kynna skal aðilum hvað fram hafi komið um afstöðu barns áður en mál er flutt, nema slíkt þyki varhugavert vegna hagsmuna barnsins.``
    Það er ákaflega mikilvægt að mínu mati að tryggt verði að börnum gefist kostur á

að tjá sig við hlutlausan aðila undir fögur augu og að unnt verði að heita barni trúnaði við slíkar aðstæður.
    Og í 68. gr. er fjallað um sáttaumleitan þar sem segir að sýslumaður skuli leita sátta með báðum aðilum áður en hann tekur ákvörðun í ágreiningsmáli. Það er að sjálfsögðu mjög mikilvægt að sáttaumleitan fari fram því að það verður e.t.v. hægt að fækka erfiðum málum á þann hátt en í 2. mgr. segir:
    ,,Hafi sáttaumleitan í forsjár- eða umgengnismáli farið fram í stofnun um fjölskylduráðgjöf er eigi þörf sáttaumleitana sýslumanns.`` --- Væntanlega er átt við fyrirbæri eins og fjölskylduþjónustu kirkjunnar sem gæti hér komið til eða annað sambærilegt úrræði.
    Þá er 75. gr. Þar er talað um aðför eða töku barns á heimili. Þar segir í 1. mgr. að þegar ákvörðun er fengin um forsjá barns og sá, sem barn dvelst hjá, neitar að afhenda það réttum forsjáraðila geti forsjáraðili beint til héraðsdómara beiðni um að forsjá hans verði komið á með aðfarargerð. Þetta er að sjálfsögðu ákaflega viðkvæmt og vandmeðfarið úrræði. En þess vegna er tekið fram í 3. mgr. að sýslumaður skuli boða fulltrúa barnaverndarnefndar til að vera viðstaddan, svo og talsmann barnsins, ef skipaður hefur verið, og að sýslumaður geti einnig skipað barninu talsmann ef slíkt hefur ekki verið gert áður. Og í lok þessa ákvæðis segir svo orðrétt: ,,Að svo miklu leyti sem lögreglumenn liðsinna við aðför skulu þeir að jafnaði vera óeinkennisklæddir. Reynt skal að haga framkvæmd aðfarar svo að sem minnst álag verði fyrir barnið.``
    Virðulegur forseti. Sú nefnd sem ég á sæti í, allshn., mun skoða þetta mál mjög vandlega og yfirfara þær athugasemdir í umsögnum sem þegar liggja fyrir með þessu frv. og einnig þær athugasemdir sem hv. þm. hafa bent á. Skoðun nefndarinnar mun ekki síst beinast að því að hagsmunir barna verði hafðir í fyrirrúmi.