Vatnsveitur sveitarfélaga

57. fundur
Föstudaginn 20. desember 1991, kl. 12:44:00 (2359)

     Kristinn H. Gunnarsson :
     Virðulegur forseti. Frv. sem hér er til umræðu, frv. til laga um vatnsveitur sveitarfélaga, hefur verið rætt nokkuð í nefnd og almennt get ég sagt um frv. að ég tel verulega til bóta í meginatriðum að lögfesta með sérlögum þennan málaflokk í verkefnum sveitarfélaga. Ég bendi þó á að það er ekki svo að það sé einungis heimildarákvæði í núgildandi vatnalögum til handa kaupstöðum og þorpum að reka vatnsveitur heldur er kveðið á um það í sveitarstjórnarlögum í 6. gr. þar sem talin eru upp þau verkefni sem sveitarfélögum er skylt að annast. Þar með talið er bygging og viðhald mannvirkja, þar á meðal gatna, vega, torga og veitukerfa eins og það heitir. Reyndar er einnig kveðið á um þetta verkefni í lögum um tekjustofna sveitarfélaga. Þannig er það með vissum hætti, má segja, nú þegar lögbundið verkefni og þess vegna er ég ekki fyllilega sammála því, sem fram hefur komið og mig minnir að standi í grg., að meginmarkmiðið með 1. gr. sé að setja verkefni sem skyldu í stað heimildar. Það breytir þó ekki neinu um efnisatriði og ég tel ákjósanlegt að mörgu leyti að setja um þetta sérstök lög og hafa samræmda reglugerð í þessum málaflokki yfir öll sveitarfélög.
    Þessi stefnumörkun vekur upp þær ábendingar að menn eru þá búnir að marka þá braut sem er eðlilegt að fara í öðrum málaflokkum sem ekki eru nú þegar með samræmda reglugerð yfir sveitarfélögin og jafnvel í þeim málum væri nauðsynlegt líka að setja sérlög. Ég tel að það komi vel til álita.
    Ég tek undir það sem kom fram áðan hjá hv. 15. þm. Reykv., sem vakti athygli á umhverfisþættinum, og tel að menn verði í ríkari mæli að muna eftir þeim málaflokki þegar verið er að skrifa upp lagatexta.
    Eins og fram kemur í nál. skrifa ég undir þetta með fyrirvara og mér þykir rétt að gera grein fyrir þeim atriðum sem ég vildi vekja athygli á við umræðu málsins þó svo að þau leiði ekki endilega til þess að ég sé málinu andvígur. Ég tel þau þó svo mikilvæg að nauðsynlegt sé að benda á þau við umræðu málsins.
    Þar vil ég fyrst fara yfir tekjuhlið frv. Reyndar höfðum við í nefndinni fengið frá hæstv. félmrh. drög að reglugerð fyrir vatnsveitur sveitarfélaga sem áform eru um að setja, verði frv. að lögum. Ég læt koma fram að það tel ég mjög til bóta og málinu til framdráttar að nefndarmenn hafi þessa reglugerð í sinni vinnu þegar þeir fara yfir frv.

    Það fyrsta sem ég vildi nefna er tekjuþátturinn í frv. og reglugerðinni. Eins og fram kemur í frv. sjálfu, 7. gr. þess, er aðaltekjustofn vatnsveitu svokallað vatnsgjald sem nú heitir vatnsskattur. Það segir í 1. málsl. fyrri mgr. að þetta vatnsgjald sé lagt á til þess að standa straum af kostnaði við rekstur vatnsveitu. Það ákvæði skil ég þannig að vatnsgjaldið eigi að leggjast á og ákvarðast þannig að tekjurnar sem inn komi dugi fyrir almennum útgjöldum en ekki umfram það. Það sé meginstefnan af hálfu löggjafarvaldsins að hér sé um að ræða gjald, enda heitir þetta gjald en ekki almennur skattur eins og nú er, vatnsskattur. Þessi nafnabreyting hefur þá þýðingu, sem ég var að draga upp, að almennt hlutverk vatnsgjaldsins er að afla tekna á móti almennum kostnaði við rekstur vatnsveitu. Þetta vil ég undirstrika.
    Síðan eru umfram þetta gjald önnur gjöld sem heimilt er að innheimta. Það er í fyrsta lagi svokallað aukavatnsgjald, sbr. 8. gr., sem miðast við notkun mælda í rúmmetrum. Það kemur ekki nægjanlega fram í 8. gr. hvaða kostnaði þetta aukavatnsgjald á að mæta. Og þar sem það er ekki afmarkað við tiltekið verkefni eða tiltekinn kostnað þýðir það að mínu mati að sveitarfélög eða sveitarstjórnir geti ákvarðað aukavatnsgjaldið þannig að þau hafi af því verulegar tekjur umfram útgjöld. Það er mér kunnugt um í nokkrum tilvikum í sveitarfélögum að sambærilegt gjald, sem heitir aukavatnsskattur, er í reyndinni þó nokkur tekjuöflun fyrir viðkomandi sveitarfélög og skaffar því tekjur umfram útgjöld vegna þess sem því líklega er ætlað að mæta. Mér finnst að nokkru leyti vanta inn í 8. gr. að menn skilgreini hvaða kostnaði aukavatnsgjald á að mæta. Sérstaklega af því að menn breyta nafninu og þar með eðli álagningarinnar úr því að vera skattur yfir í það að vera gjald og gjald er eðli málsins samkvæmt tekjur til að mæta tilteknum útgjöldum.
    Í þriðja lagi bendi ég á að heimilt er að setja upp vatnsmæla til að mæla rúmmetrana sem ákvarða aukavatnsgjaldið. Vatnsmælagjaldið er heldur ekki skilgreint, hvað það megi vera hátt eða nákvæmlega hvaða kostnaði það á að mæta. Þetta mælagjald, virðulegi forseti, er í reglugerð en ekki í lögunum svo ég leiðrétti mig. Þetta er í 11. gr. draganna að reglugerð. Þar er heimild gefin til sveitarstjórna að innheimta leigugjald fyrir mælinn.
    Síðan er líka fjórða gjaldið, sem er annars eðlis en þau þrjú sem ég hef talið upp, og það er heimæðagjald. Það er hins vegar annars eðlis eins og ég gat um. Það er til að mæta stofnkostnaði en ekki rekstrarkostnaði og er ætlað að mæta kostnaði við lagningu heimæðar frá götu. Ég skil 6. gr. frv. þannig að heimæðagjaldið eigi að miðast við að það sé hin almenna regla að menn fari a.m.k. ekki yfir kostnaðinn í tekjuöflun og þá ekki endilega pr. hús eða götu heldur í einhverri heild, í einu hverfi eða slíkt, þannig að innkomnar tekjur af heimæðagjaldi væru ekki hærri eða kostnaðurinn við að leggja viðkomandi æðar, það sé það hámark sem löggjafinn heimili sveitarstjórnum til að ákvarða gjaldið.
    Hér var fyrir nokkrum vikum umræða um skattlagningu í framhaldi af brtt. sem ég flutti við frv. um skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði og þá var einmitt rætt, bæði hér og í nefnd, nokkuð um framsal skattlagningarvaldsins, og komu fram efasemdir um hvað menn gætu leyft sér mikið í þeim efnum, virðulegi forseti, og til hverra. Enn fremur var því hreyft að það væri óeðlilegt að framsal skattlagningarvaldsins væri með þeim hætti að það væru ekki takmörk á álagningunni hjá þeim aðila sem fékk heimildina. Það er að nokkru leyti í frv., sem ég bendi hér með á, skortur á nægilegum takmörkunum á skattlagningunni hjá þessum sveitarfélögum. Ég hefði talið betra ef menn hefðu getað gefið sér tíma til að ræða einmitt þetta atriði og athuga hvort ekki væri rétt að festa frekar en nú er í frv. einmitt hámark á skattlagningu sveitarfélaga í þessu skyni. Það er nefnilega mjög mismunandi eftir sveitarfélögum hvernig núverandi tekjustofnar vatnsveitu duga því öll þau gjöld sem eru talin upp í frv. eiga sér fyrirrennara í núgildandi álagningarkerfi, en það eru býsna margar vatnsveitur sem ég þekki til sem eru reknar með verulegum tekjuafgangi og mynda að því leyti til tekjustofn fyrir viðkomandi sveitarfélag. Hins vegar veit ég að það er mjög breytilegt eftir sveitarfélögum hvað þau þurfa að leggja út í mikinn kostnað við

að afla vatns fyrir íbúana, þannig að það er ekki mjög einfalt að vera með stífar takmarkanir í þessu efni, en ég hefði þó talið betra að setja tiltekin hámörk á þessi gjöld öll eins og reyndar er gert um vatnsgjaldið í 7. gr., en þar er sett ákveðið hámark á það hvað vatnsgjaldið má vera eða 0,3% af álagningarstofni. Ég geri engan ágreining eða athugasemdir við þá grein.
    Hvað varðar mælagjaldið má segja að það eru einna síst rök fyrir því að það þurfi að vera hámark á því, en ég hefði talið skynsamlegt að setja einhverjar takmarkanir á aukavatnsgjaldið sérstaklega. Mér finnst helst að bæta hefði mátt við einhverri klásúlu um hámark á það aukavatnsgjald eða þá setja frekari ákvæði í lagagreinina sem afmarka til hvers þetta gjald er þannig að það takmarkaðist af því.
    En það sem ég vek athygli á og er kannski meginástæðan fyrir mínum fyrirvara er sú breyting sem verður á álagningarstofni. Eins og segir í 7. gr. frv. verður álagningarstofninn afskrifað endurstofnverð húss og mannvirkis margfaldað með markaðsstuðli fasteigna í Reykjavík samkvæmt matsreglum Fasteignamats ríkisins í stað þess að vera fasteignamat. Hér er um að ræða verulega breytingu sem engar upplýsingar komu fram um tölulega og nefndarmenn hafa því ekki getað glöggvað sig á. Hins vegar hef ég reynt að afla mér upplýsinga um hvað þetta getur verið mikil breyting hjá Fasteignamati ríkisins, en því miður höfðu þeir ekki tiltækar þær upplýsingar sem ég þurfti til að leggja heildarmat á þetta, gögn þeirra eru í vinnslu einmitt þessa dagana, þannig að ég varð að láta mér duga að fá nokkrar ,,stikkprufur``, taka út nokkra kaupstaði á landinu og reyna að glöggva mig á því hversu mikill munur er á þessum tveimur álagningarstofnum.
    Ég hygg að ég megi segja að á höfuðborgarsvæðinu eða alla vega í Reykjavík sé ekki umtalsverður munur á þessu, ef nokkur. Hins vegar eru þessir tveir álagningarstofnar mismunandi víða í kaupstöðum á landsbyggðinni. Þannig er ég með yfirlit yfir Akranes og þar kemur fram að álagningarstofn samkvæmt frv. er 51% hærri en fasteignamat. Ef ég tek íbúðarhús og bílskúra út úr sérstaklega er hækkunin meiri en það eða um 60%. Ég er líka með upplýsingar um Ísafjörð og þar kemur fram að heildarálagningarstofn samkvæmt frv. yrði 31% hærri en fasteignamatið. Heildarálagningarstofninn í Bolungarvík yrði um 52% hærri en samkvæmt núgildandi fasteignamati eða álagningarstofni. Á Húsavík er munurinn 33% og á Egilsstöðum er munurinn 57%. Á Selfossi er munurinn 40%. Þannig er um að ræða --- alltént í þessum kaupstöðum og ég hygg að megi fullyrða í flestum ef ekki öllum kaupstöðum utan höfuðborgarsvæðisins, jafnvel á Suðurnesjum, þó þekki ég það ekki, virðulegi forseti --- verulega hækkun á álagningarstofni svo nemur tugum prósenta.
    Þetta þýðir að ef sveitarfélögin hafa óbreytta álagningarprósentu á vatnsgjaldi frá því sem er nú á vatnsskatti munu þessi gjöld hækka sem þessu nemur. Þar sem mig vantar þessi gögn frá Fasteignamati ríkisins hef ég ekki getað gert mér grein fyrir því hvað hér er um að ræða miklar fjárhæðir ef öll sveitarfélög hefðu sömu álagningarprósentu en breyttu um álagningargrunn, en til að gefa mönnum einhverja vísbendingu um að hér er um að ræða umtalsverðar upphæðir bendi ég á að þessi álagningarstofn er sá sami og er nú notaður við álagningu fasteignaskatts. Fasteignaskatturinn var á síðasta ári, ef ég man rétt, 4,2 milljarðar kr. Þannig leiðir af sjálfu sér að um er að ræða að sveitarfélög geti að óbreyttu hækkað tekjur sínar til vatnsveitna verulega nema ef væru í lögunum einhverjar þær takmarkanir sem afmörkuðu þessa skattstofna við þessi tilteknu verkefni með almennum hætti. Þá væri það líklegt til að halda aftur af því að menn sæki sér auknar tekjur ofan í vasa launþega og annarra íbúðaeigenda á þessum stöðum.
    Þetta er það sem ég vildi nefna sérstaklega sem ástæðu fyrir mínum fyrirvara. Ég sé þá hættu fram undan að gjöldin muni hækka verulega og hef raunar fyrir mér þróunina með fasteignaskattinn. Þegar farið var úr fasteignamatinu yfir í afskrifað endurstofnverð hækkaði álagningargrunnurinn geysilega mikið og sveitarfélögin mættu því að hluta með því að lækka álagningarprósentuna, en fjarri því að öllu leyti, og sóttu sér verulegar tekjur í gegnum þann tekjustofn. Það var hins vegar mun eðlilegra því fasteignaskatturinn er almenn tekjuöflun sveitarfélags, en í þessu tilviki, með vatnsgjaldið, skil ég vatnsgjaldið þannig, eins og ég hef greint frá, að um er að ræða gjald en ekki skatt og gjald sem afla á tekna á móti tilgreindum verkefnum.
    Ef sveitarstjórnir gá ekki að sér getur verið um að ræða verulega skattahækkun í allmörgum sveitarfélögum. Yfirleitt er það þannig hjá kaupstöðum að menn ganga frá álagningarstofnum í desember þannig að það kæmi mér ekki á óvart ef margir af kaupstöðunum 30 væru þegar búnir að ákvarða sína álagningarprósentu sem mundi þá framkalla þessa hækkun að óbreyttu. Ég tel að til þess að mæta mínu sjónarmiði og reyndar almennt allra vegna væri rétt að vekja sérstaka athygli á þessari afleiðingu af lagasetningunni og beina því til viðkomandi kaupstaða að þeir breyti sínum álagningarstuðli þannig að ekki verði um að ræða aukningu tekna á þessu sviði umfram það sem hægt er að rökstyðja sem skort á tekjum til að standa undir rekstri af vatnsveitunni sjálfri. Ég teldi það óeðlilegt ef sveitarfélögin gengju lengra í þeim efnum þrátt fyrir þá erfiðleika sem að þeim steðja um þessar mundir og allir þekkja þar sem verið er að sækja á þau að borga ákveðin útgjöld fyrir ríkissjóð.
    Virðulegur forseti. Ég hef í fáeinum orðum gert grein fyrir þeim atriðum sem ég tel nauðsynlegt að vekja athygli á við umræðu þessa máls og gert grein fyrir mínum fyrirvara um frv. Hins vegar legg ég áherslu á það sem almenna afstöðu mína til frv. að ég tel það vera til bóta og mun greiða frv. atkvæði, en hafa þó þann fyrirvara að ég legg mikla áherslu á að hér verði ekki um að ræða leið til að skattleggja íbúðaeigendur í kaupstöðum á landsbyggðinni umfram það sem tíðkast hefur.
    Virðulegi forseti. Með þessum orðum skal ég ljúka máli mínu í umfjöllun um frv.