Vatnsveitur sveitarfélaga

58. fundur
Laugardaginn 21. desember 1991, kl. 13:39:00 (2393)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
     Virðulegi forseti. Ég hef í sjálfu sér ekkert við það að bæta sem síðasti ræðumaður, hv. 2. þm. Vestf., sagði hér því að ég held að öllum hljóti að vera ljóst eftir þá útlistun sem hann gerði á þessu ákvæði að þetta gengur alls ekki upp. Við getum bara séð okkur sjálf í því. Nú skipta fasteignir um eiganda og kaupi maður sér fasteign á einhverjum tilteknum stað í Reykjavík þyrfti maður þá væntanlega að ganga úr skugga um það hvort sá sem selur manni fasteignina hefur farið fram á það að Reykjavíkurborg eignist heimæðina eða ekki. Það er með öðrum orðum ekki hægt að vera viss um þá hluti nema þetta sé gert á einhvern kerfisbundinn hátt af sveitarfélaginu. Ef hins vegar væru tekin fyrir einhver ákveðin svæði og boðið upp á það að heimæðar væru yfirteknar þá er það mismunun gagnvart íbúum sveitarfélagsins þar sem allir eiga að borga hið sama þannig að þetta gengur augljóslega ekki upp og þessu verður að breyta. Hafi menn haft það helst í huga að brjóta ekki hinn heilaga eignarrétt á fólki þannig að ekki væru teknar af því heimæðarnar ef því væri mjög mikið í mun að eiga þær þá ætti þetta ákvæði náttúrlega ekki að vera svona orðað eins og hér er heldur þannig að sveitarfélaginu beri skylda til að yfirtaka heimæðarnar sé þess óskað af fasteignareiganda. Þá dugir að hafa það með þeim hætti. Þá er hinn heilagi eignarréttur fasteignareigandans á heimæðinni tryggður ef menn vilja endilega hafa það þannig. Mér finnst því að við blasi að það þurfi að endurskoða þetta frv. eins og það liggur hér fyrir.