Ferill 36. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 36 . mál.


36. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 97 frá 1990, um heilbrigðisþjónustu.

Flm.: Stefanía Traustadóttir, Guðrún Helgadóttir, Svavar Gestsson.



1. gr.


    Við 2. mgr. 20. gr. laganna (20.2.) bætist nýr málsliður svohljóðandi: Mæðravernd og ungbarna- og smábarnavernd er þó ævinlega á kostnað ríkissjóðs.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta er flutt þar sem taka þarf af öll tvímæli um það að mæðravernd og ungbarna- og smábarnavernd verði ókeypis fyrir verðandi mæður og foreldra ungra barna. Breytingin felst í því að við 20. gr. laganna er bætt ákvæði þess efnis að mæðra- og ungbarnavernd verði ætíð á kostnað ríkissjóðs.
    Í gegnum árin hafa orðið margvíslegar breytingar á lögum um heilbrigðisþjónustu. Í 19. gr. núgildandi laga um heilbrigðisþjónustu, laga nr. 97 frá 1990, er talin upp sú þjónusta sem heilsugæslustöðvum er ætlað að veita. Þar er mæðravernd og ungbarna- og smábarnavernd talin í greinum 5.2. og 5.3. sem liðir í almennri heilsuvernd. Í 20. gr. sömu laga segir að rekstrarkostnaður heilsugæslustöðva skuli greiðast úr ríkissjóði. Enn fremur segir: „Ráðherra setur gjaldskrá fyrir veitta þjónustu heilsugæslustöðva og skal hún vera í samræmi við hliðstæðar gjaldskrár skv. lögum um almannatryggingar.“
    Í athugasemdum með frumvarpi til þeirra laga var þetta ákvæði réttlætt með vísun til breytinga á lögum um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga (lögum nr. 87/1989) þess efnis að ríkissjóður taki yfir rekstur heilsugæslustöðva og sjúkrasamlög yrðu lögð niður. Því þótti rétt að ráðherra ákvæði gjaldskrá fyrir veitta þjónustu og að hún væri í samræmi við hliðstæðar gjaldskrár samkvæmt lögum um almannatryggingar. Hún skyldi „vera með sama hætti alls staðar á landinu en ekki eins og nú er með mismunandi hætti“ eins og segir í athugasemdunum.
    Samkvæmt könnun, sem flutningsmenn hafa gert, virðist hvergi á landinu vera tekið gjald fyrir mæðravernd og ungbarnaeftirlit, hvorki við venjulega skoðun né heldur rannsóknir eða aðgerðir.
    Greiðsluþátttaka fyrir veitta læknishjálp utan sjúkrahúsa er ákveðin með reglugerð og tilvísun til 43. gr. laga um almannatryggingar. Í þeim reglugerðum og gjaldskrám, sem hafa verið settar á þessu ári, er hvergi minnst á mæðravernd eða ungbarna- og smábarnavernd, þ.e. að sú þjónusta skuli vera undanþegin gjaldtöku.
    Í gildandi lögum um heilbrigðisþjónustu er ákvæði til bráðabirgða um heilsuverndarstarf í Reykjavík sem er samkvæmt lögum nr. 44/1955 og lögum nr. 28/1957. Þetta bráðabirgðaákvæði fellur úr gildi um næstkomandi áramót og þá skulu sömu lög gilda um landið allt.
    Í 4. gr. laganna frá 1955 segir orðrétt:
    „Kostnaður af rekstri heilsuverndarstöðva, að því er tekur til heilsuverndargreina samkvæmt 1., 2., 7. og 9. tölulið 2. gr. skiptist að jöfnu á milli hlutaðeigandi sveitarsjóðs eða sveitarsjóða, hlutaðeigandi sjúkrasamlags og ríkissjóðs.“
    Í 2. gr. þessara sömu laga eru taldar upp helstu heilsuverndargreinarnar, en þær eru: 1. mæðravernd, 2. ungbarnavernd (0–2 ára) og smábarnavernd (2–7 ára) o.s.frv., 7. berklavarnir og 9. áfengisvarnir.
    Í reglugerð fyrir heilsugæslustöðvar nr. 160 frá 1982 er nánar útfært hvers konar þjónustu heilsugæslustöðvar eigi að veita. Í 51. gr. reglugerðarinnar er mæðraverndin skilgreind og í 52. gr. ungbarna- og smábarnaverndin. Þar er vísað til laga um ónæmisaðgerðir, nr. 38/1978. Í þeim lögum er tekið fram að ríkissjóður greiði kostnað af framkvæmd ónæmisaðgerða sem þar eru taldar upp. Að öðru leyti er hvergi vísað til sérlaga um þennan þátt heilbrigðisþjónustunnar. Ekki hefur verið sett reglugerð um þjónustu heilsugæslustöðva með tilvísun til nýju laganna.
    Flutningsmönnum sýnist ákvæði 4. gr. laganna frá 1955 vera eina ákvæðið í lögum sem tekur á mæðraeftirliti og ungbarna- og smábarnavernd og þá á þann hátt að hið opinbera eigi að borga það. Þetta ákvæði fellur úr gildi um næstu áramót og á í raun bara við um Reykjavík.
    Samkvæmt fjárlagafrumvarpi næsta árs ætlar heilbrigðisráðherra að ná inn u.þ.b. hálfum milljarði á því sem kallað er „sértekjur“ heilsugæslustöðva og er aukningin á þessum lið frá yfirstandandi fjárlagaári 375 millj. kr. Þessara tekna eiga heilsugæslustöðvar að afla með gjaldtöku fyrir hverja heimsókn á heilsugæslustöð. Í ljósi þessara upplýsinga þykir flutningsmönnum rétt að tryggja að sú reglubundna og góða heilsuvernd, sem felst í mæðra- og ungbarnaverndinni, verði áfram verðandi mæðrum og foreldrum ungra barna að kostnaðarlausu.
    Hér er því lagt til að tryggja þann rétt með lagasetningu.