Ferill 171. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 171 . mál.


186. Frumvarp til

laga


um breytingu á lögum nr. 67/1971, um almannatryggingar, með síðari breytingum, o.fl.

(Lagt fram á 115. löggjafarþingi 1991.)



1. gr.


    10. gr. laganna, eins og henni var síðast breytt með 2. gr. laga nr. 59/1978, orðast svo:
     Lífeyristryggingar taka til ellilífeyris, örorkulífeyris, umönnunarbóta, makabóta, barnalífeyris, mæðralauna, ekkjubóta og ekkjulífeyris.

2. gr.


    3. mgr. 12. gr. laganna, eins og henni var síðast breytt með 2. gr. laga nr. 30/1981, orðast svo:
     Heimilt er Tryggingastofnuninni að veita örorkustyrk þeim sem skortir a.m.k. helming starfsorku sinnar og uppfyllir skilyrði 1. mgr. að öðru leyti en því er örorkustig varðar. Örorkustyrkþegi, sem náð hefur 62 ára aldri, skal njóta örorkustyrks sem jafnan svarar til fulls örorkulífeyris (grunnlífeyris án bóta tengdra honum). Örorkustyrk má enn fremur veita þeim sem stundar fullt starf, en verður fyrir verulegum aukakostnaði sökum örorku sinnar. Tryggingaráð setur reglur um örorkustyrki og skulu þær staðfestar af ráðherra.

3. gr.


    Á eftir 12. gr. laganna komi ný grein er verði 13. gr. og orðast svo:
                  Greiða skal framfærendum fatlaðra og sjúkra barna innan 16 ára aldurs, sem dveljast í heimahúsi, umönnunarbætur allt að 43.450 kr. á mánuði ef andleg eða líkamleg hömlun barns hefur í för með sér tilfinnanleg útgjöld eða sérstaka umönnun eða gæslu. Tryggingastofnun ríkisins úrskurðar og annast greiðslu umönnunarbóta að fengnum tillögum svæðisstjórna um málefni fatlaðra samkvæmt lögum um málefni fatlaðra. Greiðsla skal miðuð við 20–175 klst. þjónustu á mánuði. Dagleg þjónusta við barn utan heimilis skerðir bætur samkvæmt þessari grein. Um framkvæmd greinarinnar fer eftir reglugerð sem heilbrigðisráðherra setur í samráði við félagsmálaráðherra að fengnum tillögum tryggingaráðs.
    13.–22. gr. verða 14. og 23. gr.

4. gr.


    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1992. Frá sama tíma fellur úr gildi 3.–5. mgr. 10. gr. laga um málefni fatlaðra, nr. 41/1983.

Athugasemdir við lagafrumvarp

þetta.
     Allt frá gildistöku laga nr. 41/1983, um málefni fatlaðra, hefur verið greitt fjárframlag til forráðamanna þeirra barna og unglinga 16 ára og yngri sem undir lögin falla, sbr. 10. gr. laganna. Hefur þetta verið túlkað svo að ákvæðið nái einnig til hliðstæðra greiðslna vegna sjúkra barna sem haldin eru langvarandi sjúkleika þótt ekki styðjist það við ótvíræðan lagatexta. Það hefur verið gagnrýnt að ákvæði sem þetta skuli ekki vera í lögum um almannatryggingar, m.a. vegna samræmingar á bótagreiðslum hins opinbera. Hefur orðið að samkomulagi milli heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og félagsmálaráðherra að fjárhagsaðstoð skv. 10. gr. laga um málefni fatlaðra verði færð undir lög um almannatryggingar, enda fara þessar greiðslur fram á vegum Tryggingastofnunar ríkisins í dag.
     Samkvæmt gildandi reglugerð um greiðslur ofangreinds fjárframlags, sem í frumvarpi þessu eru nefndar umönnunarbætur, eru greiðslur til þeirra einstaklinga, sem hér eiga hlut að máli, tryggðar út yfirstandandi ár. Hér er ekki um kostnaðaraukningu að ræða heldur eingöngu skipulagsbreytingu með það fyrir augum að koma á samræmingu þeirra bótagreiðslna sem um er að ræða á vegum ríkisins og að um þær fari samkvæmt almannatryggingalögum eins og eðlilegt hlýtur að teljast, en ekki lögum um málefni fatlaðra sem fyrst og fremst er ætlað að tryggja fötluðum þjónustu.
     Jafnframt er lagt til að ofangreindar umönnunarbætur komi í stað barnaörorku samkvæmt lögum um almannatryggingar þannig að umönnunarbæturnar komi bæði í stað fjárhagsaðstoðar skv. 10. gr. laga um málefni fatlaðra og barnaörorku skv. 3. mgr. 12. gr. laga um almannatryggingar, en samkvæmt þeirri grein er heimilt að greiða örorkustyrk (barnaörorku) vegna bæklunar eða vanþroska barns innan 16 ára aldurs ef hún hefur í för með sér tilfinnanleg útgjöld eða mikla umönnun. Frá því lög um málefni fatlaðra öðluðust gildi 1. janúar 1984 hefur svokölluð barnaörorka haft síminnkandi gildi einfaldlega vegna þess að þeir aðilar, sem eiga kost á barnaörorku samkvæmt lögum um almannatryggingar, eiga flestir kost á aðstoð skv. 10. gr. laga nr. 41/1983, um málefni fatlaðra. Verði þær tillögur að lögum sem hér eru settar fram munu einnig foreldrar sjúkra barna eiga ótvíræðan rétt á umönnunarbótum með hliðsjón af mati á umönnunarþörf í samræmi við þá viðmiðun sem hingað til hefur gilt og tekur mið af 20–175 klst. á mánuði. Verði þetta frumvarp að lögum þjónar barnaörorka því engum tilgangi lengur. Það er enn fremur ljóst að engum hefur verið akkur í að fá barnaörorku þegar honum hefur staðið til boða aðstoð samkvæmt lögum um málefni fatlaðra þar sem hún er hærri.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Lagt er til að inn í 10. gr. komi umönnunarbætur þannig að lífeyristryggingar taki til þeirra sem sjálfstæðs bótaflokks með sama hætti og ellilífeyris, örorkulífeyris, makabóta, barnalífeyris, mæðralauna, ekkjubóta og ekkjulífeyris. Í því er fólgin viðurkenning á umönnunarbótum innan almannatryggingakerfisins með sama hætti og gildir um áðurnefnda bótaflokka.

Um 2. gr.


    Greinin er efnislega óbreytt frá 3. mgr. 12. gr. að öðru leyti en því að tekin eru út ákvæðin um barnaörorku, sbr. það sem segir í athugasemdum hér að framan.

Um 3. gr.


    Lagt er til að í nýrri 13. gr. komi ákvæði er kveði á um umönnunarbætur vegna fatlaðra og sjúkra barna er komi annars vegar í stað fjárhagsaðstoðar skv. 10. gr. laga nr. 41/1983, um málefni fatlaðra, og hins vegar barnaörorku skv. 3. mgr. 12. gr. laga um almannatryggingar, nr. 67/1971, með síðari breytingum. Gert er ráð fyrir því að um framkvæmdina fari með svipuðum hætti og verið hefur, þ.e. að dagleg þjónusta við barn utan heimilis skerði bætur og að heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra setji reglugerð um framkvæmdina að höfðu samráði við félagsmálaráðherra að fengnum tillögum tryggingaráðs, enn fremur að tillögur um greiðslur með hliðsjón af umönnunarþörf komi frá svæðisstjórnum um málefni fatlaðra samkvæmt lögum nr. 41/1983 til Tryggingastofnunar ríkisins í stað félagsmálaráðuneytis.
     Nái greinin fram að ganga þarf að afnema 3.–5. mgr. 10. gr. laga nr. 41/1983, um málefni fatlaðra, eins og lagt er til í 4. gr. frumvarpsins.

Um 4. gr.


    Þar sem greiðslur eru tryggðar á yfirstandandi ári til hlutaðeigandi barna samkvæmt reglugerð félagsmálaráðherra þurfa lögin ekki að koma til framkvæmda fyrr en frá og með nk. áramótum. Frá sama tíma fellur úr gildi 3.–5. mgr. 10. gr. laga um málefni fatlaðra, nr. 41/1983.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:



Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum


nr. 67/1971, um almannatryggingar, með síðari breytingum, o.fl.



     Eins og kemur fram í athugasemdum felst í frumvarpinu sú skipulagsbreyting að koma á samræmingu bótagreiðslna ríkisins og að um þær verði fjallað samkvæmt ákvæðum laga um almannatryggingar, en ekki lögum um málefni fatlaðra sem fyrst og fremst er ætlað að tryggja fötluðum þjónustu. Verið er að flytja lagaákvæði til 13. gr. laga um almannatryggingar en á móti falla niður ákvæði í 3., 4. og 5. mgr. 10. gr. laga nr. 41/1983, um málefni fatlaðra. Í 3. gr. frumvarpsins er tekið fram að umönnunarbætur skuli nema allt að 43.450 kr. á mánuði og mun sú fjárhæð breytast í samræmi við breytingar á bótum almannatrygginga þar sem umönnunarbæturnar eru sérstakur bótaflokkur. Það er nýmæli að umönnunarbætur ná samkvæmt frumvarpinu einnig til sjúkra barna og er þá verið að lögfesta bráðabirgðaákvæði II í reglugerð nr. 605/1989 um fjárhagslega aðstoð við framfærendur fatlaðra. Með þessu ákvæði er átt við börn sem haldin eru lífshættulegum eða langvarandi sjúkdómum, svo sem krabbameini. Samkvæmt upplýsingum félagsmálaráðneytisins hefur þetta ákvæði í framkvæmd náð fyrst og fremst til krabbameinssjúklinga og er um 60 börn að ræða. Samkvæmt sömu heimild má áætla umönnunarkostnað við þessa sjúklinga um 25 m.kr. á ári. Í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 1991 er gert ráð fyrir 15 m.kr. til þessa viðfangsefnis (07-700–104). Félagsmálaráðuneytið telur að um 15 m.kr. vanti á fjárveitingu í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1992 til að uppfylla ákvæði reglugerðarinnar. Þá liggja ekki fyrir upplýsingar um hvort í framkvæmd muni lagaákvæðið ná til fleiri sjúklinga en verið hefur. Ef svo er, mun það leiða til aukins kostnaðar fyrir ríkissjóð.