Ferill 183. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 183 . mál.


201. Tillaga til þingsálykt

unar

um útboð.

Flm.: Stefán Guðmundsson, Guðni Ágústsson.



     Alþingi ályktar að fela iðnaðarráðherra að skipa nefnd er hafi það verkefni að semja frumvarp til útboðslaga.
     Starf nefndarinnar skal miða við að hægt verði að leggja frumvarpið fram í október 1992.
     Í nefndinni skulu m.a. eiga sæti fulltrúar hagsmunaaðila.

Greinargerð.


     Grundvallarhugmynd útboðsfyrirkomulagsins er að koma á verðsamkeppni þar sem kostir heilbrigðrar samkeppni fá að njóta sín innan viðurkenndra leikreglna.
     Brýna nauðsyn ber til að endurmeta þær reglur sem nú eru um framkvæmd útboða hér á landi og setja lög er tryggja þau grundvallaratriði sem útboð byggjast á og skapa nauðsynlegt réttaröryggi verktaka og verkkaupa.
     Útboðshugtakið hefur verið skilgreint þannig: „Þegar verkkaupi leitar skriflegra, bindandi tilboða í framkvæmd verks frá fleirum en einum aðila samkvæmt sömu upplýsingum og innan sama frests.“
    Útboðum má skipta í þrjú meginsvið:
    Almenn útboð:
        Þegar ótilteknum fjölda er með auglýsingu gefinn kostur á að gera tilboð.
    Lokað útboð:
        Þegar einungis tilteknum aðilum er gefinn kostur á að gera tilboð (oftast á grundvelli forvals).
    Alútboð:
        Þegar tilboða er leitað í hönnun og framkvæmd verks samkvæmt forsögn.
    Með því að setja lög um útboð er enginn réttur tekinn af einstaklingum né fyrirtækjum til frjálsrar ráðstöfunar eigin mála. Löggjöf um útboð og ákveðinn staðall er nauðsynlegt form til að ná fram aukinni hagkvæmni og bættri nýtingu þess fjármagns sem til einstakra framkvæmda er ætlað.
     Reynslan hefur sýnt ótvíræðan fjárhagslegan ávinning útboða, svo og að þar er um æskilegt viðskiptaform að ræða séu leikreglur í heiðri hafðar.
     Þær reglur, sem nú er unnið eftir við gerð útboða, byggjast öðru fremur á staðlinum ÍST.30 þar sem er að finna helstu hugtaksskýringar og reglur sem gilda um útboð. Þessi staðall var fyrst gefinn út árið 1969 en endurskoðaður árið 1979 og síðan 1988.
     Staðallinn ÍST.30 sem hér er notaður við útboð er að mestu byggður á venjum sem hér hafa þróast. Notkun staðalsins er hins vegar ekki lögbundin og hann hefur ekki lagagildi.
     Sú reynsla, sem fengin er af útboðsmálum, sýnir að staðallinn ÍST.30 dugir ekki til að tryggja það réttaröryggi og þá viðskiptahætti sem verður að krefjast. Reynslan hefur enn fremur sýnt að staðallinn hefur ekki staðist þær væntingar sem til hans voru gerðar árið 1988.
     Það er mjög nauðsynlegt að kveða skýrt á um þær samkeppnisreglur sem ríkja eiga í útboðsmálum hér á landi og leita leiða til að tryggja sem allra best hagsmuni Íslendinga sjálfra. Jafnframt þarf að huga að leikreglum sem gilda á alþjóðavettvangi.
     Með því að setja lög um útboð er ekki aðeins átt við að þau taki til framkvæmda í mannvirkjastarfsemi og hvers konar verklegum framkvæmdum heldur einnig til margvíslegrar þjónustu, viðskipta og vörukaupaútboða.
     Með flutningi þessarar þingsályktunartillögu er knúið á um að sett verði löggjöf um útboð með ófrávíkjanlegum reglum ásamt notkun staðla er skapi þá festu og traust sem nauðsynlegt er að byggja upp fyrir íslenskan útboðsmarkað.