Ferill 194. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 194 . mál.


214. Tillaga til þingsályktunar



um skolphreinsun.

Flm.: Gísli S. Einarsson, Rannveig Guðmundsdóttir.



    Alþingi ályktar að skipaður skuli samstarfshópur til að hanna skolphreinsibúnað sem hæfi íslenskum aðstæðum. Starfshópnum verði einnig falið að gera kostnaðaráætlun fyrir skolphreinsibúnaðinn og kanna möguleika íslensks fyrirtækis til að framleiða slíkan búnað í mismunandi stærðum sem henti sveitarfélögum og iðnfyrirtækjum á Íslandi þar sem úrgangur fer í einhverjum mæli í holræsakerfi og þaðan út í umhverfið.

Greinargerð.


     Mengunarvarnareglugerð nr. 386/1989 tók gildi 1. janúar 1990.
     Eitt stærsta viðfangsefni sveitarfélaga hér á landi er að koma skolphreinsun frá byggð í lag svo að umhverfi og náttúra skaðist sem minnst af úrgangsefnum í skolpi.
     Mörg sveitarfélög hafa gert nákvæmar skýrslur um hvernig ástatt er í þessum málaflokki hjá þeim. Hjá öðrum þarf að gera úttekt á stöðu þessara mála þannig að unnt sé að gera tillögur um úrbætur. Líklegt er að flest sveitarfélög geti gert úttekt á núverandi ástandi en að lítil sveitarfélög þurfi aðstoð við að gera tillögur um sem hagkvæmastar úrbætur. Það er ljóst að margar en misgóðar lausnir hafa fundist á hreinsun skolps víða í heiminum sem má hafa til hliðsjónar við úrlausn þessa máls.
     Þessari ályktun er ætlað að koma því til leiðar að búnaður, sem hæfi íslenskum aðstæðum, verði hannaður af Íslendingum og gæti hann einnig nýst þeim sem búa við lík skilyrði í nágrannalöndum okkar, svo sem Grænlendingum, Færeyingum og Norðmönnum.
     Íslendingar eiga stofnanir og fyrirtæki sem hafa þekkingu og fjárhagslega getu til að annast þetta verkefni. Þó er eðlilegt að leitað verði til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga í því skyni að hann leggi fram fjármagn til frumhönnunar þar sem þetta er verkefni til að mæta grundvallarþörfum sveitarfélaga.
    Flutningsmenn telja nauðsyn bera til að hraða þessu og þörf á að kanna bestu kosti í þessum málaflokki og ná árangri með sem minnstum tilkostnaði. Yfirleitt er umræðu um þessi mál drepið á dreif með ótímabærum fullyrðingum um að hreinsun skolps sé of kostnaðarsöm. Flutningsmenn telja að unnt sé að gera grunnáætlun um þessa framkvæmd sem leiði í ljós að sveitarfélögum sé unnt að bæta úr málum að því marki sem mengunarvarnareglugerð nr. 386/1989 kveður á um.