Ferill 201. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 201 . mál.


224. Tillaga til þingsályktunar



um aukatekjur ríkissjóðs og gjaldtöku ríkisstofnana.

Flm.: Jóhann Ársælsson.



     Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta fara fram endurskoðun á aukatekjum ríkissjóðs og gjaldtöku ríkisstofnana.
     Markmið endurskoðunarinnar verði að gera skýran greinarmun á skattheimtu og gjaldtöku fyrir veitta þjónustu sem hið opinbera ákveður að innheimta. Skal við það miðað að þjónustugjöld, sem eru innheimt vegna tiltekinnar þjónustu, skuli vera metin sem hlutdeild í þeim kostnaði sem af þjónustunni hlýst eða hluti þess kostnaðar, en aldrei hærri.
     Ákveði hið opinbera að skattleggja tiltekna þjónustu skal koma skýrt fram við innheimtu hve hár skatturinn er, við hvaða stjórnvaldsákvarðanir er stuðst og hvernig útreikningi er háttað.

Greinargerð.


     Margvísleg gjaldtaka er viðhöfð í stofnunum ríkisins, t.d. fyrir vottorð, leyfi, skírteini, þinglýsingar og stimpilgjöld, svo og þjónustugjöld stofnana af ýmsu tagi. Mjög mikilvægt er að opinberir aðilar innheimti aldrei óeðlilega há gjöld fyrir veitta þjónustu. Gjöld, sem innheimt eru vegna tiltekinnar þjónustu, skulu þess vegna vera metin sem hlutdeild í henni eða hluti þess kostnaðar, en aldrei hærri.
     Ýmis gjöld, sem hér er vísað til, eru það há að þau geta ekki verið eðlilegt endurgjald fyrir þjónustu og verður því að líta svo á að um skattlagningu sé að ræða. Full ástæða er til að meta að nýju hvort eðlilegt sé að ríkið noti sér ýmis þessara gjalda til sérstakrar tekjuöflunar. Það að taka háar fjárhæðir í ríkissjóð í stimpilgjöld eða fyrir skírteini, leyfi eða þjónustu án tillits til efnahags eða ástæðna þeirra er í hlut eiga er brot á þeim réttlætisviðhorfum sem ríkja skulu við ákvörðun skattstofns.
     Það kemur mörgum undarlega fyrir sjónir að hið opinbera skuli á tíðum innheimta gjöld af ýmsu tagi sem augljóslega eru óeðlilega há miðað við þá þjónustu sem veitt er. Þegar aftur á móti kemur að samningum um kaup og kjör eða önnur viðskipti milli almennra borgara landsins þykir sú regla sjálfsögð að full þjónusta sé veitt fyrir endurgjaldið og full rök séu færð fyrir þeim kröfum sem gerðar eru. Þá er einnig í ljósi þeirrar stefnu núverandi stjórnvalda að innheimta þjónustugjöld af ýmsu tagi í miklu meira mæli en áður ástæða til að gera aðgengilegar upplýsingar um hve stóran hlut menn greiða í þeirri þjónustu sem veitt er af hinu opinbera í hverju einstöku tilviki.
     Almenn viðhorf til viðskipta milli aðila og nauðsyn á rökstuddri réttlætingu á gerðum hins opinbera kallar á aðgerðir í þessu efni.