Ferill 402. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 402 . mál.


655. Frumvarp til laga



um greiðslukortastarfsemi.

(Lagt fyrir Alþingi á 115. löggjafarþingi 1991–92.)




I. KAFLI


Gildissvið og hugtök laganna.


1. gr.


    Lög þessi taka til greiðslukortastarfsemi með útgáfu greiðslukorta, svo og annarrar sambærilegrar greiðslumiðlunar hér á landi.

2. gr.


    Í lögum þessum merkir:
     greiðslukortastarfsemi: þá starfsemi kortaútgefanda að starfrækja greiðslumiðlun með notkun greiðslukorta samkvæmt sérstökum samningum við korthafa og greiðsluviðtakanda eða einungis beint við korthafa,
     greiðslukort: hvers kyns greiðslukort sem veita korthafa rétt til þess að greiða fyrir vörur, þjónustu eða önnur verðmæti með því að andvirði hins selda er skuldfært á reikning korthafans hjá kortaútgefandanum,
     kortaútgefandi: útgefanda greiðslukorts og þann aðila sem korthafi gerir samning við um notkun greiðslukorts, svo og þann aðila sem skuldbindur sig til greiðslu gagnvart greiðsluviðtakanda, ef hann er annar en kortaútgefandi,
     greiðsluviðtakandi: seljanda vöru, þjónustu eða annarra verðmæta eða þann aðila sem gert hefur samning við kortaútgefanda um að taka við greiðslukorti til greiðslumiðlunar vegna seldrar vöru, þjónustu eða annarra verðmæta,
     korthafi: þann aðila sem gert hefur samning við kortaútgefanda um notkun greiðslukorts til greiðslumiðlunar hér á landi vegna keyptrar vöru, þjónustu eða annarra verðmæta, hvort sem slík viðskipti eru gerð innan lands eða erlendis, svo og þá er ábyrgð bera samkvæmt skilmálum er um kortið gilda.

II. KAFLI


Skráning og eftirlit með starfsemi kortaútgefanda.


3. gr.


    Kortaútgefandi skal hafa skráð firma eða útibú hér á landi nema annað leiði af alþjóðlegum samningum eða viðskiptaráðherra heimili undanþágu.

4. gr.


    Viðskiptaráðherra veitir kortaútgefendum starfsleyfi. Áður en leyfi er veitt skal afla umsagnar bankaeftirlits Seðlabanka Íslands. Greiðslukortastarfsemi getur ekki hafist fyrr en starfsleyfi hefur verið veitt samkvæmt þessari grein.
     Í umsókn um starfsleyfi skal m.a. koma fram eða fylgja:
    Nafn og firma kortaútgefanda, fastrar starfsstöðvar kortaútgefandans og samþykktir fyrirtækisins.
    Hvernig greiðslumiðlunin fer fram, svo og hvernig greiðslur eru inntar af hendi.
    Helstu skilmálar varðandi notkun greiðslukorta er hann gefur út, sbr. 7. gr. laga þessara.
    Helstu viðskipta- og samningsskilmálar kortaútgefanda.
     Breytingar á áður tilkynntum atriðum skulu tilkynntar bankaeftirlitinu áður en þær koma til framkvæmda.
     Bankaeftirlitið heldur skrá yfir starfandi kortaútgefendur.
     Innlánsstofnunum, sem uppfylla skilyrði laga nr. 86/1985, um viðskiptabanka, eða laga nr. 87/1985, um sparisjóði, er einum heimil útgáfa korta sem nota má til að greiða fyrir vöru eða þjónustu með millifærslu af innlánsreikningi (debet-kort). Um útgáfu slíkra korta og starfsemi tengda þeim fer samkvæmt ákvæðum laga um viðskiptabanka og sparisjóði.
     Ráðherra getur með reglugerð undanþegið tiltekin greiðslukort eða greiðslukortaviðskipti gildissviði laga þessara.

5. gr.


    Bankaeftirlit Seðlabanka Íslands skal fylgjast með því að í greiðslukortastarfsemi sé ávallt fylgt eftirlits- og öryggisreglum sem settar eru varðandi starfsemina og nauðsynlegar leiðréttingar séu gerðar í samræmi við athugasemdir eftirlitsaðila.
     Bankaeftirlitið skal hafa aðgang að öllum upplýsingum er það telur sig þurfa vegna starfsemi sinnar samkvæmt lögum þessum enda sé fyllsta trúnaðar gætt. Hið sama gildir varðandi ákvarðanir þess um það hvort atvik séu með þeim hætti að lög þessi eigi við.

6. gr.


    Verðlagsstofnun skal fylgjast með því að greiðslukortastarfsemi sé rekin í samræmi við sanngjarna viðskiptahætti.
     Telji verðlagsráð að
    viðskiptaskilmálar kortaútgefanda, sbr. einnig 1. mgr. 7. gr., eða viðskiptaskilmálar greiðsluviðtakanda gagnvart korthafa taki einungis mið af eigin hagsmunum eða séu að öðru leyti óréttmætir eða
    viðskiptaskilmálar kortaútgefanda eða greiðsluviðtakanda taki einungis mið af hagsmunum annars þeirra
getur það bannað athafnir kortaútgefanda er brjóta í bága við ákvæði þessarar greinar og lagt fyrir hann að breyta viðskiptaháttum sínum.

III. KAFLI


Almenn ákvæði.


7. gr.


    Kortaútgefanda er skylt, áður en samningur um útgáfu greiðslukorts er gerður eða þegar hann svarar fyrirspurnum varðandi greiðslukort, að veita upplýsingar varðandi eftirfarandi:
    Notkunarheimildir tengdar greiðslukortinu.
    Skilyrði sem tengjast handhöfn og notkun greiðslukortsins, þar á meðal hversu oft korthafi fái yfirlit um úttektir.
    Heildarkostnað sem tengdur er notkun greiðslukortsins, þar með talin föst gjöld, svo sem árgjald og vexti, ef um þá er að ræða.
    Hversu oft korthafi fái reikningsyfirlit frá kortaútgefandanum.
    Upplýsingar sem kortaútgefandi krefst af umsækjanda þegar umsókn um útgáfu greiðslukorts er afhent.
    Meginreglur kortaútgefanda um mat á lánstrausti umsækjanda um greiðslukort.
    Notkun, geymslu og miðlun persónulegra upplýsinga er snerta umsækjanda, svo og varðandi innkaup hans o.fl.
    Hvernig korthafi skuli koma á framfæri fullnægjandi aðvörunum þegar greiðslukort eða einkaleyninúmer (PIN-tala) eða þess háttar týnist, það er misnotað eða er á annan hátt komið í ólögmæta vörslu.
     Kortaútgefandi skal áður en samningur stofnast um notkun greiðslukorts veita umsækjanda þær upplýsingar sem getið er í 1. mgr. þessarar greinar.
     Ráðherra getur sett nánari reglur um það hvernig upplýsingaskylda samkvæmt þessari grein sé uppfyllt.

8. gr.


    Kortaútgefandi gefur út greiðslukort að undangenginni athugun á fjárhagsstöðu umsækjanda um greiðslukort. Aðila, sem ekki nýtur viðskiptatrausts, skal synja um greiðslukort þótt hann bjóði ábyrgðir annarra fyrir úttektum sínum.
     Aðeins í undantekningartilvikum er kortaútgefanda heimilt að krefja korthafa fyrir fram um að hann leggi fram tryggingar með ábyrgð annarra aðila fyrir úttekt sinni. Ábyrgðaraðili samkvæmt þessari málsgrein getur hvenær sem er og án fyrirvara krafist að greiðslukortasamningur, sem hann er í ábyrgð fyrir, sé afturkallaður þegar í stað. Um ábyrgð á úttekt, eftir að krafa um afturköllun ábyrgðar kemur til kortaútgefanda, fer þá samkvæmt ákvæðum IV. kafla laga þessara.

9. gr.


    Greiðslukort má aðeins afhenda að fenginni skriflegri umsókn, sbr. jafnframt 7. gr. laga þessara.
     Sé umsókn um greiðslukort synjað á grundvelli upplýsinga sem um getur í 5. og 6. tölul. 7. gr. laga þessara skal kortaútgefandi, að beiðni umsækjanda, greina frá því á hvaða upplýsingum byggt er.

10. gr.


    Korthafi á rétt til þess að krefjast kvittunar við sérhverja greiðslu sem innt er af hendi með notkun greiðslukorts nema hann hafi sérstaklega á annan veg samið við hlutaðeigandi greiðsluviðtakanda.
     Ráðherra getur með reglugerð undanþegið tiltekin greiðslukort eða greiðslukortaviðskipti frá ákvæðum þessarar greinar.

11. gr.


    Kortaútgefanda er óheimilt að takmarka með almennum skilmálum rétt korthafa til þess að segja samningi upp við kortaútgefanda án fyrirvara. Heimilt er að semja um slíkt í sérstökum tilvikum.

12. gr.


    Greiðslumiðlun með greiðslukortum skal eigi valda almennri hækkun á vöruverði. Verðlagsráð getur ákveðið hámarksþóknun sem kortaútgefanda er heimilt að krefja greiðsluviðtakanda um en kostnaður vegna greiðslumiðlunarinnar skal að öðru leyti greiðast af korthöfum.
     Ákvörðun um hámarksþóknun skv. 1. mgr. verður ekki beitt nema notkun greiðslumiðlunar af þessu tagi hækki sannanlega kostnað greiðsluviðtakanda miðað við fyrri viðskiptahætti og ekki tíðkist í viðkomandi grein að veita þeim viðskiptavinum, sem ekki notfæra sér greiðslumiðlunina, sérstakan afslátt af verði vöru eða þjónustu.
     Kortaútgefendur skulu birta opinberlega gjaldskrár sínar ef Verðlagsstofnun krefst þess.

IV. KAFLI


Um ábyrgð korthafa og kortaútgefanda.


13. gr.


    Korthafi er ábyrgur fyrir allt að 12 þúsund króna tjóni sem leiðir af ólögmætri notk-un greiðslukortsins þegar notað er einkaleyninúmer eiganda greiðslukortsins. Þetta á þó ekki við ef annað leiðir af 2. eða 3. mgr. þessarar greinar.
     Korthafa ber að bæta allt tjón sem aðrir valda vegna ólögmætrar notkunar greiðslukortsins og einkaleyninúmers hans, enda sanni kortaútgefandi að korthafi hafi gefið upplýsingar um númerið til þess sem hefur notað greiðslukortið á ólögmætan hátt.
     Korthafi er ábyrgur fyrir tjóni fyrir allt að 8 þúsundum króna sem verður vegna ólögmætrar notkunar annarra en korthafa nema til komi rýmri ábyrgð skv. 2. mgr. þessarar greinar, enda sanni kortaútgefandi að
    korthafi hafi afhent greiðslukortið til þess sem hefur notað greiðslukortið í heimildarleysi,
    korthafi eða sá sem hann hefur afhent greiðslukortið hafi með vítaverðum hætti stuðlað að því að misnotkunin hafi getað átt sér stað eða
    reikningseigandi eða sá sem korthafi hefur afhent kortið hefur ekki tilkynnt kortaútgefanda eins fljótt og unnt er eftir að vitneskja liggur fyrir um það að greiðslukortið hafi glatast.
     Korthafi er því aðeins ábyrgur skv. 1.–3. mgr. þessarar greinar að viðskiptin séu rétt skráð og bókfærð, sbr. 14. gr. þessara laga.
     Kortaútgefandi er ábyrgur fyrir tjóni sem verður eftir að hann hefur fengið tilkynningu um að greiðslukortið hafi glatast eða sé komið á ólögmætan hátt í vörslu annars en korthafa. Þetta gildir þó eigi ef greiðsluviðtakandi er ábyrgur skv. 7. mgr. þessarar greinar. Kortaútgefandi skal þegar í stað gefa korthafa staðfestingu á því að tilkynnt hafi verið um að greiðslukortið hafi glatast. Staðfesting kortaútgefanda skal vera skrifleg og í henni skal greina frá hvaða tíma tilkynningin tekur gildi.
     Kortaútgefandi er ábyrgur fyrir tjóni sem verður vegna ólögmætrar notkunar á greiðslukorti nema annað leiði af ákvæðum 1.–3. mgr. eða 7. mgr. þessarar greinar.

     Þrátt fyrir ákvæði 1.–3. mgr. þessarar greinar er greiðsluviðtakandi ábyrgur fyrir tjóni ef hann vissi eða mátti vita að handhafa greiðslukortsins var óheimilt að nota það.
     Fjárhæðartakmörk, sem um getur í 1. og 3. mgr. þessarar greinar, miðast við lánskjaravísitölu 3.198 stig og breytast í hátt við þá vísitölu.

14. gr.


    Kortaútgefandi er ábyrgur fyrir tjóni greiðsluviðtakanda eða korthafa sem orsakast af rangri skráningu, reikningsskekkjum, tæknilegum bilunum eða öðrum samsvarandi ástæðum og þrátt fyrir að telja verði að tjónið stafi af ófyrirsjáanlegum orsökum og skulu slíkar villur leiðréttar um leið og þær koma í ljós. Heimilt er þó að lækka eða fella brott ábyrgð kortaútgefanda samkvæmt þessari grein ef korthafi hefur með stórfelldu gáleysi eða af ásetningi átt þátt í því að sú bilun varð eða rangfærsla sem tjónið er rakið til. Kortaútgefandi ber þó eigi ábyrgð á tjóni greiðsluviðtakanda sem rekja má að öllu leyti til eigin aðstæðna eða gáleysis hans.
     Seinki greiðslu eða hafi hún eigi komið fram vegna þeirra atvika sem nefnd eru í 1. málsl. 1. mgr. þessarar greinar verður kröfum eigi beint að korthafa af þeim ástæðum, nema að því leyti sem kortaútgefandi kann að eiga rétt til vaxta úr hendi korthafa. Hafi reikningur korthafa þegar verið skuldfærður vegna greiðslunnar ber þó að líta svo á að greiðluskyldu korthafa sé að öllu leyti lokið.
     Tjón það, er kortaútgefandi hefur þurft að bæta korthafa vegna ákvæða 1. mgr. þessarar greinar og rakið verður til aðstæðna eða gáleysis greiðsluviðtakandans, getur kortaútgefandi endurkrafið greiðsluviðtakanda um.
     Sönnunarbyrði fyrir því, að ástæður þær, sem nefndar eru í 1. málsl. 1. mgr., eigi ekki við um greiðslukortaviðskiptin, hvílir á kortaútgefanda.

V. KAFLI


Skráning og meðferð upplýsinga sem kortaútgefandi skráir.


15. gr.


    Einungis er heimilt að skrá upplýsingar um korthafa og greiðsluviðtakanda sem nauðsynlegar eru vegna greiðslukortaviðskiptanna, svo og tilkynningar um það er greiðslukort tapast eða er innkallað sökum misnotkunar.
     Upplýsingar um korthafa og greiðsluviðtakanda má aðeins nota og afhenda þegar það er nauðsynlegt til framkvæmdar greiðslukortaviðskiptunum, til leiðréttingar og vegna réttarvörsluathafna eða slíkt er á annan hátt heimilað í lögum.
     Upplýsingar, er varða misnotkun, má einungis gefa að því marki sem nauðsynlegt getur talist til þess að koma megi í veg fyrir frekari misnotkun.

16. gr.


    Upplýsingar um notkun einstaklinga og fyrirtækja á greiðslumiðlun með greiðslukortum skulu varðveittar í fimm ár frá greiðslu korthafa en að þeim tíma liðnum skal þeim eytt.

17. gr.


    Ef annað leiðir ekki af ákvæðum í lögum þessum skal beita ákvæðum laga um skráningu og meðferð persónuupplýsinga um skrár sem færðar eru í tengslum við greiðslukortastarfsemi, sbr. 1. gr. laga þessara.

VI. KAFLI


Viðurlög og málsmeðferð.


18. gr.


    Yfirstjórn með lögum þessum og reglum settum samkvæmt þeim er í höndum viðskiptaráðherra.
     Úrskurðum bankaeftirlits og verðlagsráðs samkvæmt lögum þessum er heimilt að skjóta til staðfestingar eða synjunar ráðherra innan fjögurra vikna frá því að úrskurður gengur um ágreiningsefnið. Málskot frestar þó eigi gildistöku úrskurðar.
     Nú vill aðili ekki una ákvörðun ráðherra, bankaeftirlits eða verðlagsráðs og getur hann þá borið málið undir dómstóla. Mál skal höfða innan sex mánaða frá því að aðili fékk vitneskju um ákvörðun. Málshöfðun frestar ekki gildistöku ákvörðunar. Með mál samkvæmt þessari málsgrein skal fara samkvæmt lögum nr. 85/1936, um meðferð einkamála í héraði.

19. gr.


    Ráðherra getur fellt úr gildi til bráðabirgða þau leyfi til kortaútgáfu sem hann hefur veitt samkvæmt ákvæðum 4. gr. Niðurfelling skal borin undir dómstóla án ástæðulauss dráttar, sbr. ákvæði 21. gr.

20. gr.


    Brot gegn lögum þessum eða reglugerðum settum samkvæmt þeim skulu varða sektum nema þyngri refsing liggi við í öðrum lögum. Um meðferð slíkra mála skal fara að hætti opinberra mála.
     Gera má lögaðila fésekt fyrir brot á lögum þessum án tillits til þess hvort sök verður sönnuð á fyrirsvarsmann eða starfsmann lögaðilans. Hafi fyrirsvarsmaður eða starfsmaður gerst sekur um brot á lögum þessum má einnig gera lögaðilanum sekt og sviptingu starfsréttinda.

21. gr.


    Útgefanda greiðslukorta skv. 4. gr. má, auk refsingar skv. 20. gr., svipta réttindum til greiðslukortastarfsemi með dómi.
     Gera má upptæk með dómi tæki eða gögn sem stórfelld brot á lögum þessum hafa verið framin með, svo og hagnað af broti, sbr. 69. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.

22. gr.


    Tilraun og hlutdeild í brotum á lögum þessum er refsiverð eftir því sem segir í III. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.

VII. KAFLI


Ýmis ákvæði.


23. gr.


    Ákvæði 8., 9., 11., 12., 13. og 14. gr. eru ófrávíkjanleg að því leyti sem slíkt er eigi til hagsbóta fyrir korthafa.
     Ákvæði 11., 12., 13. og 14. gr. eru ófrávíkjanleg að því leyti sem slíkt er eigi til hagsbóta fyrir greiðsluviðtakanda.

24. gr.


    Ráðherra er heimilt að kveða nánar á um framkvæmd og eftirlit með lögum þessum í reglugerð, þar á meðal að sérstakar reglur skuli gilda um skiptingu kostnaðar skv. 12. gr. laga þessara ef um er að ræða alþjóðlega greiðslukortastarfsemi. Hið sama gildir varðandi ákvæði V. kafla laga þessara.

25. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Ef greiðslukortastarfsemi hefur hafist fyrir gildistöku laga þessara skal kortaútgefandi uppfylla eftirfarandi ákvæði eigi síðar en innan þriggja mánaða frá gildistöku laganna:
    Afla starfsleyfis í samræmi við ákvæði 4. gr. laganna.
    Senda korthöfum upplýsingar skv. 1. mgr. 7. gr. laga þessara, svo og endurnýja samninga varðandi tryggingar kortaútgefenda gagnvart korthafa í samræmi við ákvæði 8. gr. laga þessara. Þó er heimilt þrátt fyrir ákvæði fyrri málsliðar að uppfylla skilyrði þessa töluliðar við næstu endurnýjun greiðslukortasamnings, en þó eigi síðar en innan 15 mánaða frá gildistöku laganna.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta um greiðslukortastarfsemi var lagt fyrst fyrir Alþingi á 113. löggjafarþingi en varð ekki útrætt og er nú endurflutt.
     Frumvarp þetta er samið af nefnd sem fjallað hefur á vegum viðskiptaráðuneytisins um starfsemi á fjármagnsmarkaði utan viðskiptabanka og sparisjóða. Í samningu frumvarpsins hafa eftirtaldir tekið þátt: Björn Friðfinnsson ráðuneytisstjóri, formaður, Tryggvi Axelsson deildarstjóri, Guðmundur G. Þórarinsson alþingismaður, Kjartan Jóhannsson alþingismaður, Sigurmar Albertsson hæstaréttarlögmaður, Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri, Eiríkur Guðnason aðstoðarbankastjóri, Þórður Ólafsson, forstöðumaður bankaeftirlits, og Sveinbjörn Hafliðason lögfræðingur.
     Við samningu frumvarpsins kynnti nefndin sér þær reglur sem settar hafa verið um greiðslukortaviðskipti í nágrannalöndunum, en einkum var höfð til hliðsjónar við gerð frumvarpsins dönsk löggjöf um greiðslukortastarfsemi.
     Frumvarpið hefur að undanförnu verið endurskoðað í viðskiptaráðuneytinu. Við endurskoðun frumvarpsins hefur verið tekið tillit til réttarþróunar í nágrannalöndunum á undanförnum árum.
     Talið er að notkun greiðslumiðlunar með greiðslukortum eigi uppruna sinn í Bandaríkjunum. Þegar upp úr aldamótum voru einstök hótel farin að gefa út greiðslukort til góðra viðskiptavina og árið 1951 hófu bandarískir bankar útgáfu bankagreiðslukorta. Fyrirtækið Diners' Club hóf árið 1949 greiðslumiðlun af því tagi sem nú er stunduð af sérhæfðum greiðslukortafyrirtækjum, en annað fyrirtæki, sem verið hefur í fararbroddi um útbreiðslu þessarar þjónustu, er fyrirtækið American Express sem hóf greiðslukortastarfsemi árið 1958. Síðan hafa fjölmörg fjármálafyrirtæki og bankastofnanir rutt sér til rúms á markaðnum fyrir þessa þjónustu og fer hún stöðugt vaxandi. Stærstu fyrirtækin eru í mörgum ríkjum, en hin alþjóðlega greiðslumiðlun, sem þau reka, er ein ástæðan fyrir vinsældum þjónustunnar.
     Innlend greiðslukortafyrirtæki hafa starfað hér á landi um áratug og hefur notkun greiðslukorta orðið mjög vinsæl meðal almennings. Samkvæmt upplýsingum Seðlabanka Íslands er talið að heildarfjárhæð þeirra viðskipta, sem greidd hafa verið með milligöngu greiðslukortafyrirtækja sem starfa hér á landi, hafi numið um það bil 20 milljörðum króna innan lands og 4 milljörðum króna erlendis á árinu 1988.
     Árið 1991 er heildarvelta innan lands 39,8 milljarðar og erlendis 7,6 milljarðar eins og fram kemur í Hagtölum mánaðarins sem útgefnar eru af Seðlabanka Íslands.
     Hér er um að ræða fyrirtækin Kreditkort hf. sem starfrækir greiðslumiðlun með notkun svokallaðra Eurocard-korta og VISA-Ísland sem starfrækir greiðslumiðlun með notkun svokallaðra VISA-korta. Bæði kortin eru alþjóðleg, þ.e. hægt er að nota þau bæði innan lands og utan og útgáfa kortanna fer fram í bankastofnunum sem eru aðilar að viðkomandi greiðslukortafyrirtæki. Loks hefur nýtt fyrirtæki Samkort hf. nýlega hafið starfsemi, en eingöngu á innlendum markaði, og gefur það út kort með sama nafni. Þá er nokkuð um það að íslenskir aðilar notfæri sér greiðslumiðlun erlendra fyrirtækja, svo sem American Express eða Diners' Club, og þá fyrst og fremst vegna viðskipta á erlendri grund. Bæði þessi fyrirtæki hafa hérlenda umboðsaðila, en greiðslur korthafa fara beint til skrifstofa fyrirtækjanna erlendis.
     Ef höfð er hliðsjón af þróun greiðslukortaþjónustu erlendis má búast við því að á næstu árum muni hún verða fjölbreyttari hér á landi. Fleiri fyrirtæki munu veita slíka þjónustu og fleiri tegundir af henni verða í boði. Má þar nefna svokölluð debet-kort sem kalla mætti innstæðukort, en þau eru notuð til þess að framkvæma með sérstökum búnaði tafarlausa millifærslu af bankareikningi korthafa yfir á bankareikning þess sem við greiðslu tekur. Er notkun bankakorta til þess að taka út fjármuni í sjálfvirkum afgreiðsluvélum bankastofnana væntanlega fyrsti vísirinn að notkun innstæðukorta hér á landi. Þá má nefna neyslulánskort þar sem korthafa er heimilaður fastur yfirdráttur hjá greiðslumiðlunarfyrirtæki og loks má nefna reikningskort stórverslana sem veita heimild til vöruúttektar í viðkomandi verslun að ákveðnu marki og greiðslu úttektarinnar eftir á með sérstökum skilmálum.
     Greiðslumiðlun af því tagi, sem hér er fjallað um, hefur í för með sér ýmiss konar hagkvæmni fyrir notendur, jafnt viðskiptavini og þá sem þjónustuna láta í té. Hins vegar er talsverður kostnaður henni samfara og jafnframt hafa þróast hér á landi venjur varðandi notkun og skilmála greiðslukorta sem eru frábrugðnar því sem gengur og gerist í nágrannalöndunum. Þannig er greiðslumiðlun kortafyrirtækja óalgeng í matvöruverslunum erlendis, en hér er hún um 40% af veltu fyrirtækjanna. Þá gera greiðslukortafyrirtækin kröfur um tryggingar korthafa sem eru frábrugðnar því sem tíðkast í nágrannalöndunum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Hér er kveðið á um að lög þessi taki til greiðslumiðlunar hér á landi, þ.e. sem fram fer í íslenskri lögsögu með útgáfu og notkun greiðslukorta, svo og annarrar sambærilegrar greiðslumiðlunar. Með sambærilegri greiðslumiðlun er átt við þau afbrigði greiðslumiðlunar sem að framan greinir, svo sem með debet-kortum, lánskortum, reikningskortum og úttektarkortum ýmiss konar, svo og nýjar tegundir greiðslumiðlunar sem kunna að vera boðnar á íslenskum markaði og sem eru greinar af sama meiði og sú þjónusta sem þegar er fyrir hendi. Lögin taka einnig til lögskipta innlendra korthafa og kortaútgefanda vegna úttekta korthafans erlendis sem koma til greiðslu hér á landi.

     Ýmsum ákvæðum þessa frumvarps, ef að lögum verður, yrði væntanlega unnt að beita með lögjöfnun gagnvart frekari þróun sem kann að verða á sviði greiðslumiðlunar.

Um 2. gr.


    Í þessari grein er að finna skilgreiningar á hugtökum. Með greiðslukortastarfsemi er átt við greiðslumiðlun sem byggir á notkun greiðslukorta eins og það hugtak er skýrt hér á eftir. Greiðslukortastarfsemi í skilningi frumvarpsins er áður nefnd greiðslumiðlun í víðtækasta skilningi, sbr. almennu athugasemdirnar hér á undan. Greiðslukortastarfsemi telst vera fyrir hendi ef kortaútgefandi hefur tekið að sér greiðslumiðlun sem byggist á framvísun sérstakra greiðslukorta og jafnframt gert um það sérstaka samninga við korthafa og greiðsluviðtakanda. Sú starfsemi, sem hér er rætt um, tekur því til núverandi starfsemi íslenskra greiðslukortafyrirtækja sem talin eru hér að framan, svo og til nýrra greina greiðslumiðlunar, sbr. athugasemdir við 1. gr.
     Greiðslukort merkir samkvæmt greininni öll þau skilríki í formi korta, venjulega gerðum úr plasti, sem veita korthafa rétt til að njóta greiðslumiðlunar kortaútgefanda þannig að greiðsla fyrir veitta þjónustu, selda vöru eða önnur verðmæti er reikningsfærð honum til skuldar hjá kortaúgefandanum. Bankakort, sem einungis veita rétt til úttektar á innstæðu korthafa hjá innlánsstofnun, falla ekki undir skilgreiningu þessa ákvæðis nema þau séu notuð til þess að skrá beina millifærslu milli reiknings korthafa og reiknings greiðsluviðtakanda með sérstökum búnaði í verslun eða þjónustustofnun. Slíkur búnaður er sums staðar notaður erlendis og nefnast kortin þá debet-kort, en greiðslukerfið er einkennt með ensku skammstöfuninni EFTPOS (Electronic Fund Transfer at Point of Sale) sem merkir tölvuvædda millifærslu fjármuna á sölustað. Hugtakið greiðslukort er hér notað á sama hátt og enska hugtakið „card“, eða kort, en það greinist síðan í ýmis afbrigði, svo sem debet-kort, lánskort o.s.frv.
     Kortaútgefandi merkir útgefanda greiðslukortsins sem skráður hefur verið sem slíkur, sbr. II. kafla frumvarpsins. Ekki er nauðsynlegt samkvæmt skilgreiningunni að kortaútgefandi sé annar aðili en greiðsluviðtakandi, sbr. skilgreiningu á því hugtaki hér á eftir. Stórverslanir eða verslanakeðjur geta t.d. gefið út greiðslukort til viðskiptavina sinna vegna viðskipta sem þeir í því tilviki eiga við kortaútgefandann sjálfan sem þá er jafnframt greiðsluviðtakandi.
     Í frumvarpinu merkir greiðsluviðtakandi þann aðila sem ber réttur til greiðslu samkvæmt greiðslunótu þar sem fram kemur nafn korthafa og nafn þess sem greiðsla er innt af hendi við með framvísun greiðslukorts, svo og heiti greiðslumiðlunar kortaútgefanda. Á dönsku nefnist greiðsluviðtakandi „betalingsmodtager“ sem einnig mætti þýða á íslensku sem greiðslumóttakandi eða greiðslutaki. Að höfðu samráði við formann Íslenskrar málnefndar varð að ráði að þýða orðið með íslenska orðinu greiðsluviðtakandi. Greiðsluviðtakandi getur verið seljandi vöru, þjónustu eða annarra verðmæta eða sá sem hann hefur framselt rétt sinn til greiðslu. Greiðsluviðtakandi getur einnig verið kortaútgefandi sjálfur, sbr. það sem að framan er sagt um það hugtak.
     Korthafi merkir samkvæmt frumvarpinu þann aðila sem gert hefur samning við kortaútgefanda um aðgang að greiðslumiðlun hans með framvísun greiðslukorts sem látið er í té samkvæmt samningi þar um. Getur sú greiðslumiðlun náð til viðskipta jafnt innan lands sem erlendis og jafnt til korthafa og ábyrgðaraðila sem tekið hafa á sig ábyrgð á skilvísum greiðslum frá korthafa samkvæmt skilmálum sem um útgáfu kortsins gilda, svo sem ef um fyrirtækjakort eða aukakort til fjölskyldueinstaklinga er að ræða.

Um 3. gr.


    Lagt er til að kortaútgefendur, sem starfa samkvæmt lögum þessum, hafi skráð firma hér á landi. Með því er átt við að þau fyrirtæki, sem stunda greiðslukortastarfsemi, skuli hafa skráð starfsemi sína hér á landi í firma- eða hlutafélagaskrá eftir því sem við á. Útibú erlendra félaga skulu samkvæmt ákvæði þessu skráð hér á landi í samræmi við ákvæði XVII. kafla laga nr. 32/1978, um hlutafélög, eða hafa hér skráðan umboðsaðila.
     Meginþýðing þessa ákvæðis er að með því er lögð til sú meginregla að varnarþing vegna hugsanlegra dómsmála gagnvart kortaútgefanda er ætíð hér á landi. Hliðstætt ákvæði er að finna í dönskum lögum um greiðslukort.
     Í greininni er þó ráðherra veitt heimild til að veita undanþágur frá fyrrgreindri aðalreglu þessarar greinar og yrðu slíkar undanþágur einkum veittar ef t.d. alþjóðasamningar veittu innlendum aðilum gagnkvæman rétt og um ræðir í þessari grein.

Um 4. gr.


    Hér er kveðið á um skyldu útgefenda á greiðslukortum að afla sér rekstrarleyfis viðskiptaráðherra áður en starfsemi þeirra hefst. Í ákvæði til bráðabirgða er kveðið á um skyldu þeirra fyrirtækja sem þegar hafa tekið til starfa við gildistöku laga þessara, ef að lögum verður, til að afla sér starfsleyfis ráðherra. Jafnframt er í greininni kveðið á um helstu atriði sem í umsókn skuli greina. Þá er lagt til að bankaeftirliti Seðlabanka Íslands skuli tilkynnt um breytingar á áður tilkynntum atriðum. Væntanlega verða útbúin sérstök eyðublöð í þessu skyni. Gert er ráð fyrir því að hjá bankaeftirlitinu liggi framvegis ávallt fyrir upplýsingar varðandi þá kortaútgefendur sem reka greiðslukortastarfsemi hverju sinni.
     Í 1. tölul. er áskilið að samþykktir skuli fylgja tilkynningu kortaútgefanda. Með því er átt við að gerð skuli grein fyrir innra skipulagi starfseminnar og er þá átt við að fram skuli koma í hvaða félagsformi starfsemin er rekin, svo og hvort og þá á hvern hátt greiðslukortastarfsemi tengist annarri starfsemi kortaútgefanda.
     Með ákvæði 2. tölul. er ætlunin fyrst og fremst sú að tilkynnt sé um helstu grundvallarþætti starfseminnar. Til slíkra þátta má t.d. telja hvernig öryggiskröfum sé fullnægt, svo sem hvernig bilanir í beinlínukerfi komi fram gagnvart kortaútgefanda og hvernig þær skuli leiðréttar og hvort kerfið sé lokað öðrum en korthöfum. Ákvæðinu er hins vegar ekki ætlað að taka til nákvæmrar lýsingar á tæknilegum atriðum, t.d. varðandi þær vélar sem notaðar eru við starfsemina.
     Í 3. tölul. er kveðið á um skyldu kortaútgefanda að láta fylgja tilkynningu eintak af þeim upplýsingum sem kortaútgefandi afhendir korthafa, sbr. 7. gr. frumvarpsins.
     4. tölul. þessarar greinar tekur m.a. til þess að kortaútgefandi gefi upplýsingar um þá viðskiptaskilmála sem gilda gagnvart greiðsluviðtakanda, svo og um réttarsamband greiðsluviðtakanda og kortaútgefanda að öðru leyti. Ákvæðið tekur því til upplýsingaskyldu um það hvaða réttindi samningur um greiðslumiðlun kortaútgefanda skapi greiðsluviðtakendum almennt.
     Í 3. mgr. er lagt til að tilkynntar skuli breytingar á áður tilkynntum atriðum áður en þær komi til framkvæmda og er bankaeftirlitinu þannig gert kleift að fylgjast nánar með þróun starfseminnar.
     Í 4. mgr. er lagt til að bankaeftirlitið skuli halda skrá yfir þá aðila sem tilkynna að þeir hafi með höndum greiðslukortastarfsemi samkvæmt frumvarpi þessu.
     Í fyrsta lagi er stefnt að því með ákvæði 3. mgr. að haldin sé skrá yfir kortaútgefendur sem opin er almenningi. Þess ber að geta að ýmsar þær upplýsingar, sem lagt er til að kortaútgefandi tilkynni, sbr. 4. gr. frumvarpsins, kunna að vera þess eðlis að ekki þyki réttmætt að þær skuli felldar inn í slíka opinbera skrá þótt fyllilega sé réttmætt að stjórnvöld fái upplýsingar um þau atriði. Erfitt er að meta nákvæmlega í eitt skipti fyrir öll um mörk í þessu sambandi, en unnt er að kveða nánar á um skráninguna í reglugerð.
     Í öðru lagi er ljóst af 3. mgr., sbr. jafnframt 1. mgr. þessarar greinar, við hvaða tímamark skal miða að starfsemi kortaútgefanda geti hafist. Útgáfa ráðherra á starfsleyfi til kortaútgefanda eftir athugun hvort fullnægt hafi verið ákvæðum þessa frumvarps og þeim skilyrðum sem sett eru fyrir útgáfu starfsleyfis, sbr. ákvæði laga þessara og reglna sem settar verða samkvæmt þeim, er því nauðsynleg til þess að starfsemi geti hafist. Uppfylli aðili þau skilyrði sem hér eru sett og önnur skilyrði sem sett kunna að vera í löggjöfinni, t.d. varðandi skráningu firma eða hlutafélags, sbr. 3. gr. frumvarpsins, skal litið svo á að viðkomandi aðili eigi rétt til þess að stunda þá starfsemi sem frumvarp þetta tekur til og er því ekki um að ræða að stjórnvald sé í þeirri aðstöðu að veita „leyfi“ til starfseminnar. Aðstaðan er öllu heldur sú að aðili, sem uppfyllt hefur öll þau skilyrði sem þörf er á samkvæmt lögum, skal eiga rétt á skráningu innan eðlilegs frests eftir að hann hefur uppfyllt öll skilyrði laganna.
     Brjóti þeir aðilar, sem leyfi hafa fengið til að stunda greiðslukortastarfsemi, ítrekað þau lög og fyrirmæli sem um starfsemina gilda er ráðherra fengin heimild í 19. gr. frumvarpsins til þess að afturkalla til bráðabirgða áður útgefið starfsleyfi til kortaútgefanda til þess að stunda greiðslukortastarfsemi. Afleiðing þess yrði sú að viðkomandi kortaútgefandi missti rétt til að stunda greiðslukortastarfsemi. Um afleiðingar þess að kortaútgefandi hlítir ekki þeim lögum og fyrirmælum, sem um starfsemina gilda, vísast að öðru leyti til 19. gr. frumvarpsins, svo og ákvæða VII. kafla frumvarpsins í heild sinni.
     Í 5. mgr. er kveðið svo á að viðskiptabönkum og sparisjóðum skuli einum heimilt að stunda greiðslumiðlun með greiðslukortum sem byggja á beinni millifærslu af innlánsreikningi korthafa. Greiðslukort af þessu tagi hafa verið nefnd debet-kort og hafa rutt sér til rúms á undanförnum árum víða erlendis. Rétt þykir að einkaréttur á þessum tegundum korta haldist hjá innlánsstofnunum sem einar hafa rétt á að taka við innlánum frá almenningi, sbr. 26. gr. laga nr. 85/1986, um viðskiptabanka, og 30. gr. laga nr. 87/1985, um sparisjóði. Gera má ráð fyrir að innlendir bankar og sparisjóðir muni á næstu árum gefa út slík kort. Debet-kort munu væntanlega leysa af hólmi að verulegu leyti ávísanir á viðskiptabanka og sparisjóði. Enn fremur má reikna með að notkun debet-korta í stað ávísana muni hafa í för með sér verulegan sparnað fyrir innlánsstofnanir, jafnvel þjóðfélagið í heild, að því leyti sem bein millifærsla með debet-korti af innlánsreikningi er mun öruggari heldur en ávísanakerfi eins og nú tíðkast hjá innlánsstofnunum.
     Í 6. mgr. er lagt til að heimilt verði að kveða nánar á um hvernig að framkvæmd laganna skuli staðið með reglugerð er ráðherra setur.

Um 5. gr.


    Í þessari grein er lagt til að bankaeftirlit Seðlabanka Íslands annist eftirlit með greiðslukortastarfsemi. Almennt má segja að eftirlit með greiðslumiðlun og starfsemi lánastofnana hefur verið falið bankaeftirlitinu, sbr. ákvæði um eftirlit um starfsemi innlánsstofnana, svo og eftirlit með starfsemi eignarleigufyrirtækja. Greiðslukortastarfsemi er þegar orðin hluti af starfsemi innlánsstofnana, þó svo að einnig séu velþekkt dæmi um að slík greiðslumiðlun sé rekin sem sjálfstæð starfsemi óháð rekstri innlánsstofnunar. Rétt þykir að fela bankaeftirlitinu að fylgjast með greiðslumiðlun af því tagi sem þetta frumvarp fjallar um. Til hliðsjónar skal þó skoða ákvæði 6. gr. þessa frumvarps um eftirlitsþátt Verðlagsstofnunar.
     Í 1. mgr. er byggt á því að við notkun greiðslukorta í greiðslukortastarfsemi sé gætt fullnægjandi öryggis tæknilega séð. Við ákvörðun á því hvort starfsemi kunni að einhverju leyti að vera áfátt skal m.a. litið til þess hvort miðlunin í heild sé nægilega örugg og búnaður, sem kann að vera notaður við miðlunina, sé fullnægjandi, hvort ætla megi að litlar líkur séu á misnotkun kerfisins, hvort bilanir komi nægilega fljótt fram þannig að ekki sé hætta á verulegu tjóni af þeim sökum o.s.frv.
     Í 2. mgr. er að finna ákvæði er þykir nauðsynlegt til þess að tryggja að bankaeftirlitið hafi aðgang að þeim gögnum er það telur sig þurfa til að framfylgja ákvæðum þessa frumvarps um eftirlit o.fl.

Um 6. gr.


    Í þessari grein er eftirlit með því að greiðslukortastarfsemi sé rekin í samræmi við sanngjarna viðskiptahætti falið Verðlagsstofnun og verðlagsráði sem starfa samkvæmt lögum nr. 56/1978. Í Danmörku hefur samsvarandi hlutverk vegna laga um greiðslukort verið falið sérstöku embætti sem nefnist „forbrugerombudsmand“. Nefnd sú, er samdi frumvarp þetta, taldi rétt og jafnframt hagkvæmast að fela Verðlagsstofnun framkvæmd laganna að þessu leyti ef frumvarp þetta verður að lögum. Sú niðurstaða byggir m.a. á því að mörg ákvæða þessa frumvarps eru fyrst og fremst byggð á sjónarmiðum neytendaverndar, en Verðlagsstofnun hefur nú um nokkurt skeið haft vaxandi afskipti af þeim málaflokki. Eðlilegast þótti því að fela stofnuninni framkvæmd með ákvæðum þessara mála. Sumir þættir í greiðslukortastarfsemi eiga sér þó stað hjá innlánsstofnunum, en eftirlit að því leyti mun fara fram af hálfu bankaeftirlitsins í samræmi við lög um viðskiptabanka, nr. 86/1985, og um sparisjóði, nr. 87/1985, sbr. einnig lög nr. 36/1986, um Seðlabanka Íslands.
     Í 1. og 2. tölul. 2. mgr. er eftirlitshlutverk Verðlagsstofnunar með ákvæðum þessa frumvarps afmarkað nánar og jafnframt koma til athugunar þær almennu reglur sem þeirri stofnun eru settar varðandi starfsemi sína og heimildir þeirrar stofnunar til eftirlits með þeim sem lögin taka til, sbr. nánar um þetta í lögum nr. 56/1978.
     Þegar rætt er um að starfsemi skuli ekki vera í andstöðu við sanngjarna viðskiptahætti þá er m.a. átt við:
—    að viðskiptamanni kortaútgefanda eigi að vera unnt að sjá helstu kosti og galla sem greiðslumiðlun kortaútgefanda fylgja,
—    að viðskiptamaður kortaútgefanda sé ekki þvingaður á neinn hátt til þess að taka þátt í greiðslumiðluninni, t.d. af því að eingöngu þannig megi inna tilteknar greiðslur af hendi,
—     að lagt sé til grundvallar að meðferð upplýsinga, sem kortaútgefandi hefur komist yfir vegna notkunar greiðslukorts, sé að öllu leyti innan þeirra marka sem teljast verður eðlileg og í tengslum við sjálfa greiðslumiðlunina eða leiðréttingar vegna hennar, sbr. jafnframt ákvæði V. kafla frumvarpsins,
—     að starfsemin sé að öðru leyti rekin í samræmi við lög þau og reglugerðir sem um starfsemina gilda.
     Í 1. tölul. 2. mgr. er fjallað annars vegar um samband korthafa og kortaútgefanda og hins vegar um samband greiðsluviðtakanda og korthafa. Verðlagsstofnun hefur þannig rétt til þess að gera athugasemdir við tilkynnta skilmála, svo og við það hvernig þeim skilmálum er í raun beitt. Miðað er við það að afskipti skuli höfð ef ljóst þykir að skilmálum er beitt einvörðungu til hagsbóta kortaútgefanda eða greiðsluviðtakanda eða þeir eru á annan hátt óréttmætir. Við ákvörðun á því hvort sú aðstaða er fyrir hendi sem hér er rætt um má t.d. nefna að taka verður tillit til þess hvort samningsaðili hafi notfært sér stöðu sína og þannig orðið þess valdandi að gengið sé á rétt gagnaðila og verulegt misræmi komi fram varðandi þær skyldur og réttindi er samningurinn leggur á hvorn aðila. Þetta á einkum við þegar notaðir eru staðlaðir samningsskilmálar við samningsgerðina sem eru bersýnilega ósanngjarnir í garð annars aðilans eða telja má að sérstakur aðstöðumunur sé milli aðila við samningsgerð að öðru leyti.
     Í 2. tölul. 2. mgr. er rætt um samband kortaútgefanda og greiðsluviðtakanda. Með sama hætti og hér á undan hefur verið nefnt kann sú aðstaða er ákvæðið nefnir að vera fyrir hendi, t.d. við notkun staðlaðra samningsskilmála. Til leiðbeiningar við túlkun þessa ákvæðis má taka sem dæmi að kortaútgefandi noti þá stöðu sína, sem hér á undan hefur verið nefnd, til þess að knýja fram sérstaklega hagstæð samningskjör, svo sem með því að undanþiggja sig skyldum eða auka við skyldur gagnaðila þannig að telja verði það óréttmætt að beita samningi fyrir sig eins og atvikum er háttað. Þá skal einnig minnt á ákvæði II. og VI. kafla frumvarpsins varðandi úrræði þau sem fyrir hendi eru í tilefni af brotum á ákvæðum laganna.
     Í 6. gr. er loks að finna úrræði til handa Verðlagsstofnun ef tilmæli og ákvarðanir stofnunarinnar eru brotin. Í frumvarpi þessu er einnig að finna málskotsheimild til ráðherra og dómstóla, sbr. 18. gr. frumvarpsins.

Um 7. gr.


    Með ákvæðum þessarar greinar er kortaútgefanda gert skylt að upplýsa væntanlega korthafa, svo og aðra viðskiptamenn sína, um helstu skilmála við notkun greiðslukortsins. Þannig getur væntanlegur korthafi kynnt sér kosti og galla slíkra samninga sem á boðstólum eru hjá hinum ýmsu kortaútgefendum.
     Í 1. tölul. er kveðið á um skyldu til að upplýsa hvaða notkunarheimildir tengjast mismunandi gerðum greiðslukorta. Í því sambandi má nefna að rétt er að upplýsa hvort nota megi fleiri en eitt kort á sama reikning og hvort fleiri en einn korthafi geti notað tiltekinn reikning hjá kortaútgefanda, svo og hvar nota megi greiðslukortið. Jafnframt bæri kortaútgefanda að tilgreina þær takmarkanir sem notkun greiðslukortsins eru settar, úttektarheimildir, tímabil þeirra o.s.frv.
     Í 2. tölul. er gert ráð fyrir að upplýst sé um þau skilyrði sem handhöfn greiðlukortsins eru tengdar, t.d. hvernig ábyrgð korthafa er háttað ef greiðslukortið týnist eða það kemst á annan hátt í hendur þriðja manni. Sérstaklega þýðingarmikið er í því sambandi að gera glögga grein fyrir að hvaða leyti slík samningsákvæði séu íþyngjandi fyrir korthafa. Enn fremur væri skylt að taka fram hvernig tilkynningarskyldu skuli háttað ef greiðslukort týnist eða því er stolið o.s.frv. Samningsskilmálar verða að vera í samræmi við ákvæði IV. kafla frumvarpsins eða aðrar þær reglur sem í gildi eru.
     Auk þess sem hér að framan hefur verið nefnt má telja að kortaútgefanda beri samkvæmt greininni að veita upplýsingar um með hvaða hætti korthafi skuli koma á framfæri kvörtunum vegna notkunar greiðslukortsins.
     Í 3. tölul. er lagt til að upplýsingar liggi frammi um heildarkostnað sem tengdur er notkun greiðslukortsins. Kostnaður vegna greiðslukorta kann að verða greindur í ýmsa þætti, svo sem stofngjald, fast árgjald eða endurnýjunargjald, vexti ef um þá er að ræða og annan kostnað tengdan notkun á greiðslumiðluninni. Með ákvæðinu er ekki girt fyrir að kortaútgefandi geti krafist breytilegra vaxta að því tilskildu að sú viðmiðun, sem farið er eftir samkvæmt samningnum, sé fyrir fram ákveðin, t.d. sem meðaltal vaxta samkvæmt auglýsingu Seðlabanka Íslands eða vextir eins og þeir eru hjá tilgreindri innlánsstofnun af tilteknum viðskiptum á hverjum tíma. Þá tekur upplýsingaskylda samkvæmt ákvæði þessu ekki til þess kostnaðar sem kann að falla á korthafa vegna vanefnda hans á samningi sínum við kortaútgefanda.
     Í frumvarpi þessu er ekki gert ráð fyrir að kortafyrirtæki þurfi að setja fram kostnað við lántöku sem ákveðinn hundraðshluta (prósentu) á ársgrundvelli. Hins vegar er verið að undirbúa á vegum viðskiptaráðuneytisins drög að frumvarpi til laga um upplýsingaskyldu í lánsviðskiptum.
     Við gerð þess frumvarps er höfð hliðsjón af tilskipunum Evrópubandalagsins um þetta efni, sbr. tilskipun 87/102/EBE og sbr. tilskipun 90/88/EBE. Ákvæði þess frumvarps mun væntanlega taka einnig til greiðslukortastarfsemi að svo miklu leyti sem þar væri stunduð lánastarfsemi í sambandi við greiðslumiðlun með greiðslukorti (kredit-korti).
     Í 4. tölul. kemur fram að greina skuli frá hversu oft korthafi skuli fá reikningsyfirlit vegna úttekta á greiðslukortinu, enda þýðingarmikið að slíkum upplýsingum sé miðlað eins fljótt og unnt er til korthafa.
     Í 5. og 6. tölul. er gert ráð fyrir að væntanlegum korthöfum sé gert skylt að leggja fram persónulegar upplýsingar áður en útgáfa greiðslukorts fer fram. Þær upplýsingar, sem hér er gert ráð fyrir, munu því leggja grundvöll að mati viðkomandi kortaútgefanda á lánstrausti hvers umsækjanda um sig. Hér er um að ræða upplýsingar eins og t.d. hvort umsækjandi sé í föstu starfi, hverjar séu mánaðartekjur hans o.s.frv.
     Samkvæmt 7. tölul. er skylt að skýra frá með hvaða hætti upplýsingar, sem snerta korthafa, verði notaðar síðar vegna greiðslukortastarfseminnar, þ.e. innan fyrirtækisins sjálfs svo og utan þess. Þannig mundi t.d. vera skylt að geta þess ef upplýsingar í heild eða að hluta skulu samkvæmt lagaskyldu afhentar opinberum aðilum. Jafnframt er skylt að tilgreina hversu lengi hinar skráðu upplýsingar verða varðveittar, sbr. 16. gr. frumvarpsins.
     Í 8. tölul. er að finna ákvæði sem auðvelda á korthafa að dæma um það hvort gerðar séu virkar ráðstafanir af hálfu kortaútgefanda til þess að auðvelda tilkynningar er kort tapast eða glatast á annan hátt. Hið sama á við um þegar korthafi þarf að tilkynna að hætta sé á að þriðji maður hafi fengið vitneskju um einkaleyninúmer hans og geti notað það á ólögmætan hátt. Hér er orðið einkaleyninúmer notað yfir það sem á ensku nefnist PIN (Personal Identification Number). Í greiðslumiðlun greiðslukortafyrirtækja, svo og innlánsstofnana, hefur nú um nokkurt skeið tíðkast að úthluta viðskiptavinum slíkum einkaleyninúmerum til að auka öryggi í meðferð korta sem fyrirtækin gefa út og nota á til greiðslumiðlunar.
     Í 2. mgr. er lagt til að umsækjandi um greiðslukort fái þær upplýsingar sem um getur í 1. mgr. áður en hann hefur skuldbundið sig með samningi gagnvart kortaútgefanda. Af ákvæðinu leiðir að ef breytingar verða á skilmálum kortaútgefanda verður að stofna til nýs samnings í heild eða eftir atvikum að hluta.
     Í 3. mgr. er ráðherra veitt heimild til setningar reglugerðar um þau atriði er greinin tekur til og þá væntanlega einnig um atriði tengd 3. tölul. 1. mgr., sbr. jafnframt 12. gr. frumvarpsins.

Um 8. gr.


    Í 1. mgr. eru staðfestar þær meginreglur sem telja verður eðlilegt að byggt sé á varðandi útgáfu greiðslukorta og veitingu lánsheimilda í því sambandi. Sérstaða greiðslukorta er sú að þau eru einkum notuð við greiðslur einstaklinga vegna einkaneyslu. Í starfsemi greiðslukortaútgefanda hefur jafnframt fram til þessa tíðkast að veita korthöfum tilteknar lánsheimildir út á samning þeirra um greiðslukort. Nefndin, sem frumvarpið samdi, telur með hliðsjón af því eðli greiðslukortastarfseminnar að hún sé fyrst og fremst miðill til greiðslu og fjármögnunar einkaneyslu að eðlilegt sé að setja í lög þá almennu viðskiptareglu sem hér er gerð tillaga um. Rétt þykir að til grundvallar samningi um greiðslukort liggi einstaklingsbundið mat á hverjum umsækjanda um greiðslukort, viðskiptatrausti hans og fjárhagsstöðu að öðru leyti. Til skoðunar í því sambandi hlýtur því að koma af hálfu kortaútgefanda hvort umsækjandi hafi reglulegar tekjur og hvort greiðslugeta sé yfirleitt fyrir hendi á þeirri úttektarheimild sem samningur hans og kortaútgefanda gerir ráð fyrir. Lagt er því til að aðalreglan við veitingu greiðslukorta verði sú að til grundvallar samningi um greiðslukort sé byggt á viðskiptatrausti umsækjanda um greiðslukort, en eigi annarra, og telur nefndin að regla þessi stuðli almennt að auknu öryggi í viðskiptum. Erlendis tíðkast þeir viðskiptahættir sem hér er lagt til að gildi varðandi þetta atriði og þykir greiðslukortið því nokkurt skilríki um lánstraust viðkomandi korthafa ef um er að ræða greiðslukort sem veitir korthafa rétt til yfirdráttar eða lántöku.
     Í 2. mgr. er þó lagt til að kortaútgefanda skuli vera heimilt að víkja frá þeirri meginreglu sem lögð hefur verið til í 1. mgr. þessarar greinar. Eins og fram kemur af ákvæðum greinarinnar telur nefndin að sú aðstaða, sem vikið er að í 2. mgr., eigi að vera undantekning frá þeirri aðalreglu sem í 1. mgr. greinir. Telja verður að kortaútgefanda sé almennt eigi þörf að krefja aðra en korthafa um tryggingu fyrir úttektum á greiðslukorti því er hann gefur út til korthafa, en þó kunni að finnast undantekningar frá þeirri reglu. Þannig kann umsækjanda um greiðslukort t.d. að vera sérstakur hagur af því að fá útgefið sér til handa greiðslukort, enda greiðslumiðillinn orðinn almennur greiðslumáti í viðskiptum þótt hann fullnægi ekki persónulega settum skilyrðum kortaútgefanda um ábyrgðir vegna notkunar greiðslukortsins.
     Í viðskiptum kortaútgefanda og korthafa myndast smám saman viðskiptatraust sem byggt er á reynslu kortaútgefanda á skilvísi korthafans. Hér verður einnig að gera greinarmun á því hvort verið er að ræða um svonefnt debet-kort eða kredit-kort. Í fyrrnefnda tilvikinu er sem fyrr segir um að ræða ávísun út af innstæðureikningi, en í hinu síðarnefnda þá tengist lánveiting notkunarheimild kortsins. Útgáfa greiðslukorts byggir því ávallt á viðskiptatrausti korthafa. Kortaútgefendur setja í starfsemi sinni nauðsynlega skilmála til að tryggja að þeir sem ekki njóta slíks trausts vegna fyrri viðskipta sinna, eða hafi með öðrum hætti ekki nægilegt lánstraust, setji þær lágmarksábyrgðir sem nauðsynlegar eru til þess að gefa megi út greiðslukort á nafn viðkomandi umsækjanda. Hér mun væntanlega kortaútgefandi taka tillit til upphæðar þeirrar úttektarheimildar sem hann veitir viðkomandi umsækjanda og fleiri atriða sem máli kunna að skipta í þessu sambandi. Þau undantekningartilvik, sem hér er rætt um, er ekki unnt að telja upp á tæmandi hátt og verður að líta svo á að þau mótist af þeirri framkvæmd sem eðlilegir og sanngjarnir viðskiptahættir mæla fyrir um hverju sinni. Nauðsynlegt þykir því að heimila undantekningu frá þeirri aðalreglu sem hér á undan var vikið að og er því lögð til sú undantekningarregla sem í 2. mgr. greinir.
     Nefndin hefur einnig orðið sammála um að alveg skýrt sé kveðið á um það í frumvarpi þessu að þriðji maður, sem þannig hefur í þeim undantekningartilvikum, sem hér er rætt um, gengið í ábyrgð fyrir úttektum korthafa, geti afturkallað áður veitta ábyrgð sína ef forsendur fyrir henni bresta að hans mati. Ýmis tilvik geta orðið þess valdandi að ábyrgðarmaður kann að vilja draga ábyrgð sína til baka. Gerbreytist aðstæður þá vill hann eigi lengur vera bundinn af ábyrgð sinni. Má t.d. nefna að sambúðarslit geta valdið því að forsendur ábyrgðarmanns bresta þar eð ábyrgð var við áframhaldandi sambúð miðuð. Korthafi kann einnig að leggjast í óreglu og stunda eigi lengur fasta atvinnu o.s.frv. Rétt þykir því að heimila að ábyrgðarmaður sé frjáls að afturköllun áður veittrar ábyrgðar og verður þá kortaútgefandi að innkalla greiðslukortið. Þetta kann og að leiða til aukins öryggis, enda má ætla að ábyrgðarmaður þekki vel til korthafa og verði því oft fyrstur þess áskynja ef breytingar verða á aðstæðum korthafa sem áhrif geta haft á viðskiptatraust hans. Kortaútgefandi fær þá fyrr en ella tækifæri til að gera ráðstafanir til þess að innkalla kortið, en korthafi getur þá að sjálfsögðu einnig lagt fram aðrar ábyrgðir fyrir úttektum sínum sem fullnægjandi geta talist að mati kortaútgefanda.
     Áhrif afturköllunar ábyrgðarmanns korthafa eru þau að um kortið fer sem það væri vákort og koma því reglur IV. kafla til skoðunar vegna hugsanlegs tjóns og eftirfarandi greiðslu skaðabóta af því tilefni.

Um 9. gr.


    Brot gegn 1. mgr. 9. gr. geta varðað refsingu skv. 20. gr. frumvarpsins.
     Í 2. mgr. 9. gr. er lagt til að tryggt verði að umsækjendum um greiðslukort beri réttur til þess að fá upplýst hvaða persónulegar upplýsingar liggja til grundvallar synjunar kortaútgefanda ef umsækjanda er synjað um greiðslukort á þeim forsendum. Umsækjandi getur fremur með því móti kannað hvort þær upplýsingar séu réttar og eftir atvikum þá komið að leiðréttingum ef þær reynast ekki réttar.

Um 10. gr.


    Hér er lagt til að almennt skuli korthafar eiga rétt á afhendingu kvittunar fyrir þær greiðslur sem þeir inna af hendi með greiðslukorti. Þegar rætt er um kvittun er átt við að á henni séu upplýsingar um fjárhæð þá sem greitt er, dagsetningu og greiðslustað, auk hinna sérstöku tilgreininga sem þörf er á vegna notkunar kortsins, svo sem undirskrift korthafa eða upplýsingar um reikningsnúmer hans o.s.frv.
     Í 2. mgr. er lagt til að ráðherra geti við sérstakar kringumstæður undanþegið greiðslukortaviðskipti frá þessu ákvæði. Væntanlega yrði heimildinni beitt um tilvik þar sem fullvíst væri að yfirsýn korthafa verði ekki lakari en fengi hann kvittun að hætti 1. mgr. eða augljós hagkvæmnisrök þykja mæla með því, t.d. pöntun og kaup leikhúsmiða, o.s.frv.

Um 11. gr.


    Korthafi getur samkvæmt greininni sagt upp almennum samningi um greiðslukort án fyrirvara og getur kortaútgefandi ekki takmarkað þann rétt korthafa. Almennar reglur kröfuréttarins segja hins vegar til um hvenær korthafi telst laus úr allri ábyrgð vegna úttekta sinna með hliðsjón af því hvenær og með hvaða hætti uppsögnin tekur gildi.
     Heimilt er þó að semja um skuldbindingar fram í tímann, svo sem með ýmiss konar raðgreiðslusamningum, og verður þá korthafi skuldbundinn samkvæmt slíkum samningi þar til samningurinn er að fullu efndur.

Um 12. gr.


A. Dönsk löggjöf.


    Í dönsku greiðslukortalögunum (Lov om betalingskort m.v.) segir í 20. gr.: „Kortudsteders omkostninger ved drift af betalingssystemet kan ikke paalægges betalingsmodtager. Gebyr for kortindehavers brug af betalingskort skal fastsættes uafhængigt af betalingsmodtagers forhold.“
     Samkvæmt þessu skal rekstrarkostnaður af greiðslumiðluninni ekki lagður á greiðsluviðtakanda heldur á korthafa. Tilgangurinn með ákvæðinu er að tryggja að greiðslumiðlunin valdi ekki kostnaðarauka hjá verslunum og fyrirtækjum sem taka við greiðslu með reikningsfærslu gegn framvísun greiðslukorts þar eð það veldur því að kostnaðaraukinn hlýtur að koma fram í hærra vöruverði. Með rekstrarkostnaði er átt við stjórnunarkostnað, tölvukostnað, húsaleigu, skrifstofuhald, launakostnað, kostnað við útgáfu greiðslukorta o.fl., einnig vaxtakostnað. Þetta ákvæði útilokar ekki að greiðslukortafyrirtæki áskilji sér sérstakt stofngjald af greiðsluviðtakanda vegna fjárfestingar sem fyrirtækið hefur lagt í.
     Sérstakt ákvæði er síðan í dönsku lögunum (34. gr.) þar sem heimilað er að undanþiggja alþjóðlega greiðslukortaútgefendur þessu ákvæði að hluta til eða alveg.
     Við setningu dönsku laganna urðu talsverðar deilur um þessi ákvæði og var gildistöku þeirra frestað. Síðar náðist þó samkomulag milli umboðsmanns neytenda í Danmörku og greiðslukortaútgefenda um fyrirkomulag á skiptingu kostnaðar milli korthafa og greiðsluviðtakenda.
     Þess má einnig geta að við endurskoðun framangreindra laga í Danmörku árið 1991 kom til umræðu að breyta ákvæði 20. gr. dönsku laganna um greiðslukort. Samkvæmt upplýsingum sem viðskiptaráðuneytið aflaði um málið þá var því algerlega hafnað og er því ekki að finna í þeim tillögum sem lagðar voru fyrir danska þingið haustið 1991.

B. Aðstaðan á Íslandi.


    Neytendasamtökin og Kaupmannasamtök Íslands hafa eindregið farið þess á leit að kostnaður af notkun greiðslukorta verði lagður á korthafa þannig að hann komi ekki fram í hærra vöruverði. Kaupmannasamtökin benda m.a. á að árið 1988 hafi áætlaður kostnaður kaupmanna af notkun greiðslukorta, þ.e. þóknun til kortaútgefenda, numið um 300 milljónum króna, en vaxtakostnaður kaupmanna vegna þess greiðsludráttar, sem af notkun greiðslumiðlunarinnar leiðir, hafi numið um 290 milljónum króna á sama tíma.
     Árið 1991 var vaxtakostnaður 346.832.677 kr. ef miðað er við 15% meðalvexti en miðað við 13% meðalvexti á árinu 1991 eru þetta 300.588.493 kr. samkvæmt upplýsingum hjá Kaupmannasamtökum Íslands.
     Kortaútgefendur hafa hins vegar eindregið mótmælt þessu ákvæði og bent á að notkun greiðslumiðlunar með greiðslukortum hafi haft ýmislegt hagræði í för með sér fyrir greiðsluviðtakendur. Þeir geti í ýmsum tilvikum aukið sölu og sparað sér innheimtukostnað á útistandandi skuldum.

C. Ákvæði 12. gr.


    Í 1. mgr. þessarar greinar er komið í veg fyrir að kostnaði við greiðslukort sé komið fyrir í verði vöru og þjónustu. Tilhögun á greiðslu vegna kortastarfsemi er að öðru leyti frjáls. Gera verður ráð fyrir að nokkur samkeppni ríki og því muni neytendum bjóðast ýmsir valkostir í þessu efni. Ef svo reynist þó ekki vera kemur til ákvæði 2. málsl. 1. mgr. og ákvæði 2. mgr. sem veita verðlagsráði heimild til þess að grípa inn í og ákveða hámarkskostnað.
     Sú skipun, sem lögð er til í 1. mgr., kemur einnig til með að styrkja verulega samkeppnisstöðu svonefndra smákaupmanna eða kaupmannsins á horninu gagnvart stórmörkuðum sem í æ ríkara mæli hafa notið hagstæðari kjara hjá kortaútgefendum og smákaupmenn því ekki getað boðið vöruverð sem stenst vöruverð hjá stórmörkuðum.
     Greiðslumiðlun með greiðslukortum er orðin velþekkt starfsemi og hefur ýmsa kosti fram yfir hefðbundna viðskiptahætti með notkun peninga til að greiða fyrir vörur og þjónustu.
     Eðlilegt er að fyrirtæki og einstaklingar nýti sér nútímaviðskiptahætti til greiðslumiðlunar með útgáfu greiðslukorta. Mikilvægt er þó að samtímis því að þessi breyting á sér stað sé tryggt að settur verði lagarammi um greiðslukortastarfsemi og reglur settar um hvernig hagað skuli innheimtu kostnaðar sem fylgir notkun greiðslukorta.
     Í frumvarpi þessu er byggt á þeirri meginreglu sem fyrr segir að kostnaði vegna greiðslumiðlunar skuli ekki komið fyrir í verði vöru og þjónustu heldur er skylt að láta notendur greiðslumiðlunar standa undir þessum kostnaði að meginstofni til. Þannig verður sá kostnaður, sem hér um ræðir, alfarið undir samkeppnislögmálum kominn og kostnaðarvitund eykst hjá þeim sem nota greiðslumiðlun með greiðslukortum.
     Til lengri tíma litið mun þessi tilhögun án efa leiða til þess að greiðslumiðlun með greiðslukortum mun væntanlega verða boðin fram á eins hagkvæman hátt og markaðslögmál leyfa hverju sinni.
     Í 2. málsl. 1. mgr. 12. gr. og 2. mgr. 12. gr. er hins vegar að finna ákvæði sem veita verðlagsráði heimild til að grípa inn í ef ráðið telur það nauðsynlegt vegna óeðlilegrar kostnaðarskiptingar milli greiðsluviðtakenda og korthafa.
     Í 2. mgr. 12. gr. er kveðið á um skilyrði þess að unnt sé að krefjast þess að verðlagsráð ákveði hámark á þóknun sem heimilt er að krefja greiðsluviðtakendur um. Í 2. mgr. er þannig sett það skilyrði að greiðslumiðlun með kortum hækki sannanlega kostnað kaupmanns eða með öðrum orðum sé dýrari háttur en hefðbundnir viðskiptahættir með peningum og enn fremur að ekki tíðkist að veita viðskiptamönnum afslátt sem nota annan greiðsluhátt en að greiða með greiðslukorti.
     Markmið þessa ákvæðis er í samræmi við þá stefnumótun sem felst í 1. málsl. 1. mgr. þessarar greinar, þ.e. að notkun greiðslumiðlunar með greiðslukortum á ekki að leiða til hærra vöruverðs fyrir þá sem nota vilja peninga til að greiða fyrir sín viðskipti.
     Ákvæðinu verður þar að auki ekki beitt ef kostnaður greiðsluviðtakenda við notkun greiðslukorta er lægri en þegar um er að ræða hefðbundin viðskipti. Dæmi um þetta er þegar dagblöð og tímarit geta boðið lægri áskriftargjöld til þeirra sem nota greiðslukort þar sem sú tegund greiðslumiðlunar leiðir til lægri innheimtukostnaðar.
     Loks er í 3. mgr. kveðið á um að kortaútgefandi skuli birta opinberlega gjaldskrá sína til upplýsingar fyrir korthafa ef Verðlagsstofnun krefst þess.

Um 13. gr.


A. Almennt um markmið ákvæða IV. kafla.


    Í kaflanum er fjallað um ábyrgð á tjóni sem orsakast af ólögmætri notkun (misnotkun) á greiðslukortum.
     Ákvæði 13. gr. er þannig upp byggt að 1. og 2. mgr. taka eingöngu til misnotkunar á greiðslukortum þar sem notað hefur verið einkaleyninúmer (PIN-tala). Önnur ákvæði greinarinnar taka jafnt til korta þar sem ekki er einkaleyninúmerum til að dreifa sem og til korta sem byggja á notkun slíkra númera.
     Í tillögunni er reynt að taka tillit til eftirfarandi sjónarmiða:



     1. Stefnt er að því að reglurnar veiti korthöfum nægilegt réttaröryggi.
     2. Stefnt er að því að reglurnar verði til þess að korthafar gæti eðlilegrar varkárni við meðhöndlun greiðslukorts og að kortaútgefendur tryggi eins og frekast er kostur að fullnægjandi öryggis sé gætt í starfsemi greiðslumiðlunarinnar.
     3. Stefnt er að því að hafa reglurnar eins skýrar og unnt er þannig að síður komi til erfiðra sönnunarvandamála.
     Meginatriði reglnanna eru:
     Tekin er afstaða varðandi einkaleyninúmer, varðveislu þeirra og meðferð.
     Sjálfsáhætta korthafa fyrir fjárhæð allt að 12 þús. kr. sem honum ber að bæta sé kortið notað á ólöglegan hátt og einkaleyninúmer hans hefur verið notað.
     Meginrökin fyrir þessari reglu eru að önnur tilhögun gæti leitt til erfiðrar sönnunaraðstöðu.
     Gert er ráð fyrir því að korthafar bæti ávallt þá fjárhæð sem í sjálfsáhættuákvæðinu felst svo framarlega sem viðskiptin hafa verið rétt skráð og bókfærð og án tillits til þess hvort korthafi hafi sýnt af sér nokkurt gáleysi.
     Gera má ráð fyrir að minni þörf verði fyrir dómsmál vegna slíkra viðskipta ef korthafi greiðir þá fjárhæð sem honum ber samkvæmt framangreindri reglu um sjálfsáhættu.
     Kortaútgefandi getur krafist ríkari ábyrgðar af korthafa ef í ljós kemur að korthafi hefur átt þátt í því að misferlið gat átt sér stað, sbr. nánar um þetta hér síðar.
     Takmörkun ábyrgðar fellur niður ef korthafi hefur gefið upplýsingar um einkaleyninúmer sitt til þess sem misnotar kortið.
     Í þessu tilviki hefur ekki verið talin þörf á því að vernda korthafa sem veitir öðrum og án þvingunar upplýsingar um einkaleyninúmerið sitt og misnotkun á sér stað eftir það.
     Skylda til að greiða fyrir tjón sem verður vegna stórkostlegs gáleysis korthafa.
     Samkvæmt þessu þá skal korthafi greiða allt að 8.000 kr. vegna tjóns sem leiðir af stórkostlegu gáleysi hans.
     Ákvæðinu er ætlað að hvetja korthafa til þess að gæta eðlilegrar varúðar í tengslum við handhöfn sína á greiðslukorti. Jafnframt er þetta ákvæði í samræmi við tilmæli framkvæmdastjórnar Evrópubandalagsins um greiðslumiðlun (payment systems), einkum varðandi réttarsambandið milli kortaútgefanda og korthafa, sbr. Commission Recommendation frá 17. nóv. 1988, No L 317/55, sbr. og Annex No L 17/57.
     Þetta ákvæði frumvarpsins veitir þó meiri vernd en gert er ráð fyrir í tilmælum EB en samkvæmt tilmælum bandalagsins er unnt að kveða svo á að korthafi beri ótakmarkaða ábyrgð á tjóni sem rakið er til háttsemi af því tagi sem hér er rætt um. Ákvæði þessa frumvarps er að danskri fyrirmynd.

B. Um ákvæði 13. gr.


    Í 1. mgr. 13. gr. er kveðið svo á að sjálfsáhætta korthafa skuli vera allt að 12.000 krónur. Fjárhæðartakmörk samkvæmt þessari grein eru miðuð við lánskjaravísitölu 3.198 stig og breytast í samræmi við hana, sbr. lokaákvæði þessarar greinar.
     Þau tilvik geta komið upp að ósanngjarnt sé að korthafi beri að öllu leyti þá sjálfsáhættu sem lagt er til að skuli vera almenna reglan skv. 1. mgr. Til dæmis má nefna ef korthafi hefur verið neyddur til að afhenda greiðslukortið og einkaleyninúmerið, svo sem með ofbeldisverknaði eða því um líku. Í því tilviki má reikna með að korthafi fái sjálfsáhættufjárhæðina bætta eða að kortaútgefandi falli frá kröfu á hendur honum um þá fjárhæð. Með því að kveða svo á að korthafi geti verið ábyrgur fyrir „allt að“ 12 þús. kr. þá er ekki höfð í huga ákveðin skipting í mati á sjálfsáhættu heldur aðeins átt við með því orðalagi að tjónið getur verið minna en 12.000 kr.
     Þegar rætt er um einkaleyninúmer þá er gert ráð fyrir því að þetta sé leynilegt númer svo og að það sé einkanúmer hans. Gert er því ráð fyrir að hjá greiðslumiðlun virki þetta á þann hátt að eingöngu korthafi hafi aðgang að og umráð yfir þessu númeri. Ef greiðslumiðlun tryggir ekki nægilega vel að óviðkomandi aðilar hafi ekki aðgang að einkaleyninúmerum þá mundi ákvæðið ekki eiga við.
     Í 2. mgr. er lagt til að korthafi beri ótakmarkaða ábyrgð á tjóni sem hefur orðið og verður rakið til þess að hann hafi af sjálfsdáðum upplýst þann sem misfer með greiðslukortið um einkaleyninúmer sitt. Hið sama kann að geta átt við ef korthafi hefur á engan hátt reynt að takmarka aðgang annarra að korti sínu eða númeri. Þetta mundi þó ekki eiga við ef sá sem misnotar kortið hefur fengið framangreindar upplýsingar og kortið í innbroti hjá korthafa eða á annan samsvarandi hátt.
     Í 3. mgr. er fjallað um ábyrgð á greiðslukortum óháð því hvort notkun þeirra byggir á einkaleyninúmeri eða ekki. Fjárhæðarmörk samkvæmt greininni eru 8.000 kr. sem gilda m.a. um það tilvik þegar korthafi afhendir öðrum kort sitt og sá sem tekur við því notar það á heimildarlausan hátt. Ef ákvæði 2. mgr. eiga ekki við þá kemur þetta ákvæði 3. mgr. til skjalanna.
     Sönnunarbyrði er lögð á kortaútgefanda vegna þeirra atriða sem nefnd eru í 1.–3. tölul. 2. mgr.
     Þegar sagt er í ákvæðinu að ábyrgðin geti numið „allt að“ 8 þús. kr. er sem fyrr miðað við að tjónið geti allt eins verið minna.
     Í 1. tölul. 3. mgr. eru aðstæður skýrar og þarfnast vart skýringa.
     Í 2. tölul. 3. mgr. segir að hafi korthafi, eða sá sem hann hefur afhent kortið, stuðlað að því með „vítaverðum hætti“ að misnotkunin hafi átt sér stað. Ekki er unnt að útskýra á tæmandi hátt við hvaða atvik er átt með þessu orðalagi en nefna má t.d. að geymsla greiðslukorts og einkaleyninúmers á sama stað gæti fallið undir þetta tilvik ef á engan hátt er reynt að dylja einkaleyninúmerið. Kæruleysisleg geymsla á korti og leyninúmerinu gætu því fallið undir „vítaverða háttsemi“. Þegar sagt er í greininni að „stuðlað“ hafi verið að því að misnotkunin hafi átt sér stað þá ber að skilja það svo að á kortaútgefanda hvílir einnig skylda til að gera viðeigandi öryggisráðstafanir af sinni hálfu, svo og á greiðsluviðtakendum.
     Í 3. tölul. er mælt svo fyrir að korthafi beri ábyrgð á fjárhæð allt að 8.000 kr. ef hann hefur ekki tilkynnt eins fljótt og unnt var að kortið hafi týnst eða horfið á annan hátt.
     Í 4. mgr. er ákvæði sem er í samræmi við ákvæði 14. gr. þessa frumvarps og reglur þeirrar greinar um sönnunarbyrði kortaútgefanda í því sambandi.
     Ákvæði 5. mgr. skýra sig að öllu leyti sjálf, svo og ákvæði 6. mgr.
     Í sambandi við 6. mgr. þá má geta þess að ákvæðið mun væntanlega hvetja til þess að kortaútgefendur tryggi að starfsaðferðir greiðslumiðlunar séu ávallt sem bestar og dregið sé úr því að tjón geti orðið.
     Í 7. mgr. er kveðið svo á að kortaútgefandi verði eigi gerður ábyrgur vegna tjóns hafi greiðsluviðtakandi vitað, eða mátt vita, að greiðslukortið væri notað á ólögmætan hátt. Slíkt gáleysi af hálfu greiðsluviðtakanda gæti stafað t.d. af því að greiðsluviðtakandi lætur undir höfuð leggjast að framfylgja þeim reglum sem kortaútgefandi hefur sett og samningur þeirra byggir á, t.d. að afla sér upplýsinga um það hvort takmarkanir séu á notkun greiðslukortsins, hvort því hafi verið stolið eða það innkallað o.s.frv.
     Loks er í 8. mgr. lagt til að fjárhæðarmörk, sem kveðið er á um í þessari grein, fylgi breytingum sem verða á lánskjaravísitölu. Sá háttur tryggir að fjárhæðarmörk samkvæmt þessari grein fylgi nokkurn veginn verðlagi á hverjum tíma.

Um 14. gr.


    Hér er lögð hlutlæg ábyrgð á kortaútgefanda vegna þeirra atriða sem grein þessi tekur til. Grundvöllur ábyrgðar er að mistök verða við skráningu eða þess háttar bilanir sem greinin getur um og verða þau atvik þess valdandi að tjón hlýst af þar sem skráningin eða færslan á greiðsluskyldu þess er greiða á er röng. Kortaútgefandi ber ábyrgð þótt orsök tjónsins verði rakin til ófyrirsjáanlegra atvika eða honum verði að öðru leyti eigi kennt um þau atvik er til tjóns leiddu.
     Um ábyrgð annarra en kortaútgefanda, korthafa og greiðsluviðtakanda er ekki fjallað í 14. gr. frumvarpsins. Ákvæði 1. mgr. 14. gr. eru því ekki til fyrirstöðu að greiðsluviðtakandi eða kortaútgefandi leggi fram endurkröfur í samræmi við almennar reglur þar um á hendur öðrum er ábyrgð kunna að bera, t.d framleiðanda eða seljanda þess hlutar eða tækis sem tjóninu olli.
     Þá er kveðið hér á um almenna skyldu kortaútgefanda til að leiðrétta mistök og rangar reikningsfærslur og þess háttar án ástæðulauss dráttar eftir að slíkar villur hafa komið í ljós. Nefnd þeirri, er samið hefur frumvarp þetta, hefur verið bent á nauðsyn þess að slíkt ákvæði sé í lögum þar eð borið hefur á því að slíkar leiðréttingar hafa eigi verið gerðar þegar í stað eftir að mistök eða villur uppgötvuðust.
     Í 2. málsl. 1. mgr. er að finna heimild til að undanþiggja kortaútgefanda ábyrgð vegna tjóns er korthafi hefur orðið fyrir eða lækka bótagreiðslu ef um er að ræða tjón sem rekja má til háttsemi sem framin er af ásetningi eða stórfelldu gáleysi. Einfalt gáleysi nægir hins vegar ekki til þess að lækka megi bætur samkvæmt greininni og er það m.a. í samræmi við þá meginreglu sem höfð er til hliðsjónar við ákvörðun bótaábyrgðar korthafa skv. 13. gr. frumvarpsins, sbr. 1. tölul. Hvort bætur eru alveg felldar niður eða lækkaðar fer eftir atvikum og er háð úrlausn dómstóla hverju sinni.
     Í 3. málsl. 1. mgr. er kortaúgefandi undanþeginn ábyrgð ef tjón verður að öllu leyti rakið til eigin aðstæðna greiðsluviðtakanda eða atvika er kortaútgefandi verður ekki á neinn hátt gerður ábyrgur fyrir. Nefna má t.d. að greiðsluviðtakandi kann að notast við einhver tæki sem kortaútgefandi hefur ekkert með að gera og kann þá að vera réttmætt að krefjast þess að greiðsluviðtakandi geri allar þær sömu ráðstafanir og kortaútgefandi gerir í sinni starfsemi. Ákvæði þetta tengist síðan ákvæði 3. mgr. þessarar greinar um endurkröfurétt kortaútgefanda.
     Í 1.–3. mgr. 14. gr. er einungis gerðar tillögur um ábyrgðargrundvöllinn, en um sönnun tjóns, svo og önnur atriði varðandi skaðabótaskylduna í hverju einstöku tilviki, fer eftir almennum reglum er dómstólar eiga endanlegt úrskurðarvald um.
     Í 4. mgr. er kveðið á um sönnunarbyrði vegna þeirra atriða sem nefnd eru í 1. mgr. þessarar greinar. Þannig er gert ráð fyrir að andmæli korthafi tiltekinni reikningsfærslu sem gerð hefur verið hvíli sú skylda á kortaútgefanda að leggja fram afrit kvittana eða önnur þau gögn sem sanna að viðskiptin hafi átt sér stað.

Um 15. gr.


    Í 15. gr. er að finna sérreglur um skráningu upplýsinga af hálfu kortaútgefanda og varða viðskiptamenn hans. Hér er um að ræða sérreglur varðandi greiðslukortstarfsemi, en jafnframt eru í gildi lög um meðferð og skráningu persónuupplýsinga sem taka til slíkrar skráningar eftir því sem við getur átt. Samkvæmt ákvæðum 4. gr. skal tilkynna hvernig greiðslumiðlunin fer fram, m.a. skal tilkynnt um hvaða skrár skuli haldnar, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 4. gr.
     Í II. kafla þessa frumvarps, sbr. 18. gr., er fjallað um eftirlit með framkvæmd laga þessara og reglna settra samkvæmt þeim ef að lögum verður. Leggja verður til grundvallar að eftirlitsaðilar muni leita eftir umsögn tölvunefndar sem starfar samkvæmt sérstökum lögum eftir því sem þurfa þykir.
     Í 2. mgr. er að finna ákvæði sem setur miðlun upplýsinga, sem kortaútgefandi skráir um korthafa og greiðsluviðtakanda, tiltekin mörk. Reglan er til fyllingar þeim reglum sem er að finna í sérstökum lögum um skráningu og meðferð persónuupplýsinga og er lagt til að einungis skuli kortaútgefandi miðla uppýsingum sem tengjast framkvæmd greiðslumiðlunarinnar. Þannig ber einstökum greiðsluviðtakanda t.d. ekki réttur til frekari upplýsinga um korthafa en þeirra upplýsinga sem telja verður nauðsynlegt að hann hafi vegna hinnar eiginlegu greiðsluskuldbindingar korthafans og greiðslumiðlunar vegna hennar.
     Ákvæðinu er jafnframt ætlað að tryggja að kortaútgefandi veiti ekki upplýsingar um greiðsluviðtakendur sem eru þess eðlis að vegna viðskiptahagsmuna greiðsluviðtakanda beri að gæta um þær trúnaðar.
     Um þau atriði, sem hér eru rædd, mun framkvæmdin að sjálfsögðu almennt skera úr um varðandi einstök vafaatriði.

Um 16. gr.


    Hér er lagt til að geyma skuli upplýsingar er tengjast notkun greiðslumiðlunarinnar í allt að fimm ár, en að þeim tíma liðnum skuli þeim eytt. Sá frestur, sem hér er lagður til, er tveimur árum skemmri en krafist er samkvæmt bókhaldslögum, en hins vegar sá sami og lagður hefur verið til grundvallar í lögum um kerfisbundna skráningu á upplýsingum er varða einkamálefni, sbr. fyrirliggandi frumvarp til laga um skráningu og meðferð persónuupplýsinga. Nefndin varð sammála um að sá fimm ára frestur í því tilviki, sem hér ræðir um, sé nauðsynlegur en jafnframt fullnægjandi.

Um 17. gr.


    Eins og áður hefur verið nefnt þá gilda almennt lög um skráningu og meðferð persónuupplýsinga um tölvuskrár sem færðar eru í tengslum við greiðslukortastarfsemi. Þau gilda einnig um miðlun upplýsinga er varða persónuleg og fjárhagsleg málefni, að svo miklu leyti sem ákvæði þessa frumvarps setja slíkri skráningu af hálfu kortaútgefanda ekki sérstök skilyrði. Ákvæði þessarar greinar þykir því rétt að setja í frumvarp þetta „ex tuto“ og því til staðfestingar.

Um 18. gr.


    Í 1. mgr. er lagt til að málefni samkvæmt frumvarpi þessu heyri stjórnarfarslega undir viðskiptaráðherra. Um eftirlit verðlagsráðs fer eftir lögum sem um það gilda, sbr. lög nr. 56/1978, um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti. Telja verður eðlilegt eins og hér hagar sérstaklega til að verðlagsráði og Verðlagsstofnun verði falið að fella úrskurði um þau mál sem undir þau heyra og framkvæmd laganna snerta. Sérþekking á þeim atriðum, sem á kann að reyna, mun eðli málsins samkvæmt verða hjá starfsmönnum Verðlagsstofnunar og því líklegt að mál fái þar fullnægjandi undirbúningsmeðferð áður en þau eru tekin til úrskurðar. Hið sama gildir um eftirlit bankaeftirlits Seðlabanka Íslands samkvæmt frumvarpi þessu. Í frumvarpinu er jafnframt gert ráð fyrir málskotsleið til æðri stjórnvalda og einnig að aðilar geti leitað réttar síns fyrir dómstólum.
     Í 3. mgr. er kveðið á um heimild til að leggja úrskurði stjórnvalda til endanlegrar ákvörðunar dómstólanna innan sex mánaða frá uppkvaðningu og birtingu úrskurðarins. Þessi frestur er hinn sami og nú gildir samkvæmt lögum nr. 56/1978. Reyndar má ætla að hagsmunir ágreiningsaðila muni yfirleitt knýja á um að leitað sé eftir ákvörðun dómstóla eins fljótt og unnt er eftir að úrskurður hefur fallið. Engu að síður þykir rétt að leggja til að heimild þessi skuli vera virk í allt að sex mánuði frá uppkvaðningu og birtingu úrskurðarins, en að þeim tíma liðnum telst úrlausn stjórnvalda vera endanleg um ágreininginn.
     Í 3. mgr. er kveðið á um það að með mál vegna ágreinings um úrskurði verðlagsráðs og ráðherra skuli fara samkvæmt lögum nr. 85/1936, sbr. nú lög nr. 91/1991, en um refsiverð brot á lögum þessum skal fara að hætti opinberra mála, sbr. 20. gr. frumvarpsins.

Um 19. gr.


    Í greininni er viðskiptaráðherra veitt heimild til að afturkalla til bráðabirgða áður samþykkt starfsleyfi til handa kortaútgefanda til að starfa að greiðslumiðlun með notkun greiðslukorta vegna ítrekaðra brota á ákvæðum þessara laga ef að lögum verður og reglna settra samkvæmt þeim. Niðurfellingu leyfisins ber þó að bera undir dómstóla án ástæðulauss dráttar. Um nánari greinargerð um hvernig skuli staðið að sviptingu starfsleyfis samkvæmt þessari grein vísast til almennra reglna stjórnarfarsréttar. Rétt er þó að ítreka að starfsemin telst vera óheimil þegar frá þeim tíma er svipting starfsleyfis hefur átt sér stað.

Um 20. gr.


    Lagt er til að refsing vegna brota á lögum þessum skuli vera sektir nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum. Einnig má hér minna á þau úrræði sem verðlagsráði er veitt í frumvarpi þessu með því að banna tilteknar athafnir, sbr. ákvæði í kafla frumvarpsins og athugasemdir um 18. gr. þessa frumvarps.
     Loks er lagt til að fésektir verði unnt að leggja á lögaðila vegna brota á ákvæðum laga þessara þótt sök sé eigi sönnuð á fyrirsvarsmann eða starfsmann.

Um 21.–22. gr.


    Eðlilegt þykir að dómstólar hafi samsvarandi heimildir og ráðherra til þess að svipta aðila starfsleyfi sem hefur gerst brotlegur samkvæmt ákvæðum þessa frumvarps. Þá er í 2. mgr. sett ákvæði um upptöku hagnaðar af broti, svo og tækja eða gagna sem þau hafa verið framin með.
     Í 22. gr. er að finna heimild til refsingar fyrir tilraun og hlutdeild í broti og fer um það samkvæmt ákvæðum almennra hegningarlaga.

Um 23. gr.


    Með ákvæði þessu er settur ákveðinn rammi um að hvaða marki víkja megi frá skilyrðum þeim sem sett eru í hinum nánar tilteknu greinum. Samkvæmt ákvæðinu er við það miðað að þau ákvæði, sem greinin tiltekur, skuli vera ófrávíkjanleg að því marki sem frávik eru eigi korthafa eða greiðsluviðtakanda til hagsbóta. Verður því að líta svo á að í frumvarpinu sé að finna þær lágmarkskröfur sem gerðar skuli til þeirra atriða er í greinum þessum eru talin upp.

Um 24. gr.


    Ákvæði þetta, sem er sambærilegt við 34. gr. dönsku laganna um greiðslukort, er sett með hliðsjón af 12. gr. frumvarpsins, en hér er um að ræða alþjóðleg greiðslukort þar sem uppgjör fer fram erlendis og aðilar búsettir erlendis eiga í hlut, svo sem ferðamenn er hingað koma.
     Einnig er veitt í ákvæðinu hefðbundin heimild til ráðherra að kveða nánar á um framkvæmd og eftirlit með lögunum í reglugerð.

Um 25. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Lagt er til í 25. gr. að lögin öðlist þegar gildi. Rétt þykir þó að gefa aðilum, er lögunum er ætlað að taka til, hæfilegan frest frá gildistöku þeirra til þess að uppfylla ákvæði 3.–6. gr. frumvarpsins. Enn fremur er eðlilegt og nauðsynlegt að veita greiðslukortafyrirtækjum hæfilegan frest til þess að endurnýja samninga í samræmi við ný lög og koma þá til skoðunar ákvæði 8. gr. frumvarpsins um að einungis skuli krefjast tryggingar af hálfu þriðja manns í undantekningartilvikum, svo og ákvæði 7. gr. frumvarpsins. Rétt þykir einnig að heimila þá framkvæmd að sú endurnýjun, sem hér er rætt um, fari fram jafnóðum og greiðslukortasamningar eru endurnýjaðir samkvæmt þeim skilmálum sem um þá gilda ef kortaútgefendur telja eigi unnt að uppfylla skilyrði sem hér eru sett innan þess þriggja mánaða frests sem um er getið í ákvæðinu.



Fylgiskjal.



Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um greiðslukortastarfsemi.


    Með frumvarpi þessu er sett heildstæð löggjöf um greiðslukortastarfsemi sem til þessa hefur ekki verið fyrir hendi. Almenn lög hafa gilt um greiðslukortaviðskipti, en með frumvarpi þessu er ætlað að mæta þeim sérstæðu viðskiptaháttum sem felast í greiðslukortastarfsemi og viðskiptum tengdum þeim.
     Samkvæmt 5. gr. skal bankaeftirlit Seðlabanka Íslands fylgjast með því að eftirlits- og öryggisreglum sé fylgt, en það kemur í hlut Verðlagsstofnunar (6. gr.) að fylgjast með að greiðslukortastarfsemi sé rekin í samræmi við sanngjarna viðskiptahætti. Þar eð bankaeftirlitið er kostað af Seðlabanka Íslands kemur ekki til beins kostnaðar ríkissjóðs af þeim sökum. Að höfðu samráði við viðskiptaráðuneytið er ekki talin ástæða til að ætla að Verðlagsstofnun þurfi aukna fjárveitingu til að annast umrætt eftirlit.