Ferill 411. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 411 . mál.


664. Tillaga til þingsályktunar



um leifturljós og neyðarsendi á flotbúninga.

Flm.: Árni Johnsen, Guðjón Guðmundsson, Ólafur Þ. Þórðarson,


Sigríður A. Þórðardóttir, Össur Skarphéðinsson, Árni R. Árnason, Hjálmar Jónsson,


Guðmundur Hallvarðsson, Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, Tómas Ingi Olrich,


Kristinn H. Gunnarsson, Árni M. Mathiesen, Kristín Einarsdóttir.



    Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að gangast fyrir því í samvinnu við Raunvísindastofnun, Verkfræðistofnun og Líffræðistofnun Háskóla Íslands að hannaður verði til notkunar á Íslandsmiðum neyðarsendir á flotbúninga, svo og leifturljós, til að auðveldara verði að staðsetja menn sem lent hafa í sjávarháska.
    

Greinargerð.


     Mikilvægi skjótrar björgunar úr sjó á Íslandsmiðum er óumdeilt. Smám saman hefur þekking aukist á viðbrögðum við aðhlynningu, handbrögðum við björgun og tækni leitarmanna til þess að skyggnast eftir manni sem fallið hefur útbyrðis.
    Maður, sem fallið hefur útbyrðis og liggur í köldum sjó, hefur afar takmarkaða möguleika á að gefa merki um hvar hann er staðsettur. Ef skyggni er lélegt eða mikill sjór er viðbúið að hann finnist ekki, jafnvel þótt hann liggi nærri leitarsveit. Á þessu sviði er mikilvægt að þróa betri tækni til þess að sá sem fallið hefur útbyrðis greinist eða sjáist betur af leitarmönnum.
    Með tillögu þessari er samgönguráðherra falið, í samvinnu við Raunvísindastofnun, Verkfræðistofnun og Líffræðistofnun Háskóla Íslands, að kanna þá möguleika, sem fyrir hendi eru, til að þróa betri aðferðir og tækni við björgun úr sjávarháska með því að setja á flotbúninga leifturljós og neyðarsendi til þess að auðvelda staðsetningu manna sem fallið hafa útbyrðis. Flutningsmönnum er kunnugt um að nú þegar liggur fyrir hjá þessum stofnunum mikil þekking á mörgum þáttum málsins og þess vegna er brýnt að fela samgönguráðuneytinu forustu um að leiða þessa aðila saman með það að markmiði að hannaður verði nýr björgunarbúnaður sem reynslan sýnir að mikil þörf er fyrir. Þá er einnig mikilvægt að flotbúningar verði bornir saman, varmaeinangrun, efniseiginleikar og slitþol þeirra mælt og þannig unnið að því að velja besta fáanlegan búnað til verndunar lífi íslenskra sjómanna og sæfara.
    Fyrir skömmu var vélstjóra á togaranum Krossnesi SA 308 bjargað eftir að skipið sökk. Allt bendir til að það hafi orðið skipverjanum til lífs að hann rak hreinlega inn í ljósgeisla frá kastara leitarskips. Í þessu tilviki hefði leifturljós eða neyðarsendir stóraukið líkur á björgun sjómannsins. Með nýjustu tækni má ætla að slíkt öryggistæki sé ekki fyrirferðarmeira en greiðslukort.
    Ýmiss konar tækniþekkingu á þessu sviði hefur verið safnað saman víða í heiminum og úttekt á henni ætti að auðvelda framgang verkefnisins.