Ferill 426. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 426 . mál.


684. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 24/1986, um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins, með síðari breytingum.

Flm.: Árni R. Árnason, Halldór Ásgrímsson, Steingrímur J. Sigfússon,


Össur Skarphéðinsson, Anna Ólafsdóttir Björnsson.



1. gr.


    3. tölul. 9. gr. laganna orðast svo:
    Til Farmanna- og fiskimannasambands Íslands og Vélstjórafélags Íslands.

2. gr.


    Við 9. gr. laganna bætist ný málsgrein er orðast svo:
    Sjávarútvegsráðherra setur reglur um skiptingu fjár milli samtaka sem getið er í 2. og 3. tölul. 1. mgr. Skal við þá ákvörðun taka mið af fjölda félagsmanna sem við fiskveiðar vinna.

3. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta mælir fyrir um breytingu á lögum nr. 24/1986, um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins. Efni þess hefur verið til umræðu í sjávarútvegsnefnd og er það flutt að beiðni Vélstjórafélags Íslands.
    Breyting sú, sem lögð er til, felur í sér að það fé af greiðslumiðlunarreikningi fiskiskipa, sem rennur til Farmanna- og fiskimannasambands Íslands skv. 9. gr. laganna, mundi einnig renna til Vélstjórafélags Íslands þar sem félagið á nú ekki lengur aðild að Farmanna- og fiskimannasambandinu. Lagt er til að sjávarútvegsráðherra setji reglur um skiptingu fjár milli þeirra samtaka sem getið er annars vegar í 2. og hins vegar 3. tölul. 9. gr. laganna.