Ferill 428. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 428 . mál.


686. Tillaga til þingsályktunar



um réttindi og skyldur starfsmanna varnarliðsins á Íslandi.

Flm.: Árni R. Árnason.



    Alþingi ályktar að fela utanríkisráðherra að undirbúa og setja reglur um réttindi og skyldur íslenskra starfsmanna varnarliðsins á Íslandi.

Greinargerð.


     Kjör og réttindi almennra starfsmanna varnarliðsins á Íslandi hafa til þessa farið eftir almennum kjarasamningum og ákvæðum um réttindi starfsmanna venjulegra fyrirtækja á hinum frjálsa vinnumarkaði. Þeir starfsmenn varnarliðsins, sem gegna tilteknum stöðum með stjórnunarskyldu og ábyrgð, hafa ekki átt beina aðild að stéttarfélögum innan ASÍ og því ekki notið þeirra réttinda sem félagsmenn þeirra njóta. Þeir eiga ekki aðild að neinum samtökum launþega á Íslandi sem veiti þeim réttarstöðu.
    Um alla fastráðna starfsmenn varnarliðsins gilda ákvæði um leynd og trúnað sem eru strangari en trúnaðarskyldur almennra starfsmanna og launþega á vinnumarkaði hér á landi. Ræðst þetta af því hver umsvif varnarliðsins eru, þ.e. af eðli varnarstarfsemi. Áhrif þessa á stöðu starfsmanna eru af eðlilegum ástæðum lítt eða ekki kunn þeim sem ekki þekkja til. Má nefna að þeir teljast ekki jafnfrjálsir og starfsmenn venjulegra fyrirtækja á hinum almenna vinnumarkaði að því að ræða málefni vinnustaðar síns, hugsanlegar breytingar á starfsmannafjölda og fleira því um líkt.
    Varnarliðið hefur ekki í raun komið fram sem venjulegur aðili að hinum frjálsa íslenska vinnumarkaði, því er ekki heimiluð aðild að gerð kjarasamninga, það er ekki aðili að samtökum vinnuveitenda og ekki eru aðstæður né forsendur til að veita því slíka stöðu hér. Áhrif breytinga á almennum kjörum starfsmanna þess vegna nýrra kjarasamninga og vegna almennra verðlagsbreytinga eða vegna launaskriðs eru hverju sinni yfirfærð á kjör þeirra af sérstakri nefnd sem fjallar um kjör þeirra og um túlkun almennra kjarasamninga í framkvæmd starfsmannahalds varnarliðsins. Starfsmenn þess hafa af þessum ástæðum ekki sömu aðstöðu og stéttarfélagar þeirra annars staðar á almennum vinnumarkaði til að semja um sérmál eða fagleg málefni eða hafa sjálfir áhrif á afstöðu vinnuveitanda síns til kjarasamninga eða niðurstöðu við túlkun og framkvæmd þeirra.
    Varnarliðið er í raun erlend opinber stofnun á Íslandi á grundvelli ákvæða varnarsamningsins við Bandaríkin. Að gera starfsmönnum þess að ráðast til starfa og hafa réttindi samkvæmt ákvæðum um starfsmenn á almennum vinnumarkaði skýtur því skökku við. Sú réttarstaða, sem starfsmönnum þess hefur þannig verið gerð, er ekki rökrétt út frá þeim kröfum sem gerðar eru um skyldur þeirra. Við starfslok, t.d. vegna minnkandi umsvifa í varnarstarfsemi, er á engan hátt tekið tillit til þeirrar sérhæfingar sem allir fastráðnir starfsmenn þess hafa í raun tileinkað sér en er þeim ekki til ávinnings á almennum vinnumarkaði.
    Af framangreindum ástæðum er flutningsmaður þeirrar skoðunar að rétt muni að utanríkisráðherra hefji viðræður við æðstu stjórnendur varnarliðsins á Íslandi sem skapi því grundvöll að sérstakar reglur verði settar sem gildi um réttindi og skyldur fastráðinna starfsmanna þess, svo og um framlag þess til endurhæfingar og atvinnuleitar þeirra starfsmanna sem það segir upp og um framlag þess til atvinnuþróunar með tilliti til samdráttar þess og afar stórs hlutar þess á vinnumarkaði til þessa.
    Flutningsmaður væntir þess að unnt muni að móta slíkar reglur í samræmi við ákvæði um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna þannig að þeir sem stunda sambærileg störf hjá varnarliðinu og hjá hérlendum opinberum stofnunum fái sambærilegt starfsumhverfi hvað varðar réttindi og skyldur, svo og að varnarliðið meti að verðleikum það framlag starfsmanna þess sem liggur í óvenjulegri sérhæfingu þeirra.