Ferill 471. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 471 . mál.


729. Frumvarp til laga



um breytingu á siglingalögum, nr. 34/1985, með síðari breytingum.

Flm.: Guðmundur Hallvarðsson.



1. gr.

    2. mgr. 172. gr. laganna orðast svo:
    Skylt er útgerðarmanni að kaupa tryggingu fyrir dánarbótum og slysabótum er á hann kunna að falla skv. 1. mgr. sem hér segir:
    Dánarbætur:
         
    
    1.630.000 kr. við andlát er greiðast eftirlifandi maka og börnum á sambærilegan hátt og almennar lögerfðarreglur mæla fyrir um. Með „maka“ er hér einnig átt við sambúðarmann eða sambúðarkonu samkvæmt reglum Tryggingastofnunar ríkisins, sbr. 52. gr. laga um almannatryggingar.
         
    
    625.000 kr. til viðbótar greiðslu skv. a-lið ef bætur greiðast skv. d- eða e-liðum og skiptast á sama hátt og bætur skv. a-lið.
         
    
    Nú lætur sjómaður hvorki eftir sig maka né börn og greiðast þá 815.000 kr. til lögerfingja.
         
    
    Mánaðarlegar bætur til eftirlifandi maka í sex ár ber að greiða skv. a-lið 1. mgr. 35. gr. laga um almannatryggingar. Við andlát eftirlifandi maka ganga greiðslur þessar ekki í arf. Ákvæði þessi skerða í engu réttindi maka vegna slysa sem orðið hafa fyrir gildistöku laga þessara.
         
    
    Mánaðarlegar bætur til barna að 18 ára aldri ber að greiða á hverjum tíma skv. c-lið 1. mgr. 35. gr. laga um almannatryggingar.
    Slysadagpeningar og örorkubætur:
         
    
    Dagpeningar sem greiðast eftir sömu reglum og dagpeningar skv. 33. gr. laga um almannatryggingar og nema 50% hærri fjárhæð en þeir. Heildarupphæð dagpeninga skal þó aldrei vera hærri en þau laun sem hinn slasaði hafði fyrir slysið.
         
    
    Vegna varanlegrar örorku greiðast bætur á eftirfarandi hátt: 45.000 kr. fyrir hvert örorkustig á bilinu frá 1–25%, 90.000 kr. á bilinu frá 26–50% og 135.000 kr. fyrir hvert örorkustig umfram 50%.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Það má með sanni segja að umræðan um íslensk siglingalög hafa ekki tekið langan starfstíma frá annasömu Alþingi.
    Skömmu eftir að stjórn Íslandsmála fluttist inn í landið var þó farið að huga að setningu íslenskra siglingalaga, en fram til þess tíma giltu hér að mestu úrelt og dreifð ákvæði Jónsbókar, hinnar fornu lögbókar Íslendinga, um siglingar og siglingamálefni, og voru þau að sjálfsögðu algjörlega ófullnægjandi eftir að siglingastarfsemi tók að þróast hér að nokkru marki. Árið 1913 voru sett hér á landi siglingalög, en þeim lítillega breytt á næsta ári og síðan gefin út í heild sem lög nr. 56/1914.
    Þrátt fyrir mikla þróun í siglingastarfsemi og siglingatækni, sem varð á næstu áratugum, stóðu íslensku siglingalögin lítið breytt allt frá 1914 til 1963, er gerðar voru á þeim talsverðar breytingar og þau síðan gefin út sem lög nr. 66/1963. Var þar m.a. leitast við að samræma lögin ýmsum alþjóðasáttmálum á sviði siglinga.
    Með lögum nr. 14/1968 er ákvæðum siglingalaga um takmörkun ábyrgðar útgerðarmanna breytt með tilvísun til alþjóðasamþykktar sama efnis sem samþykkt var í Brussel 10. október 1957. Þá er sömu ákvæðum breytt með lögum nr. 108/1972, sbr. síðari breytingu með lögum nr. 25/1977. Síðar var unnið að heildarendurskoðun siglingalaga og voru ný lög samþykkt vorið 1985, lög nr. 34/1985, síðar með breytingum á 230. gr. laganna, nr. 34/1986, um rannsóknir á sjóslysum.
    Það má furðu gegna um siglingaþjóð, sem byggir sitt efnahagslega sjálfstæði á sjávarútvegi og siglingum, skuli svo sjaldan sem raun ber vitni um hafa talið ástæðu til endurskoðunar siglingalaga með tilliti til þess að mjög örar breytingar eiga sér stað á siglingalögum nágrannaþjóða.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að tryggingarfjárhæðum 172. gr. laganna verði breytt, þ.e. við andlát og til eftirlifandi maka. Einnig verði felld niður aldursmörk og tímalengd bótaréttar sem verði einn og sá sami, sex ár. Þá verði einnig bætur til barna yngri en 18 ára hækkaðar. Þá er bætt við ákvæðum þess efnis að lögerfingjum sjómanns skuli við andlát hans greiddar bætur; enn fremur að fjárhæðum slysadagpeninga og örorkubóta verði breytt.
    Frá þeim tíma að Tryggingastofnun ríkisins tók upp skráningu á slysum sjómanna 1964 hefur slysatíðni meðal sjómanna því miður aukist. Og þrátt fyrir tilkomu Slysavarnaskóla sjómanna, Sæbjörgu og það ágæta starf sem þar er unnið að fræðslu varðandi öryggismál sjómanna eykst enn slysatíðni til sjós. Þessi þróun mála veldur verulegum áhyggjum meðal forustumanna sjómanna. Þó má líka sjá þróun til réttrar áttar.
    Síðastliðna tvo áratugi hafa um 25% þeirra slysa sem tilkynnt hafa verið Tryggingastofnun ríkisins verið vegna sjómannastarfa enda þótt sjómenn séu aðeins um 5% þeirra sem á vinnumarkaðnum eru.

Bótaskyld slys á sjómönnum tilkynnt TR.



Ár

Fjöldi slysa



1964          
260

1968          
322

1972          
319

1976          
307

1980          
375

1984          
415

1985          
503

1987          
524

1988          
619

1989          
631

1990          
614

1991          
522


    Hins vegar hefur tíðni dauðaslysa orðið önnur þótt því miður sé tala látinna sjómanna af slysförum allt of há.

Tíðni dauðaslysa á fiskiskipum 1971–1989.



Ár

Dauðaslys



1971–1974     
82

1975–1979     
59

1980–1984     
58

1985–1989     
37

1990          
4

1991          
9










( - M Y N D - )





















    
Því miður vantar nokkuð á að öll gögn varðandi slys á sjómönnum séu aðgengileg hjá TR, einkum hvað varðar flokkun og úrvinnslu gagna. Ekki liggur fyrir hjá TR hve margir sjómenn starfa síns vegna fá greiddar örorkubætur. En hjá Lífeyrissjóði sjómanna fjölgar þeim sjómönnum sem eru á örorkulífeyri eins og meðfylgjandi tafla sýnir:

Fjöldi sjómanna á örorkulífeyri.


(Í desember ár hvert.)



1981          
52

1984          
97

1987          
147

1990          
247

1991          
303


    Sem hér að framan hefur verið getið má ljóst vera að störf við sjómennsku eru áhættusöm og erfið og þótt peningar bæti aldrei lífs- eða líkamstjón er þó ekki nema eðlilegt að sú starfstétt, sem býr við jafnalvarlega slysa- og dánartíðni starfans vegna sem íslenskir sjómenn gera, sé vel tryggð. Hugtakið að vera vel tryggður er víðfeðmt og enda þótt flutningsmaður telji mikið á vanta hvað bótafjárhæðir 172. gr. varðar felur lagabreytingin í sér sambærilegar tryggingarfjárhæðir og eru hjá þeim aðilum sem starfa eftir kjarasamningum BSRB.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í a- og b-liðum 1. tölul. er einungis breytt fjárhæðum.
    C-liður er nýr og felur í sér rétt lögerfingja til fébóta ef hinn látni lætur hvorki eftir sig maka né börn. Ekki eru ákvæði í núgildandi lögum sem hér getur, hins vegar eru ákvæði í kjarasamningum milli sjómanna og útgerðarmanna varðandi þetta ákvæði. Rétt er og eðlilegt að fella þetta ákvæði inn í lögin.
    Í d-lið er lagt til að bætur til eftirlifandi maka séu greiddar í sex ár og gildi þá einu um aldur.
    Í núgildandi lögum eru ákvæði þess efnis að sé eftirlifandi maki 44 ára og 364 daga gamall eða yngri skuli hann njóta bóta í þrjú ár, en í sex ár sé hann 45 ára eða eldri.
    Í a-lið 2. tölul. er lagt til að dagpeningar skv. 33. gr. almannatrygginga hækki um 50%.
    Þá er gert ráð fyrir að bætur vegna varanlegrar örorku hækki til samræmis við aðrar hækkanir í frumvarpi þessu.

Um 2. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.