Evrópskt efnahagssvæði

92. fundur
Mánudaginn 04. janúar 1993, kl. 15:01:49 (4252)

     Frsm. 3. minni hluta utanrmn. (Ólafur Ragnar Grímsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég hlustaði með athygli á ræðu hv. þm. Finns Ingólfssonar, sérstaklega í ljósi þess að hann komst að allt annarri niðurstöðu í sinni ræðu en formaður Framsfl., Steingrímur Hermannsson, gerði þegar hann mælti fyrir áliti framsóknarmanna í utanrmn. um samninginn. Það er þess vegna óhjákvæmilegt að maður hlusti með þó nokkuð mikilli athygli á þá þingmenn Framsfl. sem hafa hafnað þeirri niðurstöðu sem fulltrúar flokksins í utanrmn. hafa lagt til við þingið.
    Satt að segja fannst mér kjarninn í því sem hv. þm. var að segja vera á þann veg að ef það væri bara önnur ríkisstjórn, þá væri hann tilbúinn til að greiða atkvæði með samningnum um Evrópskt efnahagssvæði. Af því að hér sætu svo vondir menn í ríkisstjórn, hæstv. utanrrh. og hæstv. forsrh., þá vildi þingmaðurinn ekki bera pólitíska ábyrgð á því sem hann ella væri sammála efnislega. Ég vil spyrja þingmanninn: Er það virkilega þannig að ef það væri önnur ríkisstjórn, þá væri hann tilbúinn til að greiða atkvæði með EES-samningnum en hann ætli að skjóta sér á bak við einhverja persónulega og pólitíska vankanta á hæstv. utanrrh. og hæstv. forsrh. og sitja þess vegna hjá? Mér finnst það satt að segja alveg furðuleg afstaða í því stórmáli sem hér er til umræðu.