Evrópskt efnahagssvæði

92. fundur
Mánudaginn 04. janúar 1993, kl. 15:03:53 (4253)

     Finnur Ingólfsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. 8. þm. Reykn., Ólafi Ragnari Grímssyni, ætti ekki að koma það á óvart þó að stjórnarandstæðingar í þinginu gætu ekki stutt allt sem hæstv. ríkisstjórn hefur fram að færa. Það ætti hv. þm. að muna að þegar hann sat í ríkisstjórn með framsóknarmönnum fyrir tæpum tveimur árum var verið að vinna að þessari samningsgerð. Þá var ekki annað vitað heldur en hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, þáv. fjmrh., styddi samningsgerðina.
    Nú er staðan hins vegar sú að hv. þm. er kominn með Alþb. í stjórnarandstöðu og þá er eins og engu máli skipti hvað hafi gerst í fortíðinni. Þetta er munurinn á því hvernig framsóknarmenn vinna og Alþb. að menn hafa svolitla ábyrgðartilfinning fyrir því sem menn hafa verið að gera áður fyrr.
    Varðandi það hvort ég ætli að greiða atkvæði gegn formanni Framsfl., þá þarf hv. þm. ekki að koma það heldur á óvart. Það var niðurstaða flokksþings framsóknarmanna að enginn þingmaður Framsfl. mundi greiða atkvæði með þessum samningi. Hins vegar var það rætt í þingflokki framsóknarmanna að einstakir þingmenn Framsfl. greiddu atkvæði gegn samningnum en aðrir sætu hjá við þá atkvæðagreiðslu. Það hefur komið fram í máli fjölmargra annarra hv. þm. Framsfl. að þeir munu einnig sitja hjá við afgreiðslu málsins á þingi.