Evrópskt efnahagssvæði

92. fundur
Mánudaginn 04. janúar 1993, kl. 16:07:47 (4263)

     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegur forseti. Ég lýsti afstöðu minni til þessa máls við 1. umr. um það þann 3. sept. sl. og þarf því ekki að eyða mjög löngum tíma í að gera grein fyrir þeim atriðum sem ég tel þó óhjákvæmilegt að láta koma fram til viðbótar. Ýmislegt hefur breyst frá því að málið var lagt fram á hv. Alþingi og tekið til 1. umr. Flest af því hefur aukið á óvissu um að EES-samningurinn verði nokkurn tíma að veruleika, a.m.k. í því formi sem fylgjendur hans hafa hugsað sér hann í framkvæmd og lýst ávinningum af honum fyrir landsmönnum.
    Mig langar einmitt að koma að því að litlu leyti hvað menn hafa verið að segja við fólkið í landinu um hvað það muni hafa út úr því að Íslendingar verði aðilar að EES-samningnum. Fyrst kannski örfá orð um iðnaðinn. Mig langar, með leyfi forseta, að grípa niður sem dæmi um hvað sagt hefur verið við landsmenn og vitna í forustugrein Alþýðublaðsins, sem er annað málgagn ríkisstjórnarinnar í EES-málunum og má kannski gefa því heitið höfuðmálgagn. Í forustugrein í ágúst segir m.a.:
    ,,Með EES-samningnum munu skapast gífurleg tækifæri fyrir íslenskar útflutningsgreinar. Það er ótrúlegt að hlusta á bölmóð stjórnarandstöðunnar og annarra málsvara þess að samningnum verði hafnað. Það hlýtur að vera mikil skammsýni að vilja varpa frá sér helsta aflgjafa atvinnulífs til framtíðar á sama tíma og meiri samdráttur ríkir í íslensku atvinnu- og efnahagslífi en í langan tíma.
    Lítið hefur verið rætt um möguleika íslensks iðnaðar í þessu sambandi. Eftir gjaldþrot ullariðnaðarins og frestun álversins á Keilisnesi er engu líkara en framtíð iðnaðar á Íslandi hafi verið afskrifuð í eitt skipti fyrir öll. Það er fjarri sanni. Sérhæfð íslensk framleiðsla og þjónusta mun í auknum mæli finna markað erlendis, ekki síst með EES-samningnum. Samningurinn tryggir íslenskum iðnfyrirtækjum, svo og öðrum fyrirtækjum meiri umsvif á stærsta og auðugasta markaði á jörðinni. Íslenskur fiskiðnaður mun þróast í átt til aukinnar verðmætasköpunar og útflutnings á fullunnum fiskafurðum, samkeppni mun aukast og skilvirkni í atvinnulífinu. Ekki síst mun iðnaður taka miklum framförum.`` Lokaorð þessarar forustugreinar eru þessi: ,,Ísland býður því upp á mikil tækifæri til útflutnings í framtíðinni, sérstaklega ef EES-samningurinn nær fram að ganga. Á þessi atriði eiga ábyrgir forustumenn í atvinnulífi og stjórnmálum að einblína í stað þess að stilla sér upp fyrir framan grátmúrinn mikla.``
    Þarna er ekki verið að skafa utan af því en ég vil sérstaklega vara við því sem menn hafa verið að koma á framfæri undanfarið vegna iðnaðarútflutningsins. Ótrúlega mikið er um það að fólk taki þetta alvarlega. En sannleikurinn er sá að menn hafa nákvæmlega ekki neitt í hendi sem gefur ástæðu til þess að vera bjartsýnir á það að íslenskur iðnaður muni fá ný tækifæri vegna EES-samningsins á næstunni. Hvers vegna segi ég þetta? Ég segi þetta vegna þess að sá markaður sem hér er verið að tala um eins og hann sé galopinn fyrir íslenskum iðnaðarvörum og bíði nánast eftir því að Íslendingar láti nú eitthvað frá sér fara inn á hann, er markaður fyrir risafyrirtæki á okkar mælikvarða. Hann er ekki markaður fyrir smáfyrirtæki eins og við eigum. Hann er markaður sem risafyrirtækin keppa um. Við eigum ekki eitt einasta slíkt risafyrirtæki í landinu sem getur keppt í þessum iðnaði. Einu fyrirtækin sem hægt er að tala um í þessu samhengi eru stóriðjuverin og framleiðsla í sjávarútvegi. Það er ekki um önnur fyrirtæki að ræða. Eina fyrirtækið sem mér dettur í hug að nefna í þessu sambandi úr iðnaði er fyrirtækið Sól hf. sem ýmsir þekkja hér á landi af þeim afrekum sem það hefur unnið á sl. árum. En það er kannski svolítið upplýsandi fyrir menn að velta því fyrir sér hvað það kostar að ná árangri á markaði eins og það fyrirtæki er að ná. Mig langar til þess, með leyfi forseta, að grípa niður í lítils háttar frásögn af markaðsátaki þessa fyrirtækis sem kom fram í blaði iðnrekenda sem heitir Á döfinni. Þar stendur m.a. þetta:
    ,,Eftir tæplega sjö ár, 167 flugferðir, heimsókn í 252 fyrirtæki í 116 borgum og bæjum í 97 löndum, 74 fundi og tíu faxsýningar í fjórum heimsálfum var dósin okkar gersamlega misheppnuð þegar framleiðsla hennar hófst.``
    Þannig hljóðaði upphaf frásagnar Davíðs Schevings Thorsteinssonar, forstjóra Sólar hf., af ævintýrinu um Seltzerdrykkinn og vatnsútflutninginn. Það eru ekki mörg fyrirtæki í þessu landi sem hafa möguleika á því að leggja það á sig sem Sól hf. er búin að leggja á sig í sambandi við útflutning á Seltzer og vatni. Það síðasta sem ég heyrði forstjóra þess fyrirtækis segja var að þeir reiknuðu með því að fara að fá arð af þessum fjárfestingum sínum á árinu 1994.
    Hvað mörg fyrirtæki skyldum við Íslendingar eiga sem eiga möguleika á því átaki sem þarna var á ferðinni? Og þó er talið að þær hugmyndir sem eru á bak við það sem þarna er verið að gera hafi verið sérstaklega góðar og í raun og veru vel heppnaðar og gefa góðar vonir. Við eigum því miður ekki mörg slík fyrirtæki og ég sé ekki fyrir mér að verið sé að skapa nýja möguleika af þessu tagi. Ég held að eitthvað stórkostlegt þurfi að gerast hér á landi ef iðnaðurinn á að skila okkur þeim væntingum sem verið er að vekja með þjóðinni vegna þessa samnings. Ég er sannfærður um það að eigi þjóðin á að hafa arð af þessum samningi á sviði iðnaðarframleiðslu verða stjórnvöld að ganga fram með einhverjum sérstökum hætti. Hér verður að stofna risafyrirtæki sem geta keppt á markaðnum. Því miður er viðleitni í þá átt ekki sjáanleg.
    Ég reyndi í þeirri ræðu sem ég nefndi hér áðan við 1. umr. að rekja dálítið hvernig sjávarútvegurinn mundi standa sig í þeirri samkepni sem er fram undan á EES-svæðinu og þar sagði ég og segi það enn að ég tel að sjávarútvegurinn muni hafa einhverja ávinninga af þessum samningi ef hann verður að veruleika. En það er afskaplega erfitt að halda því fram að það muni verða góðæri í sjávarútvegi vegna samningsins. Í raun og veru er enginn rökstuðningur fyrir því. Hins vegar er búið að kasta upp peningnum og kann vel að vera að sjávarútvegurinn muni þurfa að leita sér annarra markaða að einhverju leyti ef ekki verður af samningnum. Ef verði af samningnum sjálfum eins og hann liggur fyrir gagnvart sjávarútveginum uggir mig að það jafnvægi, sem verið hefur á framboði á fiski á erlendum mörkuðum þar sem við höfum selt afurðir okkar, raskist mikið og að við munum ekki hafa til lengdar neinn verulegan ávinning af því sem flestir hafa bundið vonir við og er það t.d. útflutningur á ferskum flökum.
    Svo virðist sem hugmyndirnar um nýjan útflutning séu ekki mjög fjölbreyttar og flestir þeir aðilar sem ég hef spurt um þessa hluti og sem hafa verið að hugsa sér að bregðast við vegna EES-samningsins hafa svarað því ef þeir hafa verið spurðir hvað þeir ætli sér nú að gera að þeir vilji flytja út fersk flök. Ég heyrði í fréttaþætti í Noregi fyrir nokkrum vikum að það er alveg það sama sem Norðmenn ætla að gera. Þeir ætla að græða á því að flytja fersk flök á markaðinn og hvernig verður þetta þá? Verður ekki framboðið allt of mikið? Getur það ekki farið eins og í sumar þegar Færeyingar fóru að flytja karfaflökin á þýska markaðinn? Það þurfti ekki meira til. Sá markaður hrundi. Ég er sannfærður um að þau ákvæði sem eru í EES-samningnum um frelsi í viðskiptum og hömlur á því að setja skorður við útflutningi muni hitta okkur fyrir að lokum. Við munum ekkert komast upp með það að stjórna útflutningi með þeim hætti sem við höfum gert. Það eru það skýr ákvæði í EES-samningnum um þá hluti og ég vil vitna í þau ákvæði, með leyfi forseta. Samkvæmt 53. gr. samningsins er bannað að skammta vörur inn á markaðinn.
    ,,Eftirfarandi skal bannað og talið ósamrýmanlegt framkvæmd samnings þessa: allir samningar milli fyrirtækja, ákvarðanir samtaka fyrirtækja og samstilltar aðgerðir sem geta haft áhrif á viðskipti milli samningsaðila og hafa að markmiði eða af þeim leiðir að komið sé í veg fyrir samkeppni, hún sé takmörkuð eða henni raskað á því svæði sem samningur þessi tekur til, einkum samningar, ákvarðanir og aðgerðir sem:
    a) ákveða kaup- eða söluverð eða önnur viðskiptakjör með beinum eða óbeinum hætti;
    b) takmarka eða stýra framleiðslu, mörkuðum, tækniþróun eða fjárfestingu;
    c) skipta mörkuðum eða birgðalindum;
    d) mismuna öðrum viðskiptaailum með ólíkum skilmálum í sams konar viðskiptum og veikja þannig samkeppnisaðstöðu þeirra; . . .  ``
    Ég er ekki í vafa um að magntakmarkanir á útflutningi og allar ráðstafanir sem hafa samsvarandi áhrif munu verða stöðvaðar þegar til lengdar lætur og þá lendum við í því að verð mun lækka á mörkuðum okkar. Ég ætla ekki að spá um það hver sú lækkun getur orðið. Þjóðhagsstofnun hefur reynt að spá í þessi spil og ég er með skýrslu sem hún gaf út á árinu 1991 og þar koma fram mjög athyglisverðar hugmyndir um það hvað það sé mikið sem við höfum grætt á því á undanförnum árum að stjórna útflutningnum hjá okkur. Þá geta menn velt því fyrir sér hverjir tapi eftir að við hættum að geta stjórnað útflutningnum.
    Ég vil ræða nokkuð um þann fyrirvara sem mikið hefur verið haldið á lofti um fjárfestingu í sjávarútvegi. Ég ræddi það nokkuð við 1. umr. en ég vil bæta við örfáum atriðum í sambandi við það. Ég tel að það sé að sýna sig enn betur eftir að umræðurnar um þennan samning urðu meiri að þessi fyrirvari um fjárfestingu í sjávarútvegi, sérstaklega í fiskiðnaði mun ekki standast. Hann mun falla mjög fljótlega, ég er ekki í vafa um það. Það er af mjög einföldum ástæðum. Það kann að vera að hægt verði að halda þessum fyrirvara um einhvern tíma a.m.k. gagnvart útgerðinni sjálfri en ekki gagnvart fiskvinnslunni af einfaldri ástæðu og hún er sú að það verður viðurkennt að erlendir aðilar geti komið inn í viðskipti með fisk. Um leið og honum er landað á fyrsta stigi, þ.e. á markað, þá hafa útlendir aðilar leyfi til þess að kaupa fiskinn. Dettur mönnum virkilega í hug að Íslendingar geti staðið á því til lengdar að banna útlendingi, sem hefur keypt fisk á íslenskum markaði, að vinna hann á Íslandi og væri það yfirleitt talið skynsamlegt? Ég tel það ekki vera. Ég tel að þessi fyrirvari sé ónýtur og hann muni sýna sig fyrr en varir ef samningurinn verður að veruleika.
    Kannski ætti maður fyrst og fremst við þessi kaflaskil í EES-umræðunni að ræða um það hversu samningurinn er orðinn ótrúverðugur. Í upphafi umræðunnar var þó hægt að halda því fram að þetta yrði samningur sem mundi duga í einhvern tíma. En smám saman hefur verið að koma í ljós að enginn trúir á þennan samning nema Íslendingar. Hann er ekki frambúðarlausn fyrir neinn nema Íslendinga. EB hefur lofað því að fara í samningaviðræður við alla samningsaðilana um það að hætta í félaginu. Hvað væri eðlilegra en að Íslendingar segðu við EB í dag: Nú viljum við fá tryggingu fyrir því að við eigum samninga við ykkur um öll þessi mál sem hafa verið til umræðu og búið er að semja um í sambandi við EES-samninginn. Við erum búnir að samþykkja það að setja á viðræður við alla aðilana sem áttu að vera með okkur í félaginu. Ætlið þið að skilja okkur eftir? Mundu menn yfirleitt láta sér detta í hug að gera svona samninga sem enginn botn sést fram undan í til lengri tíma litið? Eru menn yfirleitt að gera viðamikla samninga af þessu tagi milli ríkja sem eiga ekki sjáanlegan meiri gildistíma fram undan en þann sem við sjáum fyrir okkur núna? Eða eigum við ekki að trúa því að meining sé í því bæði í umsóknunum hjá þeim ríkjum sem hafa sótt um aðild að EB og því að EB hefur samþykkt að hefja þessar viðræður? Ef við gefum okkur að þar sé full meining á bak við, en ég tel enga ástæðu til annars, þá hljótum við að verða að líta á þennan samning sem algera bráðabirgðalausn og sem bráðabirgðalausn er hann auðvitað fáránlegur. Þess vegna hlýtur að vera eðlilegt að þingið kanni það nákvæmlega hvort ekki er kominn flötur upp þar sem langflestir þingmenn hljóta að geta orðið sammála um það að fara að vinna að þeirri lausn sem eigi að taka við af EES-samningnum þrátt fyrir þann ágreining sem er um það hvort hann eigi að verða að veruleika eða ekki.
    Ég er ekki viss um að það sé svo langt á milli skoðana margra hverra í þinginu um það hvað eigi að taka við ef marka má a.m.k. þær yfirlýsingar sem menn hafa gefið um það að þeir hafi engan áhuga á því og telji það ekki þjóna hagsmunum Íslendinga að ganga í EB. Meiri hluti virðist vera fyrir einhvers konar tvíhliða samningum við EB og það virðist nú vera það stutt í þá samningagerð að full ástæða sé til þess að fara að huga að henni í alvöru jafnvel þó svo að menn greini á um þann samning sem hér liggur fyrir eins og ég sagði áðan.

    Margt í þessum samningi, sem hefur komið fram, væri auðvitað gaman að ræða og athyglisvert að taka til umræðu í þinginu. Það hefur verið mikið gagnrýnt að menn taki sér of langan tíma til að ræða málin. Út af fyrir sig held ég að það sé nú ekki gagnrýni sem menn eigi að láta á sig fá, en ég mun ekki eyða tíma þingsins mjög lengi vegna þessarar umræðu. Ég get þó ekki að mér gert að nefna örfá atriði í viðbót.
    T.d. fannst mér undir þeirri ræðu sem hv. 11. þm. Reykv. hélt áðan þegar hann rökstuddi fyrir okkur af hverju hann ætlaði að sitja hjá í þessu EES-máli bera mikið á því sem ég vil kalla nauðhyggju. Menn telja að Íslendingar hafi ekki átt neinna kosta völ annarra en ganga til þessara samninga. Aðalrökstuðningurinn liggur í því að við fáum svo mikil tollfríðindi vegna sjávarútvegsins. Er ástæða til þess að taka þetta svona alvarlega? Eða hvers konar viðsemjendur erum við að tala hér um? Af hverju eigum við að óttast að við EB-ríkin ein sé nánast ekki hægt að gera eðlilega samninga um viðskipti með fisk? Við höfum verið að gera viðskiptasamninga við önnur ríki um fríverslun með fisk. Hver segir að að hafi ekki verið hægt að gera slíka samninga við EB? Úr því að menn voru komnir í þau spor að vera tilbúnir til þess að gera samninga eins og þann sem við eigum eftir að ræða í þinginu, þennan tvíhliða samning um aðgang að landhelginni og ,,skipti á veiðiheimildum``, þá tel ég alveg víst að við hefðum getað fengið samning um niðurfellingu tolla með svipuðum hætti og hann liggur fyrir í dag. Ég held því að í raun og veru hefðum við ekki þurft að leggja okkur eftir þessum EES-samningi til að fá þessar tollaniðurfellingar sem liggja nú fyrir handa okkur Íslendingum. Að óreyndu tel ég a.m.k. ótrúlegt að þær stóru viðskiptaþjóðir okkar sem þarna eiga hlut að máli séu miklu erfiðari og neikvæðari viðsemjendur en aðrar þjóðir sem við erum að semja um slíka hluti við. Ég tel þess vegna að það sé ekki viðbára sem hægt sé að taka gilda að hér hafi ekki verið hægt að semja um betri kjör við EB. Ég tel ekki rétt og mjög óeðlilegt að bera núgildandi fyrirkomulag á tollum saman við það sem á að taka við ef EES-samningurinn verður að veruleika og segja: Ef við skrifum ekki undir EES-samninginn, þá fáum við ekki neitt af þessu. Það er fráleitt og í raun og veru í ósamræmi við það sem við höfum samið um áður við þessi ríki. Aðallínan í tollasamningnum, svokallaðri bókun 6, eru ekki háir tollar. Þeir eru 3,7%. Það er aðaltollaprósentan þar. Svo eru fáar undantekningar með hærri tollum sem hefur ekki tekist að semja um fram að þessu vegna þess að við höfum ekki viljað hleypa skipum frá EB inn í íslensku landhelgina. Ég tel að þegar komið var að þeim straumhvörfum að menn voru tilbúnir til að ræða um það hafi í raun og veru verið möguleiki á að semja við EB um niðurfellingu tolla og jafnvel án þess að ganga svo langt sem gert hefur verið.
    En fljótlega fer fram 2. umr. um sjávarútvegssamninginn og þá er hægt að fara yfir hann. Ég tel að hann sé með ólíkindum lélegur og geti reyndar ekki verið annar rökstuðningur fyrir honum en sá að þeir sem hann gerðu hafi talið sig vera að kaupa eitthvað annað en það sem í honum stendur.
    Það er annars furðulegt að velta fyrir sér í sambandi við þessi mál afstöðu EB til sjávarútvegsmála hjá okkur Íslendingum, ef hún hefur þá verið eins hörð eins og okkur hefur verið gerð grein fyrir, eins örsmá og sjávarútvegsmálin eru í efnahagskerfi EB þar sem um er að ræða 0,14% af þjóðarframleiðslu þeirra þegar 16% af okkar þjóðarframleiðslu er í sjávarútvegi. Ég sé ekki fyrir mér að það hafi verið forsenda fyrir því að EB héldi út þessari hörku í samningaviðræðum við okkur um niðurfellingu á tollum nema vegna þess að menn vildu ekki að Íslendingar ynnu þennan slag. Svo langminnugt er kerfið. Að þessi litla þjóð skyldi berjast með þeim hætti sem gert var í landhelgismálinu og vinna þann sigur sem þar vannst, er ekki enn gleymt. Menn vilja þó í litlu sé hefna sín eða ná einhverju af því til baka og þess vegna erum við nú að fá hluta af flota EB inn í íslensku landhelgina ef sú ríkisstjórn sem nú situr fær vilja sínum framgengt.
    Ég vil gera það að mínum lokaorðum, virðulegi forseti, að segja: Vaxandi líkur eru á því að þau ríki sem hafa undirbúið samninginn um EES með okkur gangi í EB og þar með þurfa þau að ganga strax í það verk að leysa það mál með öðrum hætti. Það er með ólíkindum að samningur sem er slíkur að stærð og umfangi og þessi sé til alvöruumræðu þegar allir aðilar sem eiga hlut að honum nema tvö örsmá ríki eru ákveðin í að finna aðra lausn sinna mála. Raunverulegur gildistími samningsins sem lausn á málum Íslendinga er því í algerri óvissu. Fylgjendur hans sem hafa haldið því fram að samningurinn muni færa okkur mikinn ávinning hljóta að verða að viðurkenna að við verðum að leita annarrar lausnar nú. Sú lausn þarf að vera tiltæk um leið og þörf verður á.
    Það er hreint ekki víst að menn muni greina eins mikið á um leiðir til lausnar á málum okkar og nú mætti halda vegna umræðunnar um EES. Flestir virðast sammála um að aðild að EB komi ekki til greina. Það virðist þess vegna vera möguleiki á víðtækri samstöðu um að leita eftir tvíhliða samningi við EB sem kæmi í stað EES-samningsins. Það virðist augljóst að EB-ríkin muni viðurkenna að Íslendingar geti ekki gert ráð fyrir að EES-samningurinn dugi þar sem þau hafa samþykkt að hefja samningaviðræður við öll stærstu EFTA-ríkin um aðild að EB. Við þurfum þess vegna ekki að óttast að EB-ríkin taki ekki vel beiðni okkar um viðræður um tvíhliða samning.
    Ég hvet sem sagt til þess að menn fari að íhuga næsta skref. Það kann vel að vera að það verði engin önnur leið en að hætta að rífast um þennan EES-samning og útkljá hann að lokum með atkvæðagreiðslu í þinginu sem ég tel í raun og veru hið mesta óráð. Það ætti að leggja þennan samning nú þegar til hliðar og vinna að víðtækri samstöðu um framhaldið vegna þess að það ætti að vera orðið hverjum manni augljóst að það er engin framtíð í EES-samningnum.