Evrópskt efnahagssvæði

92. fundur
Mánudaginn 04. janúar 1993, kl. 16:36:36 (4264)

     Sturla Böðvarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. 3. þm. Vesturl. lýsti miklum efasemdum um ágæti þess samnings sem hér er til umræðu og kom það út af fyrir sig ekki á óvart. Hann lýsti því m.a. að það væri ekki fyrirhafnarinnar virði að fá möguleika til þess að fara inn á markaðinn sem samningurinn gerir ráð fyrir og það væri einungis á færi risafyrirtækja að berjast á þeim markaði. Auðvitað er þetta fjarri lagi.
    Það sem vakti hins vegar athygli mína voru vangaveltur hv. þm. um það hvort ástæður væru til að hafa uppi fyrirvara um fjárfestingu erlendra aðila í sjávarútvegi. Ég gat ekki heyrt að hann væri á móti því að erlendir fjárfestar kæmu inn í sjávarútveginn. Hann velti þessu mjög fyrir sér en það kom ekki fram.
    Ég hefði mikinn áhuga á að heyra hvort það sé virkilega svo að hv. 3. þm. Vesturl. telji æskilegt og af hinu góða að erlendir aðilar hefji fjárfestingu í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum og þeir fái heimild til þess að koma inn í útgerð og fiskvinnslu. Það vakti a.m.k. sérstaka athygli mína og væri mjög fróðlegt að heyra afstöðu þingmannsin varðandi það atriði.
    Það hljóta að vakna mjög margar spurningar þegar við þingmenn hlustum á allar þær efasemdaraddir sem koma fram hjá hv. stjórnarandstæðingum. Ef þingmenn telja að e.t.v. hefði í tvíhliða samningum mátt ná betri árangri með því að fórna einhverju af meginhagsmunum okkar í sjávarútvegi, þá tel ég að vörnin sé orðin afar hæpin hjá hv. þm.