Evrópskt efnahagssvæði

93. fundur
Þriðjudaginn 05. janúar 1993, kl. 10:32:50 (4271)

     Hjörleifur Guttormsson (um þingsköp) :
    Virðulegur forseti. Ég kveð mér hér hljóðs um þingsköp vegna þess máls sem er á dagskrá þingsins í dag, frv. til laga um Evrópskt efnahagssvæði. Tilefnið er það sem ég vil beina til hæstv. forseta að krafan um það að ræða þetta mál í þinginu nú að loknu jólahléi er byggð á því af hálfu ríkisstjórnar ekki síst að fram undan sé í þessum mánuði ríkjaráðstefna eða ráðstefna diplómata milli Evrópubandalagsins og EFTA um samninginn um Evrópskt efnahagssvæði. Hæstv. utanrrh. sagði við umræðu 21. des., um það leyti sem frestað var umræðu um þetta mál eða í aðdraganda þess, þar sem ræddar voru fréttir af fundi utanríkisráðherra Evrópubandalagsins að líkur væru á því að boðað yrði til ríkjaráðstefnu þegar í janúarmánuði og vitnaði í því sambandi til danska utanríkisráðherrans sem fer með formennsku í ráðherraráði Evrópubandalagsins frá áramótum.
    Nú hef ég um það upplýsingar frá Brussel á þessum morgni að það sé ekkert á dagskrá hjá framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins sem hefur málið með höndum í framhaldi af fundi utanríkisráðherranna og átti að þreifa á möguleikum til samkomulags, að það sé ekkert á dagskrá að halda slíka ráðstefnu í þessum mánuði og það geti ekki verið á dagskrá hjá Evrópubandalaginu vegna þess að framkvæmdastjórnin hefur ekki umboð til þess að fjalla um málið, til þess að semja um málið, og það getur fyrst verið að loknum næsta fundi utanríkisráðherra Evrópubandalagsins 1. febr. nk. að slíkt umboð fengist og er þó í algjörri óvissu.
    Ég tel, virðulegur forseti, að það sé mjög einkennilegt að við séum hér að ræða þetta mál og það sé sett á dagskrá þingsins þegar þær upplýsingar sem frá hæstv. utanrrh. og ríkisstjórn koma um þetta mál reynast ekki traustari en þetta ber vitni sem ég hef rakið hér. Ég vil skora á hæstv. forseta og forsætisnefnd þingsins að fara yfir þetta mál í ljósi þessa, rangra upplýsinga af hálfu ríkisstjórnarinnar um stöðu málsins hjá Evrópubandalaginu, og yfir það verði farið.
    Ég tel líka, virðulegur forseti, og vil nefna það hér áður en ég lýk máli mínu að það sé einkennilegt, svo ekki sé dýpra í árinni tekið, að ætla að afgreiða hér frá Alþingi lög sem hafa ekkert gildi í reynd. En það er ljóst að það frv., sem hér er rætt og er á dagskrá þingsins, hefur í raun ekkert gildi og er það hugmynd þeirra sem bera þetta frv. fram við þingið, að leggja það fram við forseta Íslands, eins og stjórnarskrá kveður á um hálfum mánuði eftir að atkvæðagreiðsla færi fram að lokinni 3. umr., að staðfesta lög sem í rauninni hafa ekkert gildi í reynd. Ég tel óhjákvæmilegt að yfir þessi efni verði farið og skora á hæstv. forseta að gera það hið allra fyrsta og að hafa samráð og funda um það í forsætisnefnd þingsins.