Evrópskt efnahagssvæði

94. fundur
Miðvikudaginn 06. janúar 1993, kl. 11:20:02 (4345)

     Tómas Ingi Olrich (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. síðasti ræðumaður beindi orðum sínum nokkuð til mín og er ekki nema gott eitt um það að segja. Ég ætla ekki að fara út í þá sálma að leiðrétta misskilning þingmannsins á orðum mínum um sjálfsþurftarbúskap. Ég ætla benda honum bara á að lesa ræðu mína í Alþingistíðindum betur. Ég vil líka taka það fram að það er að bera í bakkafullan lækinn að skýra út viðhorf mín til landakaupanna í þessu máli, það hef ég gert hér þegar. Ég vil hins vegar taka það skýrt fram, að hv. þm. virðist hafa misskilið megininntak ræðu minnar hér í gær. Ég hef ekkert haldið því fram að Kristín Einarsdóttir væri ekki andvíg aðild að EES. Hún hefur gert þá afstöðu sína mjög skýra og greinargóða. Hún hefur einnig gert grein fyrir því að hún telji að EES-samningurinn standist ekki stjórnarskrána. Þetta er allt saman ljóst og um þetta greinir okkur á og við því er ekkert að gera.
    En það sem ég vildi að kæmi fram hér í ræðu minni í gær, og taldi hafa sagt mjög skýrt, er að afstaða stjórnarandstöðunnar til valdaframsals hefur breyst í meðförum þingsins. Áður var talað um að með þessum samningi værum við að afsala okkur sjálfstæði og vega að fullveldi þjóðarinnar en það er ekki lengur sagt. Í ræðu sinni áðan skýrði hv. þm. ekki afstöðu sína til valdaframsalsins. Mér finnst það nokkuð undarlegt að þingmaðurinn sem er andsnúinn því meinta valdaframsali sem í EES er fólgið, skuli beita sér fyrir því að skapa svigrúm til þess sama valdaafsals með því að gera tillögu um breytingu á stjórnarskránni. Og það kom alveg skýrt fram í umræðum hér í þinginu áður að hún hefur sagt í þingræðu og ég vitna í þetta, með leyfi forseta: ,,Ég tel að ef frumvarpið``, það er verið að tala um stjórnlagafrumvarpið, ,,yrði samþykkt væri hægt að samþykkja samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með meirihlutasamþykkt á Alþingi, þ.e. með 3 / 4 hlutum atkvæða.`` Og síðan bætti hv. þm. við: ,,En með því að beita 21. gr. stjórnarskrárinnar væri hægt að framselja vald á mjög takmörkuðu og afmörkuðu sviði til stofnana eða samtaka sem Ísland væri aðili að.`` Þetta er það sem þingmaðurinn sagði og ég tel að þarna hafi komið fram að hann er ekki formlega séð andsnúinn þessu valdaframsali.