Samningar við EB um fiskveiðimál

95. fundur
Fimmtudaginn 07. janúar 1993, kl. 11:01:14 (4417)

     Frsm. meiri hluta utanrmn. (Björn Bjarnason) (andsvar) :
    Herra forseti. Ég get verið sammála mörgu af því sem fram kom í ræðu síðasta hv. þm. þótt ég sé ósammála þeirri niðurstöðu hans að hafna beri þeim samningum sem hér liggja fyrir. Ég vil aðeins spyrja hv. þm. vegna þeirrar niðurstöðu sem kemur fram í áliti minni hluta utanrmn. þar sem gefið er til kynna að það hafi komið til greina á sínum tíma að semja um gagnkvæmar veiðiheimildir við Evrópubandalagið á þeirri forsendu að um væri að ræða kolmunna í slíkum samningum. Ég get ekki lesið álit minni hluta utanrmn. með öðrum hætti en þeim að þar sé gefið til kynna að það hafi einhvern tímann staðið til að semja um skipti á gagnkvæmum veiðiheimildum varðandi kolmunna. En í ágætri grein sem hv. síðasti ræðumaður ritaði í DV 20. júní 1991 ræðir hann um nauðsyn þess að samið sé við Evrópubandalagið um samvinnu á vísindasviðinu, að semja um skiptingu sameiginlegra stofna. Þar á hann einkum við kolmunna eftir að Grænland gekk úr Evrópubandalaginu. Og síðan segir: ,,Þá hefur sá möguleiki verið ræddur hvort skipta megi á jafngildum veiðiheimildum ef gagnkvæmur áhugi og hagur væri fyrir hendi.``
    Ég get ekki skilið þetta á annan veg en þann að hann líti þannig á að það þurfi að skipta sameiginlegum stofnum eins og kolmunna, og áform eru uppi um það samkvæmt þessum samningum, og síðan þurfi að semja um gagnkvæmar veiðiheimildir. ,,Jafngildar`` stendur og það er það sem hv. ræðumaður setur fyrir sig í andstöðu sinni við þá samninga sem nú liggja fyrir að ekki sé um jafngildar veiðiheimildir að ræða. Það er mjög umdeilanlegt atriði eins og fram hefur komið. En ég sé ekki annað en að í þeim samningum sem fyrir liggja sé í einu og öllu farið að því sem hv. ræðumaður lagði til að gert yrði í grein sinni í DV 20. júní 1991.