Evrópskt efnahagssvæði

96. fundur
Fimmtudaginn 07. janúar 1993, kl. 21:56:24 (4446)


     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Góðir áheyrendur.
         Það er langur gangur
         fyrir hann svanga Manga
         að bera þang í fangi
         fram á langa tanga.
    Eitthvað á þessa leið hljóðar vestfirskur húsgangur sem ég heyrði í æsku og var beitt á okkur nemendur í skóla í sambandi við stafsetningarkennslu. Mér hefur oft komið hann í hug þegar ég hef hlýtt á hæstv. utanrrh. halda hér sínar eldmessur yfir okkur þingmönnum undanfarin fjögur ár um aðalhugðarefni sitt, Evrópskt efnahagssvæði.
    Það hefur verið ,,langur gangur`` sem ráðherrann hefur lagt í í sambandi við þennan samning og hann hefur ekkert dregið af sér, en hann hefur ekki lagt leið sína út á íslensk annes heldur til útlanda og að því er best er vitað verði bærilega haldinn. Í staðinn fyrir ilmandi þang hefur fyrrverandi skólameistari sáldrað á borð okkar þingmanna blöðum úr reglugerðarfrumskógi Evrópubandalagsins sem safnast hafa upp á skrifstofum okkar nú að undanförnu. Þó var ekki betur að verki staðið en svo að við upphaf 2. umr. þessa máls um miðjan desember fengum við meira en hálfs metra stafla á þykkt í fyrsta sinn úr þessum reglugerðarfrumskógi. Þannig er staðið að málum af hæstv. ráðherra, þannig hefur verið haldið á þessu máli af ríkisstjórninni að við höfum verið að fá málskjölin alveg fram undir þetta og sum eru ekki enn þá komin á íslenskt mál. Og það er von að talað sé um að það hafi verið haldið uppi málþófi í fjóra mánuði, eins og talað er um, þegar sum málskjölin liggja í raun ekki fyrir Alþingi Íslendinga við lokaafgreiðslu þessa máls.
    Hæstv. forsrh. orðaði það á þá leið að sá samningur sem hér er stefnt að að lögfesta sé ekki klæðskerasaumaður fyrir einstakar þjóðir og einstök ríki. Það var vægt til orða tekið. Hver er kjarninn í þessum samningi? Við erum með honum að lögfesta reglugerðir, lög og reglur Evrópubandalagsins alla götu frá 1957 á einu bretti, að 3 / 4 hlutum, og við á Alþingi Íslendinga eigum þess einan kost að segja já eða nei við þessum bunka. Það kæmi mér ekki á óvart þó að samviskan væri ekki allt of góð hjá sumum þeirra 32 þingmanna sem greiddu atkvæði með þessum samningi við 2. umr. málsins.
    Kraftar Alþingis og íslenska stjórnkerfisins hafa um árabil farið í það að glíma við þennan frumskóg og reyna að vinna sig fram úr honum, en þetta er þó aðeins forsmekkurinn að því sem koma skal því áfram munu berast inn á borð okkar alþingismanna lög sem ákvörðuð hafa verið af Evrópubandalaginu og það bíða í pípunum um 200 slíkar gerðir sem við eigum von á að fá ef þessi samningur verður samþykktur og það mun halda áfram að berast hingað og verkefni Alþingis verður að segja já eða nei og ef við leyfum okkur að andæfa eigum við von á refsingu í staðinn.
    Þetta er staðan sem okkur er búin, en það eru ekki aðeins þessar gerðir Evrópubandalagsins heldur samanlagðir dómar Evrópudómstólsins sem okkur er gert að nota við framkvæmd þessa samnings ef hann yrði hér lögtekinn. Þessir dómar eru ekki komnir á íslenskt mál þrátt fyrir að íslensk lög kveði svo á um að það skuli gert. Og hvert er svo baksvið þessa máls? Það er stórveldapólitíkin, það er samkeppni iðnaðarstórveldanna í heiminum sem eru að reyna að þjappa í kringum sig í blokkir einstökum ríkjum og draga þar einnig inn smáþjóðir til að bæta sína samkeppnisstöðu, til að bæta vörum á ofmettaðan markað hins ríka hluta heimsins á kostnað hinna fátæku. Hér er verið að ganga gegn þeim sjónarmiðum, sem flestir viti bornir og hugsandi menn viðurkenna að sé málefni dagsins, að líta á umhverfismálin og þann voða sem samfélagshættir iðnaðarríkjanna eru að leiða mannkynið í --- hinn ríka hluta mannkyns á kostnað hins fátæka. Ætlum við Íslendingar að skipa okkur í þessa sveit? Er það sú framtíð sem við teljum að okkur sæmi? Hvað segir umhvrh. sem sat ráðstefnuna í Ríó? Hann hafði vafalaust eyrun þar opin. Það var ekki slíkur boðskapur sem þar hljómaði hjá langflestum fulltrúum á þeim vettvangi.
    Nei, góðir Íslendingar, við eigum annarra kosta völ, þvert á móti því sem hæstv. utanrrh. sagði í ræðu sinni áðan. Hann sér ekkert nema Evrópskt efnahagssvæði og síðan inngöngu í Evrópubandalagið. En Ísland á góðra kosta völ, m.a. vegna landfræðilegrar legu sinnar, miðlægt á Norður-Atlantshafi, með ríkustu fiskimið allt í kringum landið og nágrannaþjóðir sem við þurfum að bindast samtökum við til þess að vernda þessar auðlindir, gætum þess að þær verði ekki ofnýttar eða þeim spillt af mengun, en ekki að opna þær fyrir því stórveldi í Evrópu sem hefur þegar spillt fiskimiðum, ekki aðeins á heimaslóð heldur víða um álfur. Það er það sem er m.a. að gerast vegna þessa samnings. Erum við með því að gjalda þakkarskuldina því fólki og þeim forustumönnum sem færðu út íslensku landhelgina á áttunda áratugnum og brutu á bak aftur ofríki þeirra ríkja sem ætluðu að setja viðskiptabann á Íslendinga ef við hreyfðum okkur í landhelgismálum?
    Nei, við eigum góðra kosta völ ef við kunnum að halda á því, en við nýtum ekki okkar stöðu ef við ætlum að halla okkur að öðrum aðilanum, að öðru stórveldinu austan Atlantshafsins og gætum þess ekki að við þurfum að rækta samskipti sem smáþjóð til allra átta. Það gerum við ekki með því að binda okkur inn í Evrópska efnahagssvæðið og enn síður með því að gerast aðilar að Evrópubandalaginu.
    Við þurfum að gæta okkar nú, við megum ekki láta skammsýna hagsmuni ráða. Þó að einhverjir sjái einhverja gróðavon, þá má það ekki vera falt fyrir sjálfstæði þessarar þjóðar, fyrir möguleika hennar í langri framtíð. Það eru slík siglingaljós sem við Íslendingar þurfum á að halda en ekki upphrópanir

hrokafullra ráðherra sem segja þjóðinni að það komi lausnir á þá vanrækslu sem núverandi ríkisstjórn stendur fyrir í atvinnumálum þessarar þjóðar og á flestum sviðum þjóðlífsins og ætlar nú að fá leyst með því að vísa inn í Evrópskt efnahagssvæði. Þar væri atvinnuna að hafa, fólkið bíður fyrir utan, segir utanrrh. Ja, svei! Í Evrópubandalaginu eru 16 milljónir atvinnuleysingja og 2 milljónir munu bætast í hópinn að mati efnahagskommissarsins Hennings Christophersens á næsta ári einu saman, a.m.k. Þetta er nú sá garður, þetta er nú sú blómabrekka, svo ég noti orð varaformanns Framsfl. sem styður í reynd þennan samning með því að sitja hjá á Alþingi Íslendinga við afgreiðslu hans.
    Já, það er því miður ekki afl hér á Alþingi til að stöðva þetta mál, það þarf að koma til utan að, hugsanlega að það steyti á skeri. Þau hafa verið mörg á leið þessa samnings eða að sú von og krafa yfirgnæfandi meiri hluta þjóðarinnar rætist að henni gefist kostur á að greiða í almennri atkvæðagreiðslu, þjóðaratkvæðagreiðslu, atkvæði um samninginn og segja þannig álit sitt. Það er því miður fólk á Alþingi Íslendinga sem hefur valdið vonbrigðum með hjásetu sinni í þessu máli, fimm þingmenn Framsfl., og það er til að skýla yfir klofninginn hjá þessum flokki sem formaður Framsfl. velur þann kost að hafa einræðu uppi við þessa umræðu og útiloka að sjónarmiðin heyrist. Ég þakka þeim framsóknarmönnum sem standa í ístaðinu í þessu máli, en ég verð að lýsa yfir hryggð og vonbrigðum með þann hóp sem hefur skipað sér í aðra sveit. Hið sama gildir um þingmann Kvennalistans sem lýsti því í áheyrn alþjóðar ekki alls fyrir löngu hvernig hún hefði lent upp á girðingu, setið þar klofvega um hríð en valt síðan ofan í skurðinn handan við girðinguna, EB megin við girðinguna, á meðan hinn hluti þingflokksins hélt sig hinum megin með heilli há og hélt við sína stefnu.
    Nei, góðir Íslendingar, það er nauðsyn að við hugsum okkar gang, þetta eru alvarlegir tímar. Það bjarmar fyrir nýrri öld, uppvaxandi kynslóðir Íslendinga, tugþúsundir eiga undir því komið að við tökum réttar ákvarðanir á Alþingi Íslendinga, að við glutrum ekki niður því sjálfstæði og þeim ávinningum til verndar auðlindar landsins sem feður okkar og afar börðust fyrir fyrr á öldinni. Nordal Grieg, norska skáldið, kvað þann 17. maí 1940, þegar hvað dekkst var yfir í málefnum Noregs vegna innrásar framandi herliðs:
        Sú fullvissa er fædd í oss öllum
        að frelsið sé líf hvers manns,
        jafneinfalt og eðlisbundið
        og andardráttur hans.
    Fram til sóknar, Íslendingar, fyrir sjálfstæði þessarar þjóðar. Oft var þörf, nú er nauðsyn.