Evrópskt efnahagssvæði

96. fundur
Fimmtudaginn 07. janúar 1993, kl. 22:15:58 (4448)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Sá samningur sem hér er til umræðu í kvöld snýst um miklar breytingar í Evrópu, nýja tíma í efnahags- og viðskiptasamvinnu Evrópuþjóðanna. Við þurfum að svara þeirri spurningu, Íslendingar, hvort við ætlum að taka þátt í þessari þróun með einum eða öðrum hætti eða standa utan garðs og það eru miklir hagsmunir sem eru í húfi. Við stöndum djúpum, sögulegum og menningarlegum rótum í Evrópu, en eigi að síður snúast þessir samningar hvað okkur varðar fyrst og fremst um efnahagsleg atriði. Við erum háðir útflutningi, fáar þjóðir eru háðari útflutningi en við Íslendingar. Við flytjum um 3 / 4 hluta af sjávarafurðaframleiðslu okkar inn á markað Evrópubandalagsins og af sjálfu leiðir að þau kjör sem við njótum á þeim markaði hljóta á hverjum tíma að ráða mjög miklu um það hver lífskjör alls almennings í landinu eru á hverjum tíma. Það var þess vegna eðlilegt að við settum fram miklar kröfur í samningunum um Evrópska efnahagssvæðið að því er varðaði íslenskar sjávarafurðir.
    Við fengum þeim ekki öllum framgengt, til að mynda ekki kröfunni um fríverslun með fisk, en við náðum þeim umtalsverða árangri að tryggja 96% tollfrelsi fyrir íslenskar sjávarafurðir inn á þennan mikilvægasta markað okkar og það er umtalsverður árangur og hann bætir stöðu íslenskra atvinnufyrirtækja, sérstaklega í sjávarútvegi, og hann skapar þeim nýja möguleika til markaðssetningar og vöruþróunar.     Ég er ekki að halda því fram að hann muni skila milljörðum króna í einu vetfangi inn í íslenskt þjóðarbú. Að einhverju leyti hljótum við að deila tollalækkunum með neytendum í Evrópu. En hann styrkir stöðu okkar og gefur okkur ný tækifæri.
    Ef við horfum einungis á með hvaða hætti við styrkjum samkeppnisstöðu okkar liggur þetta mál í augum uppi. Ef Norðmenn ganga inn en við ekki njóta þeir lægri tolla, en við þurfum að greiða hærri

tolla sem þýðir að íslensk sjávarútvegsfyrirtæki þurfa að selja afurðir sínar til Evrópu á lægra verði, eða leggja í mikinn herkostnað til þess að ná nýjum mörkuðum annars staðar. Er rétt við þessar aðstæður eins og málum er komið í íslenskum sjávarútvegi að leggja þær byrðar á sjávarútvegsfyrirtækin í landinu, sjávarútvegsplássin, sjómennina og fiskverkafólkið? Ég segi nei. Mér finnst það svar liggja í augum uppi. En þeir sem greiða atkvæði gegn þessum samningi eru reiðubúnir til að leggja þessar nýju byrðar á sjávarútveginn við þær erfiðu aðstæður sem hann býr við í dag. Ég tel það vera rangt. Við eigum að grípa hvert það tækifæri sem gefst til að bæta samkeppnisstöðuna, treysta stöðu útflutningsfyrirtækjanna og bæta þar með afkomu fólksins í landinu.
    Þeir stjórnarandstæðingar sem greiða atkvæði gegn þessum samningi en viðurkenna að í honum felist efnahagslegur ávinningur spyrja einfaldlega hvort hann sé ekki of dýru verði keyptur af því að við séum að gerast aðilar að miklu stofnanabákni og víðfeðmu laga- og reglugerðarbákni. Vissulega er það svo að þessu fylgja stofnanir og nýir lagabálkar, en þessir lagabálkar eru þó í öllum meginatriðum um þau efni sem ekki standa miklar deilur um hér á landi, þó um sumt sé deilt, eins og löggjöf sem við sjálfir höfum frumkvæði að.
    Stofnanir eins og eftirlitsstofnunin gera það að verkum að við sem smáþjóð getum frekar treyst þessum samningi vegna þess að hún tryggir að stórþjóðirnar geti ekki neytt aflsmunar til að víkja settum leikreglum til hliðar.
    Þegar málið er skoðað í þessu ljósi er það mín sannfæring að það sé ekki spurning um að hér sé verið að kaupa efnahagslegan ávinning of dýru verði. Hitt er spurning og það áleitin spurning hvort það yrði ekki of dýru verði keypt í búð reynslunnar að láta þennan ávinning úr greipum okkar ganga.
    Þá er því haldið fram í umræðunni að við eigum að hrökkva frá þessum samningi af því að nú ætli aðrar EFTA-þjóðir að gerast aðilar að Evrópubandalaginu. Það lá að vísu nokkuð ljóst fyrir þegar þessir samningar hófust fyrir mörgum árum að að öllum líkindum stefndi í þetta. Það er ekkert nýtt.
    En kjarni þessa máls er sá að þegar þar að kemur breytist þessi samningur í tvíhliða samning, okkar og Evrópubandalagsins, það er ákjósanleg staða og sennilega sú ákjósanlegasta fyrir okkur. En það væri fásinna að hlaupa nú frá þessari samningsniðurstöðu, sleppa þeim efnahagslega ávinningi sem við höfum af samningnum og gefa öðrum þjóðum, eins og Norðmönnum, tækifæri á meðan til þess að hasla sér völl og ýta okkar fyrirtækjum til hliðar á markaðnum. Við höfum ekki efni á að gefa samkeppnisaðilum okkar, eins og Norðmönnum, slíkt forskot. Þess vegna eru þetta ekki gild rök gegn samningnum sem við erum að fjalla um.
    Samhliða þessum samningi höfum við gert tvíhliða samning við Evrópubandalagið um gagnkvæm skipti á jafngildum veiðiheimildum og erum þar með að ljúka margra ára deilumáli, áratuga deilumáli, við Evrópubandalagið.
    Það hefur verið látið að því liggja í þessum umræðum af nokkrum þingmönnum, þar á meðal hv. þm. Steingrími Hermannssyni, að við séum með þessum samningi að glutra niður þeim mikla ávinningi sem þjóðin vann í áratuga baráttu fyrir útfærslu landhelginnar. Þessi hv. þm., Steingrímur Hermannsson, fór sem forsrh. Íslands í aprílmánuði árið 1990 á fund formanns framkvæmdastjórnar Evrópubandalagsins til að ræða stöðu EES-samninganna og greindi honum þar frá því að Ísland væri reiðubúið að ljúka tveggja áratuga viðræðum um samskiptasamning og gera samning um skipti á gagnkvæmum veiðiheimildum. Nú kemur þessi hv. þm. nokkrum missirum síðar og dróttar því að öðrum að þeir séu að glutra niður ávinningnum af áratuga baráttu fyrir útfærslu landhelginnar. Þetta er ekki stórmannlegur málflutningur. En málið snýst auðvitað ekki um stórmennsku hv. þm. Steingríms Hermannssonar, það snýst um það að málflutningur af þessu tagi sýnir að það er ekki verið að færa fram gild rök gegn þessum samningi.
    Þá hafa nokkrir andstæðingar þessa samnings haldið því fram að í raun og veru feli hann ekki í sér skipti á jafngildum veiðiheimildum. En hvernig höfum við komist að þeirri niðurstöðu að veiðiheimildirnar sem við fáum og þeir fá séu jafngildar? Jú, við höfum beitt mælistiku sem hefur verið í gildi allt frá 1986, verðstuðlum sjútvrn. sem gefnir eru út í reglugerð einu sinni á ári á grundvelli laga og byggjast á markaðskönnun á næstliðnu tímabili áður en þetta er gefið út. Það hefur enginn haldið því fram, fram til þessa, að þessir verðstuðlar hafi mismunað Íslendingum, aukið ágóða sumra útgerðarmanna í viðskiptum en hlunnfarið aðra. En hvers vegna skyldum við allt í einu halda þessum rökum fram nú um þá verðstuðla sem notaðir hafa verið frá 1986 þegar við erum að gera samninga við Evrópubandalagið? Það er auðvitað fjarstæða. Og það er einnig á það að líta í þessu sambandi að við höfum nýlega selt á uppboði Hagræðingarsjóðs aflaheimildir þar sem íslenskir útvegsmenn hafa keypt karfa við verði sem er fyllilega sambærilegt við þessa verðmætastuðla. Hér er því ekki um gild rök gegn þessum samningi að ræða. Við höfum auk heldur tryggt fullkomið eftirlit í þessum samningum, þeir eru þess vegna ásættanlegir fyrir okkur.
    Þessi samningur og samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið í heild sinni munu styrkja íslenskt atvinnulíf, gefa okkur ný tækifæri og við eigum ekki að láta þau úr greipum okkar ganga. Þeir sem greiða atkvæði gegn þessum samningum eru að leggja nýjar byrðar, auknar byrðar á íslenskan sjávarútveg við einhverjar erfiðustu aðstæður sem fyrirtæki í íslenskum sjávarútvegi hafa þurft að glíma við. Það er ekki skynsamleg afstaða, það er ekki afstaða í samræmi við íslenska hagsmuni. Þess vegna eigum við að greiða þessum samningum atkvæði að við erum að skapa ný sóknarfæri.