Evrópskt efnahagssvæði

96. fundur
Fimmtudaginn 07. janúar 1993, kl. 22:32:37 (4450)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Áramót eru nýliðin. Við stöndum á krossgötum um þessi áramót. Við getum fylgt straumnum sem liggur til Evrópusamrunans eða valið okkur aðra leið. Það er mikilvægt að muna að við eigum enn val. Leiðin inn í Evrópusamrunann mun mjög líklega leiða okkur inn í Evrópubandalagið. Það er óraunsæi að ætla annað. Við höfum fengið smjörþefinn af því hvað bíður okkar innan EES. Ef við viljum fá tollaívilnanir verðum við að hleypa skipum Evrópubandalagsins inn í lögsögu okkar. Um annað er ekki hægt að semja. Allt tal um að fiskveiðisamningurinn færi okkar gagnkvæmar veiðiheimildir er þvaður. Það gerir hann ekki. Við tökum áhættu sem ég tel óverjandi.
    Ef við verðum aðilar að EES mun lagasetning í gríðarlega stórum málaflokkum færast úr höndum Íslendinga til fámennisstjórnar í Brussel, dómsvald að nokkrum hluta úr landi og þar munum við kynnast því tilskipana- og stofnanaveldi sem Evrópubandalagið er. Fáir mæla á móti því að þetta bákn er í hæsta máta ólýðræðislegt og áhrif Jóns og Gunnu engin á þær ákvarðanir sem þar eru teknar. Miðstýring og ópersónulegt skrifræði mun ekki tryggja konum aukin áhrif í samfélaginu. Það er þekkt staðreynd að því nær sem fólkið er valdinu, þeim mun líklegra er að konur hafi áhrif. Og hætt er við því að innan EES mundu raunar flestir Íslendingar verða næsta áhrifalausir. Um þetta fékk þjóðin ekki að kjósa. Við hvað eru þeir hræddir sem ekki þorðu að leyfa þjóðinni að kjósa? Og það var rangt hjá hæstv. forsrh. að vilji þingsins og þjóðarinnar væri samur. Andstaða þjóðarinnar er miklu meiri.
    Innan Evrópubandalagsins yrði ófrelsið þó sýnu meira en innan EES, en alvarlegast er þó það að ef við sogumst inn í það verðum við að taka upp fiskveiðistefnu Evrópubandalagsins og missum þar með forræði okkar fiskimiða endanlega. Þessi leið stendur okkur til boða, en við þurfum ekki að velja hana.
    Nú er ráðrúm að hugsa sig um. EES-samningurinn er í uppnámi eftir að Svisslendingar höfnuðu honum. Við vitum ekki hvað ný samningsdrög færa okkur. Við vitum heldur ekki hvort okkur verður boðið með í Evrópuklúbbinn ef við berum gæfu til að hafna fiskveiðisamningnum. Það er alls ekki útilokað því að andstaða við hann er mun öflugri en við EES-samninginn sjálfan.
    En eru þá aðrar leiðir færar? Já, auðvitað. Mér finnst allt of mikil uppgjöf og svartsýni að telja að við eigum ekki annarra kosta völ en að fylgja straumnum. Við eigum að taka okkur tak og ákveða sjálf hvaða framtíð við viljum búa börnum okkar hér á Íslandi. Vaxandi alþjóðasamstarf og alþjóðaviðskipti eru óhjákvæmileg og af hinu góða. Við verðum hins vegar að taka fullt tillit til takmarkaðra auðlinda jarðar, misskiptingar jarðargæða norðurs og suðurs og hafa í huga hvernig samfélag við viljum í framtíðinni. Ætlum við að múra okkur inni með Evrópuþjóðum í miðstýrðum heimi þar sem atvinnuleysingjum fjölgar sífellt og framfarir eru mældar í aukinni neyslu eða ætlum við að freista þess að fá eðlilegan viðskiptasamning við Evrópu, bæði í austri og vestri, án þess að verða hluti af stofnanaveldi?
    Ég held að sú leið sé varasöm að beina of miklum viðskiptum til Evrópu þótt þar hafi hæsta verðið fengist fyrir fiskafurðir okkar að undanförnu. Við getum orðið of háð kaupendum vöru okkar ef við gerum það. Því miður höfum við vanrækt Bandaríkjamarkað að undanförnu og það getur reynst okkur dýrkeypt ef við höfum glatað samböndum þar. Nú er dollarinn á uppleið en Evrópumyntin ótryggari en fyrr. Hvað ætla menn nú að gera? Jafnframt held ég að við ættum að reyna að þreyja þorrann og góuna í Rússlandsviðskiptum. Annars glötum við mikilvægum færum í framtíðinni.
    Ýmis fyrirtæki, m.a. í grennd við Moskvu, eru reiðubúin til að semja við okkur um vöruviðskipti nú þegar. Þetta er hið nýja Rússland. Og við eigum að líta í allar áttir. Ég held að við verðum að halda þessum viðskiptum gangandi. Þau gætu reynst okkur hagkvæm, jafnvel strax og áreiðanlega þegar til lengri tíma er litið. Gleymum því ekki að upphaf viðskiptanna við Sovétríkin sálugu má einmitt rekja til þess að vinir okkar í Evrópu, þ.e. Bretar, lokuðu á viðskipti við okkur og þá snerum við okkur til Bandaríkjanna í auknum mæli. Þessi skipti reyndust okkur góð.
    Nýrra kosta er völ í viðskiptum við Asíu og Suður-Ameríku. Ég nefni þetta sérstaklega vegna þess að mér finnst það uppgjöf og úrræðaleysi að halda að lækkun tolla á fiskafurðum okkar í Evrópu sé það eina sem muni bæta afkomu okkar í framtíðinni.
    Ferðaþjónustan er framtíðaratvinnugrein ef við leyfum henni að dafna, en hún er í ákveðinni hættu ef við förum í EES. Orkulindirnar eru okkar helstu auðæfi. Ef við veljum EES og einkavæðingu samtíma galopnum við dyrnar að þessum auðlindum okkar. Og þetta er stefna ríkisstjórnarinnar.
    Víða í Evrópu eru hópar fólks sem deila þessum skoðunum okkar andstæðinga Evrópusamrunans. Þetta fólk vill aukið samstarf innan Evrópu sem utan og það er innan Evrópubandalags sem utan, en samstarf sem byggir á lýðræði og einstaklingsfrelsi en ekki stofnanaveldi og valdi stórfyrirtækja. Glötum ekki sjálfsákvörðunarréttinum í hendur skrifræðisins heldur tökum höndum saman með þessu fólki og fólki úti

um allan heim og sköpum nýjan og betri heim, nýja og betri Evrópu í sátt við alla heimshluta, í sátt við vistkerfið þar sem framtak einstaklinga og fullveldi þjóða er virt. --- Góða nótt.