Evrópskt efnahagssvæði

96. fundur
Fimmtudaginn 07. janúar 1993, kl. 22:45:54 (4452)


     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Við skulum fara að ráðum hv. þm. Svavars Gestssonar og ræða af yfirvegun þá

gagnrýni sem fram hefur komið á þennan samning í þessum umræðum hér í kvöld. Leyfist mér að byrja á hv. þm. Steingrími Hermannssyni. Hann sagði að það væri rangt að þeim fyrirvörum sem lagt var upp með hefði verið haldið til haga. Staðreyndirnar tala sínu máli, hv. þm. Fyrirvari nr. 1 var: Engar einhliða veiðiheimildir. Það stendur. Fyrirvari nr. 2 var: Engan fjárfestingarrétt í íslenskri útgerð til þess að nýta íslenska lögsögu. Sá fyrirvari stendur. Fyrirvari nr. 3: Ótvírætt forræði Íslendinga yfir okkar eigin fiskveiðilögsögu. Sá fyrirvari stendur. Fyrirvari 4: Orkulindirnar. Sú staðreynd að núverandi fyrirkomulag, einkarekstur opinberra aðila á orkulindunum, brýtur ekki í bága við samninginn þýðir það að sá fyrirvari stendur. Að reistar verði skorður við ótakmörkuðum innflutningi fólks. Öryggisákvæði samningsins tryggir það. Hv. þm. Fyrirvararnir sem lagt var upp með standa allir.
    Hv. þm. sagði: Samningarnir hafa breyst svo mikið frá því að við vorum saman í stjórn. Hvað hefur breyst, hv. þm.? Það sem hefur breyst er að kaflinn um lausn deilumála er breyttur að okkar eigin frumkvæði. Áður var sameiginlegur dómstóll sem gat vakið mönnum efasemdir um framsal á dómsvaldi. Núna er sjálfstæður EFTA-dómstóll sem tekur af öll tvímæli um að svo er ekki. Það er það sem hefur breyst, hv. þm.
    Hv. þm. sagði: Íslenskt atvinnulíf er veikt. Inngangan í EFTA t.d. dugði ekki iðnaðinum. Hv. þm. er formaður í flokki sem var í 20 ár við völd á Íslandi frá 1970 og átti þess vegna að efna þau fyrirheit sem voru gefin. Hver voru þau? Þau voru m.a. að afnema aðstöðugjald á íslenskan iðnað. Við gerðum það nú. Þau voru m.a. að koma á virðisaukaskatti í staðinn fyrir söluskatt. Við höfum komið honum á og breytt honum nú. Skattar á fyrirtæki skyldu lækkaðir til samræmis við það sem gerist hjá samkeppnisaðilum. Það hefur nú verið gert.
    Ég skil það vel þegar ég heyri málflutning þeirra fóstbræðra, hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar og Svavars Gestssonar, hvers vegna þeir minna svo á lærifeður sína, Einar Olgeirsson og Brynjólf Bjarnason. Meira að segja klökkvinn í röddinni þegar þeir fara með landráðabrigslin og slá sig til riddara sem sjálfstæðishetjurnar góðu minnir mig á þegar þeir fóru krossfarirnar gegn Atlantshafsbandalaginu, vafalaust sömu brigslyrðin. Og allir vita að þetta voru ómagaorð, dauð og ómerk. ( SvG: Ég var nú bara þriggja ára þá.) Þegar við gengum í EFTA? Hv. þm. getur ekki borið við bernsku sinni.
    Ég skil líka af hverju þeir hv. þm. í allaballaríinu vilja nú fela formann sinn. Hann gaf nefnilega út heila bók í fjármálaráðherratíð sinni þar sem hann sagði: ,,Heildaráhrifin af aðildinni að EES verða afar jákvæð. Þessi áhrif gætu mælst á bilinu milli 4--6 milljarðar kr. eða sem svarar 1--1,5% af landsframleiðslu.`` Munar um það, hv. þm., á ári hverju? Formaður Alþb. vildi nefnilega telja mönnum trú um það í fyrri ríkisstjórn að það væri komin ný forusta í Alþb. sem gæti dregið þetta fortíðarlið inn í 20. öldina, ef ekki inn í 21. öldina. En nú er hann falinn og þeir sem tala máli flokksins eru fóstbræðurnir tveir, lærisveinar Einars og Brynjólfs. Það var ömurlegur leiðangur inn í fortíðina, verð ég að segja.
    Hvað eru hv. þm. að segja? Þeir segja: Sviss felldi samninginn. Þar af leiðandi er EES dautt. Hvers vegna fara þeir þá hamförum dag og nótt til þess að drepa það sem dautt er? Það væri þokkalegur læknir sem væri búinn að kveða upp dauðadóm jafnoft, spurning hvort ekki ætti að svipta hann læknisréttindunum. Þeir segja: EFTA verður ekki til í framtíðinni. Öll EFTA-ríkin verða komin inn í EB. Þetta er þess vegna ekki varanleg lausn. Er þetta ekki það sem hv. þm. eru að biðja um? Að þetta breytist í tvíhliða samning, að stofnanirnar falli niður og að öllum áhyggjum af því að um sé að ræða framsal á dómsvaldi verði af létt? Á sama tíma eru þeir að segja: Það er alls ekki víst að öll ríkin komist inn í EB. Sjáið þið skoðanakannanirnar. Hver getur treyst því að Norðmönnum takist það eða Svíum eða Finnum? Þá eru þeir að segja að þetta sé varanleg lausn og vissulega er hún varanleg fyrir okkur vegna þess að hún leysir okkar vanda í samskiptum við það markaðssvæði sem tekur við 4 / 5 hlutum af okkar útflutningsvörum. Og ef við fylgjum því eftir með fríverslunarsamningi við Bandaríkin og Kanada, þá má heita að það geti verið varanleg lausn.
    Þeir segja: Þið náðuð ekki fríverslun með fisk. Heyr á endemi. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, sem í tíð fyrri ríkisstjórnar varaði sérstaklega við því að full fríverslun væri vafasöm. Hvað er fríverslun með fisk? Það er ekki bara 100% markaðsaðgangur. Það eru líka samræmdar samkeppnisreglur. Það hefði t.d. þýtt að við hefðum ekki getað beitt magntakmörkunum í útflutningi. Markaðsráðandi sölusamtök hefðu ekki verið leyfð og þróunarsjóður í sjávarútvegi til þess t.d. að létta af honum skuldabyrði hefði vafalaust ekki samrýmst slíkum reglum.
    Þeir segja: Það náðist ekki 100% markaðsaðgangur. Nei, nei. Bara 96%. Nemandi sem gengur upp til prófs en fær 96%, hvað er það kallað? Fyrsta ágætiseinkunn. Það hafa ekki margir náð því.
    Þeir segja: Þetta er fyrsta skrefið inn í Evrópubandalagið. Leyfist mér að vitna, virðulegi forseti, í einn af liðsmönnum Halldórs Ásgrímssonar. Hann nýtur þeirrar virðingar að hafa þá ábyrgðartilfinningu frammi fyrir sinni þjóð að segja ekki við hana og þora ekki að segja við hana: Fellum þennan samning. Það er nefnilega maður sem hefur svolítið inngrip inn í atvinnumál þjóðarinnar og þeir eru fimm eða sex í Framsókn sem fylgja honum að málum. Einn þeirra er hv. þm. Jóhannes Geir Sigurgeirsson. Hann sagði þegar hann gerði grein fyrir hjásetu sinni, virðulegi forseti: ,,Það er skoðun mín að það að fella samninginn á Alþingi á þessu stigi geti skaðað hagsmuni okkar í þeim viðræðum sem fram undan eru auk þess sem það mundi gefa þeim öflum sem vilja sækja um aðild að EB byr undir báða vængi.`` Þetta er framtíðarforingi Framsfl. sem hér talar. ( Gripið fram í: Aumingja Jóhannes.) Jóhannesi skal ég segja það strax að

hann þarf ekki að óttast það að utanrrh. og ríkisstjórnin sé ekki fullfær um það að bera ábyrgð á þessum samningi. Við skulum ekki varpa þeirri ábyrgð á hann. Við tökum það þó til marks um raunsæi að þeir sitja hjá. Það er að vísu ekki ekki stórmannlegt en það er skárra en það fullkomna ábyrgðarleysi að ætla að fella samninginn. Enginn þeirra sem greiðir atkvæði gegn þessum samningi rís undir því að réttlæta það frammi fyrir þjóðinni, sem kvíðir atvinnuleysi í framtíðinni, ef þeim hefði orðið að þeirri ósk sinni.
    Virðulegi forseti. Ég á þá ósk minni þjóð til handa að hún sitji ekki hnípin með vanmetakenndina í andlitinu þegar hún á stórkostlegt tækifæri til þess að tryggja hagsmuni sína til frambúðar. Ég hef þann metnað fyrir hönd minnar þjóðar að hér búi fullvalda þjóð með framtíðarsýn og kjark til þess að mæta framtíðinni sem jafnrétthár aðili í samfélagi þjóðanna.