Evrópskt efnahagssvæði

97. fundur
Föstudaginn 08. janúar 1993, kl. 13:30:20 (4465)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Vegna þeirra ummæla sem hafa fallið um það að hv. þm. Steingrímur Hermannsson talaði einn í útvarpsumræðum og sjónvarpsumræðum um þetta mál held ég að það sé nauðsynlegt til þess að ákveðnir menn verði sér ekki frekar til skammar en orðið er að það sé upplýst að Bjarni Benediktsson talaði eitt sinn einn fyrir hönd flokks síns í slíkum umræðum. Það er nefnilega gott að skoða söguna. Þá var sjálfstæðismönnum mikill vandi á höndum að koma til íslenskrar þjóðar á stuttum tíma því sem þurfti að segja í skýru máli. Það var engin tilviljun að Sjálfstfl. treysti Bjarna Benediktssyni til þess að gera þetta á þann hátt sem þurfti.
    Nú er það aftur á móti sett fram á þann veg að það sé komið svo að menn treysti engum nema sjálfum sér. Þó að þeir menn sem nú eru ungir og vilji veg sinn stóran vilji vissulega leiðbeina þeim sem hafi meiri reynslu og stærri veg að baki enn sem komið er, hvað sem verður, þá mættu þeir gjarnan vanda sig í þeim efnum að haga ekki grjótkastinu á þann veg að þeir séu að grýta eigin leiðtoga löngu eftir að þeir eru horfnir af sjónarsviðinu.
    Hér var varpað fram þeirri spurningu hvernig ákveðinn þingmaður hefði greitt atkvæði í svokölluðu gullskipsmáli. Ég tel það rétt af því að tími er nú naumur þegar að andsvörum kemur að taka það fyrir strax og gera grein fyrir því hvernig ég greiddi atkvæði í því máli. Ég taldi þá ákaflega hæpið að taka veð í sokknum og týndum skipum og átti ekki bjartsýni til að veita því máli stuðning. Ég talaði gegn því og ég greiddi atkvæði gegn því. Það var mín sannfæring. Aðrir trúðu því að skipið væri fundið, aðeins væri eftir að ná því upp. Þeir greiddu atkvæði á annan veg en auðvitað var þessu skeyti sérstaklega beint að Eyjólfi Konráð Jónssyni í gegnum Pál Pétursson. En þeir hafa þá verið jafnir að framsýni í þessu máli, hv. 1. þm. Austurl. og Eyjólfur Konráð Jónsson. ( EKJ: Ég greiddi ekki atkvæði í málinu.) Hv. þm. greiddi ekki atkvæði í málinu en vissulega var það vitað að hann var hlynntur þessu máli en af ákveðnum ástæðum greiddi hann ekki atkvæði í málinu. Ég segi þetta hér og nú vegna þess að það er náttúrlega billegt svo ekki sé meira sagt hjá mönnum sem ekki þurftu þá að taka afstöðu að ætla eftir þessi ár að fara að leggja það sem mælistiku á framsýni manna hvort þeir hafi ekki séð það fyrir hvort skipið fyndist eða ekki og tekið afstöðu eftir sinni sannfæringu sem menn gerðu. Ég verð að segja eins og er að það hefði verið mjög gaman ef þetta skip hefði fundist. Og vissulega vitum við að einhvers staðar þarna niðri er skipið eða leifarnar af því en það er hægara sagt en gert að finna það. ( EKJ: Hver var það sem dró þetta inn í umræðurnar?) Það er rétt að svara því beint að þessi athugasemd kom frá hv. 3. þm. Reykv. og ég leit svo á að hann teldi þetta brýnt mál inn í umræðuna svo mjög sem forustumenn um framgang þessa máls sem hér er á dagskrá hafa lagt á það kapp að ekki mætti tefja umræðuna.
    Þá er vikið að öðru máli sem ekki er komið á dagskrá, herra forseti, en var látið vítalaust að hér væri tekið á dagskrá með þeim hætti að minnast á það af sama þingmanni, hv. 3. þm. Reykv. Birni Bjarnasyni. Það er svokallað þyrlumál. Þetta mál var tekið út úr nefnd fyrir stuttu síðan. Ég hélt að menn hefðu ró til að bíða eftir því að málið kæmi hér á dagskrá, svo er ekki. Enginn nefndarmaður lagðist gegn því að málið færi út úr nefnd. Það voru uppi tvenns konar skoðanir, annars vegar hvort vísa bæri málinu til ríkisstjórnarinnar eða hvort samþykkja bæri málið. Þetta mál er ekki að koma til okkar í fyrsta sinn. Þeir eru margir sem hafa áhyggjur af því að við eigum erfitt með að gæta hagsmuna þegna okkar vítt og breitt á láði og á legi á erfiðum stundum og áhugi fyrir að ná því máli fram hefur verið mikill. Mikill undirbúningur hefur átt sér stað, m.a. í dómsmrn. Öll málskjöl þessa máls eru til staðar.
    Ég verð nú að segja eins og er að mér finnst nokkuð langt seilst í vopnaburði jafnvel þó að innan Sjálfstfl. andi nú nokkuð kalt á milli vegna þeirrar ástæðu að menn hafa ekki fylkt einu liði í því máli sem hér er á dagskrá. ( Gripið fram í: Það er nú víða.) Það er rétt, það er víðar. En vegna þessarar athugasemdar ætla ég að leyfa mér að geta þess hér og nú hvenær mér fannst Ólafur Thors gnæfa hæst sem stjórnmálamaður. Mér fannst hann sýna mestu viðsýnina sem stjórnmálamaður þegar hann bar gæfu til þess sem foringi síns flokks að reyna ekki á nokkurn hátt að einangra þá menn eða ráðast á þá sem neituðu að styðja samstarf Sjálfstfl. við sósíalista. Svo stór var hann á þeirri stundu að honum datt það ekki í hug að ráðast að þeim persónulega eða að veita þeim aðför í kjördæmum þeirra seinna þegar kæmi að framboði. Þó var Sjálfstfl. með því að taka upp samstarf á þeim tíma að brjóta gegn öllum grundvallarlögmálum sem flokkurinn hafði notað í sínum boðskap fyrir kosningar. Þetta vita vona ég allir hinir ungu sjálfstæðismenn

sem hér eru á Alþingi í dag. Þetta vita þeir. Það má vel vera að menn hafi annan skilning á því hvert sé hlutverk foringja en ég. Ég ætla ekki að deila um það. En þessu vildi ég koma á framfæri að gefnu tilefni.
    Ég yfirgaf þennan þingsal eins og fleiri í gærkvöldi með óminn af þeim ræðum sem hér voru fluttar í eyrunum og hélt áfram að horfa á suma ræðumenn í sjónvarpinu eftir að ég var kominn heim. Það ómuðu fyrst og fremst tvær setningar í mínum eyrum en kannski til að rjúfa ekki samhengið vil ég áður en ég kem að því víkja örfáum orðum að hæstv. umhvrh. sem kom hér og ræddi um litasjónvarp og dreifingu sjónvarpsins um landið. Þegar umræðan fór fram um það hvort hér ætti að koma á litasjónvarpi eða ekki lét ég þau orð falla að svart og hvítt væru líka litir. Og ég efaði það að aldrei að það væri rétt að koma hér á litasjónvarpi. Hins vegar hafði ég og hef enn áhyggjur af því hversu litlu máli mönnum finnst það skipta hvort allir Íslendingar fái að horfa á þetta sjónvarp. Þannig standa t.d. málin í dag að í Húnavatnssýslu er svo lélegur sendir á einum stað, ég held að það heiti á Hnjúki, að sjónvarpsskilyrði eru ekki þau sömu á nokkrum bæjum í Strandasýslu og voru áður en þessi ríkisstjórn tók við völdum, hversu mörgum veit ég ekki. Það segir kannski sitt um stöðuna. Landið er að minnka. Það skiptir ekki máli hvert menn dreifa þessu, finnst sumum. Það skiptir ekki máli þó að viss svæði séu höfð út undan. En ég minnist þess aftur á móti að þegar hæstv. umhvrh. var fréttamaður við sjónvarpið þá fór hann vestur á firði, þá fór hann í Súðavík og sem kynningartexta við það sem hann þurfti að leiða hugann að á staðnum var inngangurinn sá að Súðavík hafði fengið vissulega sinn skerf af opinberum stuðningi. Það var inngangurinn. Ég verð nú að segja eins og er að mér hefur stundum fundist að þeir sem valist hafa til þingsetu í gegnum fjölmiðlana hafi e.t.v. flotið dálítið billega inn á Alþingi Íslendinga. Kannski var það þess vegna sem ég greip fram í fyrir hv. 1. þm. Norðurl. v. hér í ræðustól áðan, en ég heyrði ekki rök hans. Það má vel vera að hann viti betur en kom fram í hans máli í þeim efnum.
    Foringjar núv. stjórnmálaflokka sem töluðu í gær, hæstv. utanrrh. lét hér eina setningu falla sem vafalaust verður minnst meðan hann fæst við stjórnmál. Setningin er ekki ný. Setningin er einhver sú elsta sem lifir: Faðir fyrirgef þeim, því þeir vita ekki hvað þeir gjöra. Þessi setning ómaði í mínum eyrum þegar ég yfirgaf þinghúsið. Hæstv. utanrrh. gerði það hér úr þessum ræðustól að biðja fyrir verkalýðsleiðtogum í þessu landi. Bænin var stutt: Faðir, fyrirgef þeim, því þeir vita ekki hvað þeir gjöra. Það er sonur verkalýðsleiðtoga sem þannig talar. Þessi orð eru trúlega þau frægustu sem Kristur lét falla og nánast óskiljanlegt venjulegum mönnum að maðurinn sem kominn var á krossinn fyrir tilverknað andstæðinga sinna skyldi á þeirri stundu biðja fyrir þeim.
    Ég hef vissulega heyrt getið þeirrar kenningar að Kristur muni aftur birtast okkur hér á jörðu og hef óttast það mest að við mundum ekki síður nú en þá þurfa að horfa upp á það að hann verði krossfestur. En það er sami hæstv. utanrrh. sem vill biðja fyrir verkalýðsleiðtogunum með þessu móti og elur með sér von en biður ekki fyrir stjórnendum Ísraelsríkis sem hefur ákveðið og framkvæmt að reka út á eyðisand hóp manna og lætur sig litlu skipta hvort þeir verða þar hungurmorða eða frjósa í hel. Ég vil engin áhrif á það hafa hvernig skaparinn bregst við á efsta degi þegar hæstv. utanrrh. þarf á fyrirgefningu að halda. Að sjálfsögðu liggur ljóst fyrir að ég get engin áhrif á það haft. En það getur ekki verið auðvelt að eiga orðastað við þann mann með rökum og í rólegri yfirvegun sem telur sig svífa í þeirri himinhæð yfir þá sem sitja á Alþingi Íslendinga að honum finnist fyrst og fremst þegar hann vitnar í þessi orð Krists að þá sé hann kominn á þann stað í veraldlegum og andlegum skilningi sem henti honum. Hann sneri sér að vísu ekki að forsrh. til þess að bæta við: Sannlega, sannlega segi ég yður, í dag muntu vera með mér í Paradís. Það kom ekki fram. Það var eitt af því sem við áttum að ráða í að mundi nú gerast fljótlega. En ég hugsaði með mér: Er það e.t.v. svo að hæstv. utanrrh. viti eitthvað meira í þessum fræðum? Ég held að ég viti það rétt að hann hafi ekki verið fermdur en það má vel vera að þrátt fyrir það hafi hann kynnt sér að einhverju leyti þessi fræði og muni líka eftir setningunni: Það sem þið gjörið einum af mínum smæstu börnum það gjörið þið mér.
    Það vill svo til að nú er ætlunin að veita útlendingum frá samfélagi sem hefur um 380 millj. fullt ferðafrelsi til Íslands. Það samfélag býr við mikið atvinnuleysi, svo mikið atvinnuleysi sums staðar að það er ekki ólíklegt að fjölskyldufeður með konu og börn hugsi með sér hvort e.t.v. sé hægt að fá vinnu á Íslandi, setjast þar að og búa börnunum sínum betri heim. Og þá komum við að þeirri spurningu: Hvaða veröld ætlar hæstv. utanrrh. að búa þessum börnum? Við skulum taka eitt dæmi.
    Við skulum segja að til Ísafjarðar flytjist tvær fjölskyldur frá Portúgal, þrjár frá Spáni, ein frá Ítalíu, ein frá Belgíu og ein frá Írlandi. Hæstv. utanrrh. þarf að láta kenna þessum börnum í barnaskólanum. Á hvaða tungumáli ætlar hann að láta kenna börnunum? Hann á valið á milli þess að kenna þeim á þeirra eigin tungumáli eða bíða eftir því að þau læri íslenska tungu eða í reynd að reyna að flýta fyrir því. Við höfum þetta vandamál í dag. Við höfum í þessu landi nokkur hundruð börn í íslenska skólakerfinu sem eru ótalandi á íslenska tungu. Við erum að taka af sérkennslukvóta skólanna fjármuni til þess að sinna þessu verkefni á sama tíma og þeir fjármunir sem fara til sérkennslunnar eru minni en svo að það sé hægt að ráða við markmið grunnskólalaganna með þeim fjárveitingum. Hann lítur ekkert illilega út, hv. 6. þm. Reykn., Karl Steinar Guðnason. Hann er mildur í yfirbragði, hann er verkalýðsleiðtogi, það þarf enginn að ætla að af einhverjum sérstökum illvilja hafi hann gengið þannig frá fjárlögunum sem formaður fjárln. að leggja það til að þessi nokkur hundruð börn sem eru hér á landi, fái kennslu af sérkennslukvótanum. Er trúlegt,

ef þessi börn verða nú ekki nokkur hundruð eins og þau eru í dag heldur nokkur þúsund, að við ráðum við þetta verkefni með vitsmunalegum hætti? Hvaða framtíð er verið að búa þessum börnum? Er verið að taka ákvörðun um það að þau verði einu eða tveimur árum á eftir í skóla? Sjá til þess að þau nái ekki í reynd þeim árangri sem þarf til að hefja framhaldsnám af neinu tagi. Hvar eru svörin við þessu? Ætli hæstv. utanrrh. kannist líka við setninguna: Það sem þér gjörið einum af mínum smæstu bræðrum, það gjörið þér mér. Eða er það tilfellið að hann setji svoleiðis undir sig hausinn í þessu máli að hann hirði ekkert um afleiðingarnar af því að veita 380 millj. frjálsan aðgang til flutninga til Íslands ef þeir geta fengið sér vinnu? Ég veit ekki svarið.
    Þá ætlaði ég að víkja að hinni setningunni sem mér þótti eftirtektarverð. ( Forseti: Forseti vill aðeins ónáða hv. þm. Ætlunin er að gera hérna hádegisverðarhlé milli kl. 1 og 1.30 og forseta dettur í hug að gera það hlé núna áður en hann hefur umræðu um þetta málefni, svo að ekki þurfi að stoppa hv. þm. í miðju kafi nema hann geti lokið því af á 5 mínútum. Hv. þm. getur metið það sjálfur hvort hann vill ljúka máli sínu núna eða eftir 5 eða 10 mínútur.) Ég vil engin áhrif á það hafa hvenær hæstv. forseti telur rétt að hafa hádegisverðarhlé og er reiðubúinn að fresta máli mínu núna áður en ég vík að hinni setningunni. --- [Fundarhlé.]
    Hæstv. forseti. Ég var í ræðu minni kominn að hinni setningunni sem ómaði í mínum eyrum þegar ég yfirgaf þinghúsið í gær og voru ummæli hæstv. forsrh. þar sem hann valdi sér þann kost í vörn og sókn fyrir þessu máli að geta þess að þessi samningur væri ekki klæðskerasaumaður eða klæðskerasniðinn að þörfum einstakra landa. Með þessu móti var hann vissulega að lýsa því yfir að honum væri ljóst að það væru verulegir ágallar á samningnum þó að hann teldi kosti hans meiri og því bæri að samþykkja hann. Ólíkt er þetta nú þrátt fyrir allt skynsamlegri málflutningur heldur en sá sem hæstv. utanrrh. hefur viðhaft.
    Svo sæll og glaður er hæstv. utanrrh. yfir þeim árangri að leyfa erlendum togurum á ný að veiða í íslenskri landhelgi og að íslensk skip veiði í staðinn innan eigin landhelgi loðnu sem ég hefði nú talið að ella yrði okkur og engum öðrum til góðs því ekki færum við að leyfa útlendingum að veiða loðnu innan okkar landhelgi, svo sæll og glaður er hann yfir þessu að þegar upp er staðið og hann er að meta afrek sín í tollamálum og með hliðsjón af því hvað þurfti að greiða fyrir, þá gefur hann sér einkunnina 9,6. Leiðir þetta óneitanlega hugann að því, hæstv. forseti, að trúlega kæmu nemendur miklu betur út ef þeir sæju sjálfir ekki aðeins um að taka prófið heldur líka um fyrirgjöfina. Ég hygg að það sé mjög vænleg leið ef menn vilja ná þeim árangri að geta sýnt háar einkunnir. Ég held nefnilega að hæstv. utanrrh. sé ekki sjálfrátt. Ég held að staða málsins sé orðin sú að hann dvelji í einhverjum undarlegum draumaheimi, þar sem hann er kominn til þeirra himinhæða að því hljóta að fylgja ýmis önnur áhrif sem birtast í því að honum finnst m.a. að það hafi gersamlega gleymst að flytja honum þakkarávarp héðan úr þingsalnum fyrir þessi verk. Ég gerði það til þess að reyna að glöggva mig betur á afstöðu einstakra manna sem töldu að það væri stórt mál að þessi samningur yrði samþykktur að fara yfir hvernig þeir hafa í atkvæðaskýringum um þessi mál orðað hugsun sína þar sem er sameiginlegt að þeir telja mikil sóknarfæri inn á evrópskan markað. Nú er það svo að þessi markaður hefur ekki aldeilis verið okkur lokaður því að við höfum flutt út á hann meira en á nokkurn annan markað vegna samninga sem við höfum áður gert. Þeir samningar hafa fært okkur þá stöðu að við flytjum út um 3 / 4 af okkar útflutningsvörum inn á þennan markað með þokkalegum árangri. Það sem við bætum við er þess vegna keypt fyrir það sem hér er verið að leggja til. Satt best að segja fannst mér nú mest koma fram hjá tveimur hv. ræðumönnum, annars vegar hjá hv. þm. Vilhjálmi Egilssyni. Hann orðar þetta svo:
    ,,Ég tel að þessi samningur færi okkur réttindi á erlendri grund langt umfram það sem við þurfum að láta af hendi og þess vegna styrki okkar fullveldi og treysti okkar sjálfstæði og segi því já.``
    Nú er það svo að það eru engin ákvæði í þessum samningi á þann veg að það megi skilja þau sem hér er verið að tala um. Á bak við yfirlýsingu sem þessa getur ekki búið annað en sú trú að Íslendingar muni í reynd leggja undir sig Efnahagsbandalagið hvað áhrif snertir og minnir það nú enn á söguna því að Vilhjálmur bastarður eða Vilhálmur sigursæli lagði undir sig Bretland að mig minnir 1066 og hvort hér er nú sama Vilhjálmsnafnið á ferðinni eða ekki, þá er sóknarhugrekkið til staðar. Ég tel þetta slíka draumsýn að mig undrar það mjög að hv. þm. Vilhjálmur Egilsson telji það betra fyrir sig að koma þessu á framfæri við atkvæðaskýringu.
    Sé skoðuð atkvæðaskýring Geirs H. Haarde þá vekur það athygli að það er ekki af óskiptri trú á sigur okkar á erlendri grundu sem hann styður þetta mál, heldur líka af ótta. Hv. þm. óttast það hreinlega að eins og segir hér, með leyfi forseta: ,,Viljum við geta boðið ungum Íslendingum sambærileg lífskjör, menntunartækifæri og félagsleg réttindi eins og nágrannar þeirra í Evrópu eða viljum taka áhættuna af því að missa allt okkar besta fólk úr landi?``
    Hér er stórt sagt. Það er landflótti af öllu okkar besta fólki sem blasir við verði þetta ekki samþykkt. Ég verð nú að segja eins og er að þegar menn hafa slíka sýn fyrir sér, þá undrar mig náttúrlega ekki þó þeir styðji ef þeir telja að það sé bara hreinn landflótti atgervisfólks Íslands, besta fólksins, fyrir stafni verði þetta ekki samþykkt.
    Mér finnst að menn gleymi því að Íslendingar hafa hæst komist í það að vera fjórðu í röðinni með þjóðartekjur á mann, Svisslendingar eru í fyrsta sæti. Hæst höfum við farið í fjórða sæti. Hvaða kröfur eru

þessir ungu menn að byggja upp? Vita þeir hver meðallífskjörin eru í Evrópu? Þeir ætla sko ekki að búa við það. Þeir ætla að búa við þau bestu sem til eru og þá er það Þýskaland trúlega eitt eða Svíþjóð sem geta boðið það sem þeir eru að tala um.
    Og hvað segir meira í þessari yfirlýsingu formanns þingflokks Sjálfstfl. sem vert er að vekja athygli á? Hann vill að við höldum okkur með þeim þjóðum sem hafa lýðræði, markaðsbúskap og frjálsræði í hvað mestum hávegum. Ég er hlynntur því að við eigum sem mest samstarf með lýðræðisþjóðum og ég veit ekki til að nokkur maður hafi lagt til að við hyrfum frá markaðsbúskap, ég veit ekki til þess sem meginreglu þó að menn hiki við að samþykkja að það eigi að fara að selja ömmurnar.
    En hvað með lýðræðið? Er lýðræðið í Evrópu í uppsiglingu? Er það að batna? Er Efnahagsbandalag Evrópu dæmið um það lýðræði sem við viljum hafa? Svari nú hver fyrir sig. Þegar búið var að greiða atkvæði í Evrópu um Efnahagsbandalagið og Maastricht-samkomulagið, þá var það framkvæmdastjóri bandalagsins sem taldi að það væri aðalatriðið núna að reyna að koma manneskjulegra andliti á þetta bandalag vegna þess að ef þetta bandalag er borið saman við Bandaríkin, þá er þetta lýðræðislegur óskapnaður, hvorki meira né minna. Bandaríkjamenn kjósa sinn forseta vissulega í gegnum fulltrúalýðræði, kjörmenn. En engu að síður er það svo að það hefur verið samræmi á milli þess hverjir hafa náð meiri hluta með kjörmannatölu og hverjir hafa náð meiri hluta í atkvæðum.
    Forseti bandarísku þjóðarinnar er kosinn af þegnum sínum. Halda menn að Delors næði kosningu sem forseti fyrir Efnahagsbandalagið ef hann byði sig fram? Eru menn trúaðir á það? Hann á kannski stuðningsmenn hér í salnum, ég efa það ekki, sem mundu kjósa hann ef þeir hefðu tök á því, því þetta er bara venjulegur Evrópukrati sem náði þeim árangri að pota sér ávallt lengra og lengra. Nei, menn ættu aldrei að vitna til lýðræðis þegar þeir tala um uppbyggingu Efnahagsbandalagsins. Efnahagsbandalagið er ekki þannig uppbyggt að nokkur vilji kenna það við lýðræði.
    Ég ætla líka að víkja að öðru. Hér er talað um menntun barnanna okkar og þessir menn telja sig bera sérstaka umhyggju fyrir menntun barnanna okkar. Núv. formaður stjórnar Lánasjóðs ísl. námsmanna heldur því fram að íslenski lánasjóðurinn eins og hann er gefi íslenskum ungmennum betri möguleika til menntunar en nokkurs staðar sé að finna í Evrópu. Hafið þið frétt af því að það eigi að loka öllum skólum í Evrópu fyrir þeim sem sækja þangað eftir skólavist? Hefur það verið kynnt hér í sölum þingsins? Á hvaða forsendum eru menn að taka afstöðu þegar þeir búa sér til grýlur eins og þessa? Hafa íslenskir unglingar ekki verið að stunda nám í Bandaríkjunum og Evrópu? Er það virkilega svo að Evrópubandalagið hafi sagt við Íslendinga: Ef þið ekki skrifið undir þetta, þá fær enginn Íslendingur að stunda nám í Evrópu. Ef slíkar yfirlýsingar liggja fyrir, er þá ekki rétt að þær séu dregnar upp og þær séu kynntar áður en menn fari að lýsa því yfir að þeir greiði þessu atkvæði vegna menntunar barna sinna? Það þýðir ekki að búa sér til alls konar draumsýn sem forsendur fyrir stuðningi.
    Ég held að það veki líka nokkra umhugsun að hv. þm. Guðjón Guðmundsson, sem er með prúðustu þingmönnum á Alþingi Íslendinga, hefur ekki tafið fyrir umræðum með löngu máli. Hann vitnar í það að 16 samtök í ýmsum greinum atvinnulífsins hafa hvatt til þess að samningurinn verði samþykktur fyrir jól. Þá eru það starfsskilyrði atvinnufyrirtækja. Vissulega viljum við búa okkar atvinnufyrirtækjum sambærileg starfsskilyrði eftir því sem við getum innan ramma fullveldisins. En það er nú svo. Er eitthvað sem segir að ef menn hefðu verið ákveðnir í því að færa skattana yfir á almenning eins og gert var núna fyrir jólin, af fyrirtækjunum, að það hefði verið bannað að gera það vegna þess að við vorum ekki á þessu EES-svæði? Það hefur verið heimilt að gera það sl. 20 ár og lengur með lagasetningu hér á Alþingi ef það var það sem menn vildu. Það var auðvelt mál að gera slíka hluti með lagasetningu. Menn hafa aftur á móti talið að það væri ekki óeðlilegt þó að einhver dreifing yrði á skattabyrði milli fyrirtækja og fólksins.
    Ég ætla að víkja frá þessum atriðum sem komið hafa fram í máli manna þegar þeir gerðu grein fyrir atkvæði sínu, víkja að hinu atriðinu sem mér þykir þeim mun meir sem ég hugsa þetta mál, þeim mun kvíðvænlegra. Þegar menn tala um auð þessa lands, þá tala menn gjarnan um orkuna. Menn tala um fiskimiðin og menn tala um landið. En auður þessarar þjóðar, mesti auður þessarar þjóðar, er fólkið sjálft. Japanskur hagfræðingur hefur mjög haldið þeirri kenningu á lofti að auðurinn sem býr í fólkinu sjálfu, mannauðurinn, sé það sem skiptir öllu máli, það séu ekki náttúruauðlindirnar, það sé auðurinn sem býr í fólkinu sjálfu. Ég get ekki tekið undir það að í Sviss séu miklar náttúruauðlindir. Þeir hafa náð því að vera á toppnum hvað lífskjör snertir. Er Japan með svona mikil náttúruauðæfi? Í hverju eru þau fólgin ef svo er? Það er nú öðru nær. Japan státar ekki af neinum náttúruauðlindum svo að orð séu á gerandi. En þeir státa af því að eiga samhenta þjóð í sínu landi, svo samhenta að það vekur undrun og öfund margra. Þeir hafa mjög strangar reglur um innflutning á fólki til Japans, mjög strangar reglur. Viljum við skipta um þjóð í þessu landi og hvað tekur það langan tíma ef við ætlum að skipta um þjóð í þessu landi?
    Mér verður hugsað til þess sem komið hefur fram í fréttum núna nýlega að 1 / 12 af íbúum Þýskalands í dag eru útlendingar. Ég hefði talið að Þjóðverjar væru um 70 millj. þó að ég þori ekki að segja það nákvæmlega, 70--80 millj. Útlendingar eru orðnir 1 / 12. Berlínarmúrinn er vissulega fallinn. En á landamærunum við Pólland, við Tékkóslóvakíu, þar á að koma fyrir sjónvarpsvélum sem geta séð það að næturlagi með innrauðum geislum hvort menn eru að fara yfir landamærin til þess að stöðva það að menn fari inn til Þýskalands. Og Þjóðverjar voru að stórherða sína innflytjendalöggjöf. Efnahagsbandalagið var búið að taka ákvörðun um það að allir passar ættu að verða óþarfir á landamærum Evrópu núna um áramótin. En

þegar á hólminn kom leist þeim ekki á blikuna vegna hættunnar á því að það auðveldaði eiturlyfjasmyglurum að koma varningi sínum áfram og þeir myndu ekki ráða við flóttamannastrauminn inn til Evrópu. Mér stendur slík ógn af því tiltæki að láta sér detta það í hug að leyfa 380 millj. sama rétt og Íslendingum í þessu landi að ég tel að það sé ákvörðun um að skipta um þjóð í landinu. Það er ákvörðun að mínu viti um það að skipta um þjóð í landinu. Það er aðeins spurning um það á hve mörgum árum það gerist að útlendingarnir verða fleiri en Íslendingarnir í landinu.
    Ég hef heyrt þá skoðun, hún heyrist gjarnan. Þeir fara að vinna eitthvað sem við nennum ekki að vinna. Þeir fara í vinnu einhvers staðar úti á landi þar sem við nennum ekki að vera. Við horfum á þetta út frá þeim leikreglum sem í gildi hafa verið að hingað hafa komið til starfa ungmenni um tvítugt eða milli tvítugs og þrítugs til að vinna vítt og breitt um landið störf sem við höfum ekki haft fólk í. En það er ekki þetta sem er á dagskrá í dag. Það sem er á dagskrá í dag er það að verði t.d. byggt álver á Suðurnesjum, þá verða þar ekki stuðningsmenn Karls Steinars Guðnasonar, hv. þm. sem hafa neinn forgang að vinnu í því álveri, engan forgang. Það verður byggt af verktökum þetta álver. Það verður byggt af verktökum sem bjóða í verkið. Þeir sem bjóða lægst fá verkið. Þeir munu skipta verkinu niður í verkefni fyrir undirverktaka. Undirverktakarnir munu svo ráða menn til starfa.
    Það eru allar líkur til þess að það verði nægilegt framboð af blokkarhúsnæði við Keflavíkurflugvöll á næstu árum. Bandaríkjamenn munu trúlega minnka sín umsvif og fækka í sínum her á Keflavíkurflugvelli vegna þeirrar jákvæðu staðreyndar að það er orðið friðvænlegra í heiminum. Þetta húsnæði verður notað fyrir erlenda verkamenn til að búa í því, verkamennina sem munu byggja álverið, verkamennina sem munu bjóðast til þess í útboðum að vinna verkin fyrir lægra verð heldur en Íslendingarnir eru reiðubúnir að gera. Og hvers vegna segi ég þetta? Vegna þess að þetta er það sem alls staðar hefur verið gert þar sem hinir öflugu aðilar stórfyrirtækjanna hafa fengið að valsa um og flytja fólk á milli eins og þeir hafa viljað. Það er vitað mál að í umræðunum um byggingu álversins á Keilisnesi hafa komið fram óskir um það að mega flytja inn erlenda verkamenn. Það þótti ekki gott að samþykkja slíkar óskir. Þessu var haldið undir borðinu. Með því að gera þetta á þennan hátt að leyfa frjálst innstreymi fólks frá þessu samfélagi, 380 millj. manna samfélagi, þá þarf engar sérreglur í þessum efnum, þá er þetta einfaldlega heimilt. Ef sá sem fær verkið er frá Spáni, Þýskalandi, Portúgal, þá getur hann komið með þessa menn til landsins og hann getur haft þá sem undirverktaka til að vinna öll verkin.
    Um hvað er tekist á í álverinu í Straumsvík þessa dagana? Hvert er deiluefnið? Vinnuveitendasamband Íslands felldi kjarasamninginn um að þeir sem þar starfi fái kauphækkun um 1,7% vegna þess að núv. forstjóri hefur sett fram á kröfu að mikið af þeim störfum sem í dag eru unnin samkvæmt tímakaupi eða þá eftir vissum ákvæðis- eða bónusreglum verði í framtíðinni heimilt að bjóða út innan verksmiðjunnar. Og hann telur að það séu raunverulega átök um það hverjir fái að stjórna verksmiðjunni, hvort það séu eigendurnir eða hinir íslensku starfsmenn sem stjórni verksmiðjunni. Svo mikil ósvífni finnst honum það vera að Íslendingar vilji hafa með samningum áhrif á þetta.
    Ég er ekki í neinum vafa um það að ef svona stimpingar halda áfram mjög lengi, þá eiga hinir erlendu aðilar út af fyrir sig þá leið að leigja starfsemina. Það er aðferðin sem notuð hefur verið ef ekki semst við verkalýðsfélög af þessum aðilum. Svo eru verkþættirnir boðnir út.
    Ég veit að hv. þm. Karl Steinar Guðnason meinar vel í sinni umhyggju fyrir því að efla atvinnulíf á Suðurnesjum. Ég veit að hann hefur flutt hér tillögu og viljað að þar yrði reist fríiðnaðarsvæði til að efla þar atvinnu. En mér er jafnljóst að það sem við erum að gera með því að samþykkja að 380 milljón manna samfélag fái fulla aðstöðu til þess að flytja til Íslands verkamenn, þá erum við að samþykkja það að hér á Íslandi verður viðvarandi verulega mikið atvinnuleysi á næstu árum. Það er það sem við erum að samþykkja. Það er mikið atvinnuleysi í Evrópu. Það er viðurkennt að það atvinnuleysi mun fara vaxandi, ekki aðeins á næsta ári eða þar næsta, nei, nei, nei. Atvinnuleysið er talið fara vaxandi fram á næstu öld og mér er spurn, treystir einhver sér til að segja að það séu einhver endalok á því atvinnuleysi? Hvað halda menn að þeir sjái langt fram í tímann? Ég gef nú lítið fyrir það að menn telji að það verði endir á því atvinnuleysi árið 2005 eða 2010. Sá sem er atvinnulaus í dag vill fá úrræði fyrr. Skiptir það engu máli fyrir rökræna hugsun í þessum sal að þeir sem studdu það að íslenskt verkafólk tæki að sér að greiða aðstöðugjaldið fyrir fyrirtækin í landinu svo að hér yrði meiri atvinna í landinu, það verði þá íslenskt verkafólk sem hafi forgang að þeim störfum sem skapast skapist störf vegna þessarar ákvörðunar? Eða er mönnum alveg sama þó að verkamaðurinn sem um næstu mánaðamót fær minna greitt út úr sínu launaumslagi en hann fékk á seinasta ári, þó að peningarnir sem sagt er að verði eftir með þessu móti eins og fjmrh. segir eigi að fara í það að skapa atvinnu í landinu, skiptir menn engu máli hvort sú atvinna verður fyrir Íslendinga eða útlendinga?
    Hæstv. utanrrh. sagði hér í gær: Gerum við ráð fyrir því, sagði hann, ef við spilum knattspyrnu á móti annarri þjóð að við megum hafa íslenskan dómara? Og ég sá að hann horfði á okkur hér hina í salnum eins og þar væri safn fáráðlinga sem þar sætu. Ef við höfum spilað knattspyrnu, t.d. við Dani, þá er dómarinn hvorki danskur eða íslenskur. En hver verður dómarinn ef við spilum efnahagslega knattspyrnu við Evrópubandalagið? Hver verður dómarinn? Verður hann þá kínverskur, japanskur eða bandarískur? Það skyldi þó ekki vera að það væri fulltrúi Efnahagsbandalagsins sem væri dómarinn í knattspyrnunni? Ætli hæstv. utanrrh. hefði ekki mátt hugsa sína samlíkingu örlítið betur til enda áður en hann lét þetta fara?

    Eitt af þeim sígildu verkum heimsbókmenntanna sem hverjum manni ætti að vera skyldulesning er bókin ,,Þrúgur reiðinnar`` eftir John Steinbeck. Þegar plantekrueigendurnir í Kaliforníu settu auglýsinguna í blöðin um það að þá vantaði menn í vinnu, þá kom hvergi fram hversu marga þá vantaði. En frá mörgum svæðum í Ameríku streymdu menn til Kaliforníu út á auglýsinguna og ætluðu að fá þar vinnu. En þegar þeir komu á staðinn með sína búslóð og sína fjölskyldu blasti sá veruleiki við að það voru miklu fleiri mættir en þeir sem gátu fengið vinnu. Biðraðirnar voru til staðar og Vegbúinn hefur verið sunginn á Íslandi í tengslum við ágætan flutning á þessu verki í Borgarleikhúsinu. Ætli það reynist ekki svo að þeir verði ansi margir vegbúarnir innan hins Evrópska efnahagssvæðis þegar menn telja að það sé lausn á allsherjarvanda að jafna út atvinnuleysið með því að hafa atvinnuleysið alls staðar svipað á svæðinu? Ætli niðurstaðan verði ekki sú ef menn vilja vera sanngjarnir og fara að hugsa að við búum við það að auðvitað fá einhverjir Íslendingar vinnu erlendis sem þangað fara og útlendingar sem hingað koma. En ef Ísland á að halda sér á svipuðum stalli og það hefur gert hvað lífskjör snertir, þá hlýtur það að vera staðreynd að fólk sunnan til úr Evrópu mun koma til Íslands eins og það mun koma til hinna svæðanna sem hafa haft bestu lífskjörin. Það er sú staðreynd sem blasir við.
    Ég vakti á því athygli hvernig við tækjum á móti erlendum börnum í dag sem koma í íslenska skóla. Við setjum þau í sérkennslu, tökum það af sérkennslukvóta skólanna. Staðreyndin er sú að við ráðum illa við það verkefni sem þar er við að glíma. Svíar eru farnir að draga í land með það hvað þeir ætla að gera fyrir erlend börn sem koma til Svíþjóðar af sparnaðarástæðum. Ætli það verði ekki harla lítið sem við gerum fyrir erlendu börnin sem hér verða?
    Ég ætla að víkja að því að bandarískir félagsfræðingar hafa eins og fleiri glímt við það að meta hvort sennilegt sé að takist að búa til Bandaríkin Evrópu eins og sumir hafa verið að ala með sér draum um. Og þeir hafa vissulega horft á að í Evrópu eru töluð mörg tungumál. Þar eru í reynd margar þjóðir og þeir brjóta um það heilann, er það til blessunar fyrir álfuna að í staðinn fyrir að hver tungumálahópur sé nú á sínum stað og skilji hvern annan innbyrðis, þá dreifist tungumálahóparnir út um alla álfuna þannig að menn skilji takmarkað hverjir aðra. Og niðurstaðan er sú að þetta ætlunarverk muni ekki skila þeim árangri sem menn ætla. Hæstv. utanrrh. hefur líka gefið út sína skoðun á því að þetta muni ekki blessast með stórríkið í Evrópu. Ég ætla ekki að biðja því stórríki neinna bölbæna. Ég vona að þeir komist hjá sem mestum kynþáttavandamálum, ég vona það svo sannarlega. Og ég vona það líka að Íslendingar komist fram hjá slíku. En ég hef ekki séð það áður í spádómi hjá völvu vikunnar að það sé von á kynþáttaátökum á Íslandi. Það þarf reyndar ekki mikið við til að sjá það fyrir að við erum að stefna inn í það umhverfi sem kallar á slíkt.
    Við höfum séð það í blöðum þegar hæstv. félmrh. hefur átt undir högg að sækja með það að fá samþykki íbúðareigenda í næsta nágrenni fyrir því að ýmsir hópar í samfélaginu mættu búa á ákveðnum stöðum í Reykjavíkurborg og það á ekki frekar við Reykjavíkurborg heldur en aðra staði. Mér er ljóst að þeir munu margir trúa því að þessi vandamál munu fylgja blokkaríbúðunum, það verði þar sem þessir aðilar setjist að. Það verði hvorki úti á Arnarnesi eða í dýrustu hverfum þessarar borgar. Ég er nú ekki alveg viss um að þeim verði að ósk sinni í þeim efnum. En hitt er umhugsunarefni ef menn telja það lausn á vandamálum íslensks efnhagslífs að veita frelsi til þess að menn megi hafa hér búsetu án þess að við getum stuggað við þeim eins og við vissulega getum í dag gagnvart þeim sem ekki hafa íslenskt ríkisfang að hleypa inn í landið ákveðnum hópum múhameðstrúarmanna m.a. til þess að skapa hér enn meiri glundroða. Meðan íslenska samfélagið er svo yfirgnæfandi að styrkleika að þeir sem koma hér inn verða að beygja sig undir þær samfélagsvenjur og þau lífsviðhorf mestu leyti sem við höfum mótað þá erum við í reynd að færa þá inn í okkar samfélag til þess að þeir verði hluti af íslensku samfélagi. Ef þessi blanda er aftur á móti það sterk að hún tekur yfir, þá verða það þeirra siðvenjur sem fara í vaxandi mæli að setja svip sinn á samfélagið.
    Ekki veit ég hvort hæstv. umhvrh. gegnir hlutverki fyrir utanrrh. hér í umræðunum um að vera við svo að Alþfl. hafi hér einn ráðherra sem hlusti á mál manna. Það má vel vera að svo sé og ég hef nú ekkert á móti því. En ég sé að hann skrifar eitt og annað niður. Mér kæmi ekkert á óvart þó að það sem maður fengi á sig eftir að segja svona lagað væri það að maður væri á móti útlendingum. Þar væri sko Framsfl. rétt lýst, þeir væru á móti útlendingum, alfarið á móti útlendingum.
    Ég ræddi núna um jólin við Íslending sem býr með danskri konu í Danmörku og leigir hús af Pakstiana. Hann sagði mér ýmsar skrýtnar sögur af því hvernig það væri að halda Pakistanum til danskra laga til þess að hann uppfyllti þær skyldur sem honum er ætlað að gera. Og mig undrar það mjög hvers vegna menn vilja kalla það yfir sig að hingað til lands geti menn flutt í atvinnuleit í stórum hópum, brotamenn sem búnir eru að taka út sína refsingu, góðkunningjar lögreglunnar í Frakklandi, Þýskalandi, Bretlandi eða hvar sem er og við eigum ekki að hafa neina aðstöðu til þess að ráða því hvort þeir setjast hér að. Er það af umhyggju fyrir börnunum okkar sem við leggjum þetta til? Hér hafa menn lýst því yfir að þeir væru að styðja þetta af umhyggju fyrir börnunum. Að mínu viti er hér um svo alvarlegan hugsanafeil að ræða að láta sér þetta það í hug að þetta gangi upp án illinda, án blóðsúthellinga, án dauðsfalla að ég á ekkert einasta orð yfir það þekkingarleysi á því sem er að gerast á þessum hnetti þegar menn trúa því, ekkert einasta orð.
    Það vantaði ekki að við Íslendingar höfum viljað skipta okkur af utanríkismálum til þess að hvetja

til þess að þessi eða hin þjóðin fengi sjálfstæði. Við börðumst hart fyrir Ísraelsmenn á þingi Sameinuðu þjóðanna. Virða þeir mannréttindi? Þar er nýjasta tegund af þrælahaldi í framkvæmd á herteknu svæðunum, nýjasta tegund af þrælahaldi. Hvað með Eystrasaltslöndin sem núna flokka íbúa sína í sundur eftir því hvort þeir eiga rússneska foreldra eða hvort þeir eru innfæddir? Hvað með Balkanskagann þar sem blóðug átök eiga sér stað og hryllingurinn og viðbjóðurinn er slíkur að maður leyfir sér það að trúa því og vona að það sé ekki allt satt sem sagt er. Samt sem áður teljum við að það sé allt í lagi að hafa hömlulausan innflutning á útlendingum inn í landið þó að við vitum að þessi þjóð er það fámenn að hún hlýtur að geta lent í sömu vandræðum og aðrir ef þetta er gert.
    Ég hlustaði á hv. þm. Björn Bjarnason minnast á ýmis atriði eins og m.a. gullskip til að prófa það hvernig menn hefðu nú staðið sig hér í þinginu. Hv. þm. má gjarnan fletta upp á mínum afskiptum í þeim efnum. Það hefur verið gert í íslenskum blöðum. Ég kvíði því ekki eftir 10 ár þó að flett verði upp á þessum umræðum og þær skoðaðar. Afleiðingarnar verða þá farnar að koma í ljós. Þær koma ekki í ljós á einum eða tveimur dögum. Kauphækkunin sem hæstv. utanrrh. boðaði og hugsanlega gæti orðið upp á 3%, 3% strax í ræðunni hér í gær og mikið meira seinna vegna hagnaðar upp á 7 milljarða sem blöstu við, sú kauphækkun kemur þó trúlega til framkvæmda 1. mars. Hún kemur þó trúlega til framkvæmda. En það er merkilegt hversu mikið ofurkapp menn leggja á það að blanda því saman að hér sé gerður viðskiptasamningur og hér sé gerður samningur sem fjalli um margt, margt annað en viðskipti. Auðvitað þurfa Íslendingar að vinna að gerð sinna viðskiptasamninga. Stundum tekst vel og stundum miður. Mér er ljóst að það er margt í þeim viðskiptasamningi sem nú hefur verið gerður sem er jákvætt. Ég tel aftur á móti af og frá að hægt sé að kaupa hann því verði sem menn eru að tala um.
    Í lokin vil ég víkja að einum punkti. Evrópubandalagið hefur eftir gerð þessa samnings, sem trúlega verður nú senn lögfestur hér, hefur fulla aðstöðu til þess að styrkja sinn sjávarútveg mjög verulega. Það er hægt að styrkja samkvæmt þeirra leikreglum t.d. uppbyggingu á fiskvinnsluhúsi sem ætti að framlengja rétti fyrir neytendur um hvorki meira né minna en 75% af stofnkostnaði. Ef húsið er byggt á svæðum þar sem mikið atvinnuleysi er og heimaaðili hefur möguleika til að veita þar líka stuðning.
    Mér er það ljóst að lækkun tollanna mun vissulega færa okkur einhvern ávinning og líka neytendum, mér er það ljóst. En ég er sannfærður um það að sá sem á 100 millj. og vill leggja þær í það að byggja fyrirtæki sem ætlar að fullvinna vörur fyrir neytendur mun fremur fjárfesta í Evrópu til að gera það heldur en hér á landi.