Evrópskt efnahagssvæði

97. fundur
Föstudaginn 08. janúar 1993, kl. 15:27:34 (4490)

     Páll Pétursson (um þingsköp) :
    Mér þykir það með ólíkindum, frú forseti, hvað stendur í hv. þm. núna, svo flugskýr og fljótur að

hugsa sem hann er, að svara þeim andsvörum sem að honum hefur verið beint. Ég tek það svo að landráðabrigsl hans um menn sem héðan eru farnir eða hér voru 1968 séu dauð og ómerk. Hann getur ekki fundið þeim stað.
    Úr því að ég er kominn hér vil ég gjarnan koma á framfæri svari við spurningu hv. 3. þm. Reykv. sem ég vona að heyri mál mitt. Hann beindi til mín spurningu í andsvörum fyrr í dag þar sem hann spurði um afstöðu mína til gullskipsins.
    Það þingmál sem um er að ræða er frv. til laga um heimild handa ríkisstjórninni til að ábyrgjast lán vegna björgunar skipsins Het Wapen van Amsterdam. Flm. þess voru Birgir Ísl. Gunnarsson, Þórarinn Sigurjónsson, Sverrir Hermannsson og Magnús H. Magnússon. 1. gr. hljóðaði svo:
    ,,Ríkisstjórninni er heimilt að ábyrgjast lán, sem tekið yrði vegna björgunar skipsins Het Wapen frá Amsterdam, allt að 50 millj. kr., gegn þeim tryggingum sem fjmrn. telur fullnægjandi, svo sem í verðmæti hins bjargaða og söluandvirði skipsins úr landi, enda liggi fyrir samþykki fjárveitinganefndar.``
    Svona hljóðaði lagatextinn. Við atkvæðagreiðslu 2. mars 1983 í Nd. féllu atkvæði þannig: Já sögðu Alexander Stefánsson, Birgir Ísl. Gunnarsson, Friðrik Sophusson, Geir Hallgrímsson, Guðmundur J. Guðmundsson, Guðmundur G. Þórarinsson, Halldór Ásgrímsson, Halldór Blöndal, Magnús H. Magnússon, Matthías Bjarnason, Matthías Á. Mathiesen, Pétur Sigurðsson, Ragnar Arnalds, Skúli Alexandersson Steinþór Gestsson, Þórarinn Sigurjónsson og Sverrir Hermannsson.
    Nei sögðu: Garðar Sigurðsson, Guðrún Helgadóttir, Ólafur Þ. Þórðarson, Páll Pétursson, Stefán Valgeirsson og Vilmundur Gylfason.
    Þá liggur það ljóst fyrir hvernig ég greiddi atkvæði. Ég ætla að lesa greinargerð Ólafs Þ. Þórðarsonar með atkvæði sínu:
    ,,Herra forseti. Týnd og sokkin skip hafa ekki verið talin veðhæf. Ég tel ekki rétt að breyta þeirri hefð og segi því nei.``
    Í Ed., svo að öllu sé til skila haldið, gengu atkvæði um brtt., nokkurs konar frávísunartillögu um málið. Þar sögðu já, þ.e. voru andvígir þessari heimild: Eiður Guðnason, Karl Steinar Guðnason, Kjartan Jóhannsson og Helgi Seljan.
    Nei sögðu, þ.e. voru meðmæltir að veita ábyrgðina: Þorv. Garðar Kristjánsson, Davíð Aðalsteinsson, Egill Jónsson, Guðmundur Bjarnason, Jón Helgason, Lárus Jónsson, Ólafur Ragnar Grímsson, Salome Þorkelsdóttir, Stefán Guðmundsson og ég vil taka fram að Eyjólfur Konráð Jónsson, Guðmundur Karlsson og Tómas Árnason greiddu ekki atkvæði um þetta mál.
    Þessu er þá komið á framfæri og tel ég mig hafa svarað hinni mikilvægu fyrispurn hv. 3. þm. Reykv. Það var ekki að ófyrirsynju að hann spyrði þar sem þetta mál, samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði, er leit að svipuðu gullskipi og væntanlega með svipuðum árangri og menn fjölluðu um 1983.