Evrópskt efnahagssvæði

97. fundur
Föstudaginn 08. janúar 1993, kl. 16:22:41 (4495)


     Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Eins og ég hef margoft nefnt, þá erum við í þessu máli að meta og vega kosti og galla. Og eins og ég sagði áðan, þá er stærsti og langstærsti kosturinn við samninginn tollalækkanir. En hv. 17. þm. Reykv. talar eins og við værum svipt öllu viðskiptafrelsi og þeim samningum sem við þegar höfum. Ég minni á að það stendur í áliti meiri hluta utanrmn. að þeir samningar sem við höfum þar á meðal bókun 6, stendur áfram og hún er mjög mikilvæg.
    Við erum líka að benda á að það eru viðskiptaleg rök sem eru yfirþyrmandi í málflutningi stjórnarþingmanna en menn horfa alveg fram hjá öðrum rökum, stöðu íslensku þjóðarinnar, framtíð íslensku þjóðarinnar í þessum alþjóðatengslum. Það sem við höfum verið að benda á er að við eigum aðra möguleika, við höfum vanrækt Bandaríkjamarkað og þar eru ýmsir möguleikar og þeir möguleikar eru til annars staðar í heiminum. Innan örfárra ára fer Austur-Evrópa vonandi að rísa úr rústum og þá opnast þar markaðir þannig að það er ekki svo að við séum að læsa okkur inni --- eða við verðum hér ein og yfirgefin norður í Ballarhafi. Menn mega ekki horfa svona þröngt og loka augunum fyrir því að ýmsir aðrir möguleikar eru til í stöðunni. Við erum að vega þetta og meta og mér finnst þessi rök, þessar tollalækkanir, ekki duga til þess að sannfæra mig um það að við eigum að samþykkja þennan samning. Þar vega önnur rök þyngra. ( Gripið fram í: Þetta hefur þjóðinni skilist nú þegar.)