Evrópskt efnahagssvæði

97. fundur
Föstudaginn 08. janúar 1993, kl. 18:01:02 (4510)

     Frsm. 2. minni hluta utanrmn. (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég skal fúslega gera þá játningu að í þessari umræðu, sem staðið hefur alllengi um Evrópska efnahagssvæðið, þá hef ég haldið mig meira til hlés en ég hef í rauninni geð til en nú eftir síðustu ræðu held ég að mál séu komin þannig að ég verði að setja mig á mælendaskrá því ég óttast að tími minn til andsvara nýtist ekki til þess sem ég vildi gjarnan sagt hafa.
    Hv. þm. Svavar Gestsson hafði greinilega miklar áhyggjur af því að utanrrh. og forsrh. hældust um það að samningnum og ríkisstjórninni hefði bæst liðsauki hér á þingi. Sex þingmenn hefðu bæst við sem nokkurs konar liðsauki til ríkisstjórnarinnar og við þennan samning.
    Nú er það þannig að maður getur ekki valið sér viðhlæjendur. Því miður er það nú svo. Og maður getur heldur ekki valið sér það að menn beri fyrir manni svo mikla umhyggju að hún verði kæfandi stundum. Þannig er þetta nú. Hvorki viðhlæjendurnir né umhyggjan verður valin.
    Það er náttúrlega fráleitt að túlka afstöðu mína og annarra hjásetumanna sem einhvern stuðning við ríkisstjórnina. Það er algerlega fráleitt. Og ég segi fyrir mig að hvorki fyrrv. ríkisstjórnarflokkum né núv. ríkisstjórnarflokkum á ég neina skuld að gjalda, hvorki í þessu máli né öðrum. Ég hlýt að taka efnislega afstöðu í þessu máli og ber engan kinnroða og enga sektarkennd vegna afstöðu minnar. Það ættu kannski hins vegar hörðustu andstæðingar Evrópska efnahagssvæðisins í Alþb. og Framsfl. frekar að gera en ég. Vegna þess að það voru þeir sem hófu þetta ferli. Það voru þeir sem ákváðu að stíga skrefið inn í þetta samningaferli. Af hverju eru þeir ekki með sjálfsgagnrýni? Af hverju voru þeir að blanda geði við tröllin sem nú eru svo ógurleg að ef maður réttir þeim litla fingur, þá grípa þau alla höndina. Vissu þeir þetta ekki þá? Er þetta nýr sannleikur? Var þetta ekki fyrsta skrefið inn í Evrópubandalagið þegar þeir ákváðu að fara inn í þetta samningaferli? Er það bara núna? Hver er eðlisbreytingin? Innri markaðurinn var til staðar þá og menn geta ekki krafsað bara hvert sem þeim sýnist eftir rökum.
    Það er talað um atvinnuleysi og að við séum að fá yfir okkur eitthvert smitandi atvinnuleysi ef við gerumst aðilar að EES. En sömu menn vilja samt fjórfrelsi og aðild að innri markaði. Ef það er eitthvað sem veldur atvinnuleysinu, þá er það hugsanlega innri markaðurinn og fjórfrelsið.