Evrópskt efnahagssvæði

97. fundur
Föstudaginn 08. janúar 1993, kl. 18:37:45 (4526)


     Frsm. 1. minni hluta utanrmn. (Steingrímur Hermannsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Það sem ég sagði hér áðan er að mat Þjóðhagsstofnunar og reyndar mat EFTA-ríkjanna, bæði einstakra ríkja og EFTA sem heildar, er byggt á fyrrnefndri skýrslu sem var gerð fyrir Evrópubandalagið. Það er byggt á henni og hún lögð til grundvallar í því mati sem hér hefur verið gert. Þess vegna, þegar nú er talið að sú skýrsla sé ofmat, hlýtur það að sjálfsögðu að hafa áhrif á mat hinna EFTA-þjóðanna. Það er þá líka ofmat. Ég held að þetta hljóti að liggja í hlutarins eðli.
    En þetta er alls ekki aðalatriðið í því sem ég hef rætt um. Aðalatriðið er það að því miður fór hæstv. utanrrh. með alrangar tölulegar upplýsingar hér í gær. Svo rangar að ég minnist þess varla að hafa heyrt verra flutt. Það er að vísu sagt að það megi tala mörgum tungum með tölum. Það getur vel verið. En ég hef aldrei heyrt seilst svo langt. Og ég endurtek það sem ég sagði áðan, ég þekki ekki hæstv. utanrrh. að því að gera það viljandi og ég held að hann væri maður að meiri með því að leiðrétta þessar tölur og flytja þær hér eins og þær eru réttar.