Evrópskt efnahagssvæði

98. fundur
Laugardaginn 09. janúar 1993, kl. 16:16:21 (4571)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Nema hvað, hv. þm., nema hvað? Hvenær hefur annað staðið til en að Ísland væri Evrópuþjóð í menningarlegu tilliti, uppruna síns og samskipta vegna? Það hefur aldrei neinn nefnt neitt annað. Það væri þá helst að Ísland væri Ameríkuþjóð að því leyti til að við skrifuðum sögu Grænlendinga á ákveðnu tímabili sem eru jú Ameríkuþjóð eins og allir vita. Og í viðskiptalegu tilliti verðum við það auðvitað að verulegu leyti.
    Menn geta deilt um það hvort við höfum kannski gengið of langt í því, eins og menn eru að skrifast á um í blöðunum í morgun, að vanrækja aðra markaði nú þegar eins og Ameríkumarkað. Ég er þeirrar skoðunar að við höfum í raun og veru glatað þar dýrmætum hagsmunum sem við vorum búnir að kosta til við að byggja upp. En ég er hræddur um að slík sjónarmið muni eiga enn erfiðara uppdráttar ef sú keyrsla inn í þetta tollmúrabandalag Evrópubandalagsins heldur áfram sem hér er boðuð. Ég er sannfærður um að staða Íslands er betri ekki sem agnarlítils tannhjóls inni í þessu gangverki heldur sem sjálfstæðs, fullvalda aðila.