Evrópskt efnahagssvæði

98. fundur
Laugardaginn 09. janúar 1993, kl. 18:15:29 (4586)

     Valgerður Sverrisdóttir (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Jú, það er ein af ástæðunum fyrir því að ég treysti mér ekki til þess að greiða atkvæði gegn Evrópsku efnahagssvæði að ég tel að við séum þá að vissu leyti að aðskilja okkur frá nágrannaþjóðum okkar. Það er alveg rétt, ég lít svo á málið. En ég er ekki þar með að segja að við munum elta Svía og Norðmenn inn í Evrópubandalagið. Ég tel að þegar við höfum gerst aðilar að Evrópsku efnahagssvæði séum við að mörgu leyti komin inn í þetta samstarf. Við höfum alla vega ekki einangrað okkur frá þessum þjóðum þó svo að við förum ekki með þeim alla leið inn í Evrópubandalagið og það vil ég að komi skýrt fram að ég er algerlega andvíg því að Ísland gangi í Evrópubandalagið. En ég tel að þessi samningur, sem fyrst og fremst snýst um viðskipti, geti verið góð millileið fyrir þessa þjóð. Við afsölum okkur ekki fullveldi. Við erum áfram sjálfstæð þjóð þó svo við gerumst aðilar að þessum samningi og hann er okkur að ég tel mikilvægur vegna þeirra miklu viðskiptahagsmuna sem við eigum á þessu svæði. Ég vil að við höldum áfram því mikilvæga starfi sem við höfum átt við nágrannaþjóðir okkar, t.d. Norðurlandabúa, og veit ég að hv. þm. getur verið mér sammála um að það samstarf hefur verið okkur mjög mikilvægt.
    Eitt af því sem hefur verið nefnt er samstarf á sviði menntunar og þó svo að við höfum sem aðilar að EFTA náð þar samningum við Evrópubandalagið sem tryggi okkur aðgang að háskólum þá verður að reikna með því að það komi að því að EFTA verði ekki lengur til og ef við stæðum þá utan við Evrópskt efnahagssvæði þá tel ég að leiðir mundu lokast sem eru mikilvægar þessu þjóðfélagi og okkar unga fólki og varða menntunarmöguleika á meginlandi Evrópu.