Evrópskt efnahagssvæði

98. fundur
Laugardaginn 09. janúar 1993, kl. 20:07:02 (4605)

     Frsm. meiri hluta utanrmn. (Björn Bjarnason) (andsvar) :
    Herra forseti. Ég ætla ekki að ræða þessa síðustu ræðu en það kemur mér á óvart að hv. þm. lýsir því annars vegar yfir að hann þurfi kannski 2--3 ár til þess að átta sig á málinu og e.t.v. eftir þann tíma kynni hann að styðja það. En hann segir einnig að það eigi að fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla um málið. Hvað þarf að líða langur tími þangað til hún getur fram miðað við að hann þurfi kannski 2--3 ár í viðbót til þess að átta sig á málinu? Og hann segir einnig að eftir 2--3 ár kunni hann að styðja málið en heldur því svo fram í hinni andránni að hér sé um stjórnarskrárbrot að ræða. Mér finnst þetta atriði í ræðu þingmannsins ákaflega undarlegt og raunar einkenndist ræðan af miklum andstæðum þannig að það er mjög erfitt að átta sig á því hvaða skoðun þingmaðurinn hefur á þessu máli eins og svo mörgum öðrum.
    Hann spurði mig um það hvaða áhrif þessi samningur hefði á löggjafarvaldið. Það er samdóma álit allra þeirra sérfræðinga sem lagt hafa fram skriflegar álitsgerðir til Alþingis að þetta snerti ekki löggjafarvaldið, samningurinn snerti ekki löggjafarvaldið og skerði það ekki þannig að þingmaðurinn ætti að kynna sér þessi gögn, lesa þau og þá kæmist hann að raun um að þessi spurning til mín var algjörlega óþörf því að samningurinn snertir ekki löggjafarvaldið. Það verður síðan komið á laggirnar sérstakri samstarfsnefnd EFTA-þingmanna og EB-þingmanna um EES-samstarfið og þar verður unnið að þessum málum.
    Það kom einnig fram hér í umræðunum og í orðaskiptum milli mín og hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar að í utanrmn. hefur verið rætt um það hvernig staðið skuli að málum sem tengjst Evrópska efnahagssvæðinu hér á Alþingi og mér finnst sjálfsagt að þingmenn athugi það. Það eru ýmsar leiðir til í því. Við þurfum að velta því fyrir okkur. Að því er einnig vikið í áliti meiri hluta utanmrn. sem ég bendi þingmanninum á að lesa. Hann getur lesið það fyrir mánudaginn þannig að hann áttar sig þá á meginatriðum þessa máls.