Evrópskt efnahagssvæði

98. fundur
Laugardaginn 09. janúar 1993, kl. 20:09:20 (4606)

     Ingi Björn Albertsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þetta andsvar var nú með ólíkindum og er auðvitað ekki svara vert. Ég ætla að reyna að útskýra það fyrir hv. þm. að ég sagði það að ef menn ættu að kynna sér málið í botn og geta tekið þá afstöðu með heildarmyndina fyrir framan sig, þá teldi ég að þyrfti 2--3 ár til þess. Ég geri mér hins vegar alveg grein fyrir því að hv. þm. og fleiri eru ekki tilbúnir að gefa okkur þennan tíma og þess vegna hlýtur krafan að vera sú að það fari fram þjóðaratvæðagreiðsla. Þetta hélt ég að meira að segja þessi hv. þm. skildi. Og ég hélt líka að þessi hv. þm. gæti komið einu sinni hingað upp í stólinn án þess að vera með einhverjar dylgjur. (Gripið fram í.) Hrokinn er meðfæddur og ég geri ekkert með hann. En ég hélt það væri hægt að tala einu sinni eins og menn gera yfir höfuð og almennt. Auðvitað er skerðing á löggjafarvaldinu. Hvernig ætlar hv. þm. að breyta þeim lögum sem koma að utan inn á Alþingi fyrir okkur að fara yfir og synja eða samþykkja? Ætlar hann að breyta þeim á einn eða annan hátt? Ég vildi gjarnan biðja hv. þm. um að sýna mér fram á hvernig hann fer að því. Ég sé ekki hvernig hann ætlar að gera það. Þau koma hingað og við eigum annaðhvort að hafna þeim eða samþykkja. Ef við höfnum þeim hvað gerist þá, hv. þm., veit hann það?