Evrópskt efnahagssvæði

98. fundur
Laugardaginn 09. janúar 1993, kl. 20:11:26 (4607)

     Frsm. meiri hluta utanrmn. (Björn Bjarnason) (andsvar) :
    Herra forseti. Ég skrifaði það orðrétt eftir þingmanninum. Hann sagði: ,,Ef ég fengi tvö til þrjú ár kynni ég að styðja þetta mál.``

    Það var ég að vitna í. Ég var ekkert að snúa út úr neinum orðum. Þingmaðurinn sagði þetta. Það er mjög eðlilegt að ég spyrji: Hvað þurfa þá aðrir langan tíma til þess að átta sig á málinu? Ef þingmaðurinn þarf, eftir að málið hefur verið til umræðu meira og minna síðan 1989, enn tvö til þrjú ár til þess að átta sig á því hvað í frv. felst og hvað í málinu felst hvað eiga þá aðrir að gera sem ekki hafa setið á Alþingi eins og hann hefur gert síðan 1989?
    Varðandi hitt atriðið finnst mér ástæðulaust fyrir þingmanninn að spyrja mig um það hvernig eigi að fara með þau mál sem koma og tengjast Evrópska efnahagssvæðinu. Við höfum nú þegar fjallað um fjölmörg slík frv. á Alþingi og það hefur verið meiri samstaða um þau mál en samninginn sjálfan. Það hefur náttúrlega komið í ljós að við höfum marga möguleika til þess að laga þau frv. og þessar hugmyndir að íslenskum lögum og íslenskum veruleika. Þingmaðurinn getur, ef hann leggur sig fram um að kynna sér það, skoðað þessi frv. og þær breytingar sem á þeim hafa orðið í meðferð Alþingis. Og þannig verður með þessi mál. Við getum lagað þau að íslenskum aðstæðum. Við getum breytt þeim og við getum líka neitað þeim. Við verðum þá að vera menn til að standa á því að hafna þeim. Þá fer ákveðið ferli í gang samkvæmt þessu samkomulagi en við erum alls ekki sviptir neinum rétti.
    Það er rangt hjá þingmanninum að halda því fram að löggjafarvaldið sé skert með þessum samningi. Enginn lögfræðingur hefur haldið því fram. Þingmaðurinn ætti að kynna sér þau gögn sem liggja fyrir, lesa þær álitsgerðir sem liggja fyrir og þá þyrfti hann ekki að spyrja jafnbarnalega og hann hefur gert.