Samningar við EB um fiskveiðimál

99. fundur
Mánudaginn 11. janúar 1993, kl. 15:05:36 (4633)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það var afskaplega prúður og lítillátur hæstv. sjútvrh. sem kom í stólinn og reyndi að klóra í bakkann. Það er skiljanlegt. Það er auðvitað skylda hæstv. ráðherra að reyna að halda uppi málamyndavörnum fyrir þennan samning úr því að hann hefur ákveðið að láta hann yfir sig ganga.
    Ég tel óhjákvæmilegt að hv. 7. þm. Reykn. verði gert aðvart um þau ummæli sem hæstv. sjútvrh. hafði hér m.a. um framgöngu fyrri ríkisstjórnar í þessu máli. Því að eins og oft endranær þegar stjórnarliðar lenda í vandræðum, þá reyna þeir að finna sér málsvörn í því að þetta hafi nú verið lagt til eða stungið upp á þessu eða ýjað að svipuðum hlutum í tíð fyrri stjórnvalda og þar með sé það gott og blessað. En ég vil leyfa mér að fullyrða að hæstv. sjútvrh. gengur mjög langt í því að túlka niðurstöður funda sem áttu sér stað í tíð fyrri ríkisstjórnar að halda því fram hér að á þeim fundum hefði komið fram að Íslendingar væru reiðubúnir til að semja, að Íslendingar hefðu gert tilboð í þeim anda sem þessi samningur núna er. Þetta er einfaldlega rangt. Ég tel óhjákvæmilegt að það verði farið rækilega yfir það hvað þarna var á ferðinni og bestur til þess er auðvitað hæstv. fyrrv. forsrh. Ég treysti því þess vegna umræðunni ljúki ekki fyrr en hv. 7. þm. Reykn. hefur komið hingað og fengið vitneskju um ummæli hæstv. sjútvrh. og getur svarað þeim.